Rússahatur og vestrænt dramb

Í kalda stríðinu var heiminum skipt upp í tvo hluta, lýðræðis og kapítalisma annars vegar og hins vegar kommúnisma og ríkisreksturs. Þjóðum heims var gert að velja þar á milli. Kalda stríðinu lauk fyrir bráðum 30 árum.

Bandaríkin og Nató stóðu grá fyrir járnum andspænis Sovétríkjunum og Varsjárbandalaginu, sem steyptust í glötun með falli Berlínarmúrsins.

Rússland og Sovétríkin voru samheiti í kalda stríðinu og þriðja samheitið var kommúnistaríki. Tvö af þessum heitum, Sovétríkin og kommúnistaríki, eru merkingarlaus. Það þarf að fara austur til Kína og Norður-Kóreu til að finna kommúnistaríki. 

Uppspretta Rússahaturs samtímans er ekki hugmyndafræði heldur vestrænt dramb. Eftir fall Sovétríkjanna varð til sniðmát um yfirburði vestræns lýðræðis og kapítalisma. Bók Francis Fukuyama um endalok sögunnar var ein útgáfa. Sniðmátið gerði ráð fyrir að öll heimsbyggðin yrði vestræn.

Í stuttu máli virkaði sniðmátið ekki, hvorki í miðausturlöndum né í Austur-Evrópu. Enn síður á fjarlægari slóðum, samanber Kína.

Í stað þess að endurskoða sniðmátið leituðu vestræn ríki að afsökun fyrir því að sniðmátið um vestræna yfirburði virkaði ekki. Rússland og Pútín urðu blórabögglar þegar vestrænn yfirgangur mætti köldum veruleika.   


mbl.is Taka mið af stærð Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vestrænt einelti gagnvart Rússum

Engar sannanir eru fyrir aðild rússneskra yfirvalda að eiturtilræðinu í Sailsbury á Englandi. Breska ríkisstjórnin ákvað að gera stórpólitískt mál úr tilræðinu fyrst og fremst til að þjóna innlendum hagsmunum - upplausninni vegna Brexit.

Evrópusambandið er til í aðför að Rússum á veikum grunni. ESB notar Rússahatur til að halda veiku ríkjasambandi við lýði - aftur Brexit. Bandaríkin hökta með enda háð evrópskum velvilja í átökum í miðausturlöndum og Úkraínu.

Ísland virðist hafa tekið þann kost að sýna þykjustusamúð með vestrænu einelti gagnvart Rússum með því að aflýsa fundum með fulltrúum rússneskra stjórnvalda. Það er skárra en að stökkva á eineltisvagninn þótt stórmannlegra væri að lýsa frati á innistæðulaust Rússahatur.


mbl.is Sækja ekki heimsmeistaramótið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tyrkir í ESB; Rússar í Nató

Vestræn ríki stjórna bæði Evrópusambandinu og Nató. Eftir að kalda stríðinu lauk um 1990 hófst stækkunarferli ESB og Nató í austurátt. Hernaðarbandalag gömlu Sovétríkjanna, Varsjárbandalagið, var lagt niður.

Leiðandi vestræn ríki í Evrópu, Frakkland og Þýskaland, standa gegn því að Tyrkir verði aðilar að Evrópusambandinu, en þeir eru Nató-ríki frá dögum kalda stríðsins. Stórveldið Bandaríkin koma í veg fyrir að Rússland verði Nató-ríki.

Það er aldrei sagt upphátt hvers vegna Tyrkland fær ekki inni í ESB og Rússland er útilokað frá Nató og raunar ESB.

Tyrkland er einfaldlega of stórt fyrir Evrópusambandið. Tyrkir eru 80 milljónir og tækju sæti við háborðið ásamt Frökkum og Þjóðverjum. Þar að auki eru Tyrkir múslímsk þjóð. Rússar eru að sama skapi of stórir fyrir bæði Nató og ESB, telja 144 milljónir og landmesta þjóðríki jarðarinnar.

Það á að heita svo að bæði Nató og ESB séu verkfæri lýðræðisþjóða að tryggja stöðugleika og frið. Þótt hvorki Tyrkir né Rússar fái fulla aðild að þessu vestrænu stofnunum, vegna stærðar sinnar, má gera kröfu til að ESB/Nató hagi sér þannig að hægt sé að efna til samstarfs við þessar voldugu Asíu-þjóðir, sem eru þrátt fyrir allt með tábergið í Evrópu (Tyrkland) og hluti af evrópskri menningu (Rússland). En þar vantar nokkuð á, einkum í samvinnu við Rússland.


mbl.is Tyrkir stefna enn á aðild að ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Unglingar á hótel mömmu vilja kosningarétt

Til að taka ábyrgð á öðrum þarf maður fyrst að taka ábyrgð á sjálfum sér. Í dag er fyrirkomulagið að ungmenni fá kosningarétt sama ár og þau verða fjárráða. 

Sá sem ekki er fjárráða ætti ekki að hafa kosningarétt enda felur sá réttur í sér að viðkomandi ráðstafi fjármunum annarra. 

Það er fullkomin mótsögn að 16 ára unglingur fái vald yfir fjármunum annars fólks, þ.e. samfélagsins, á meðan unglingnum er ekki treyst fyrir eigin fjármálum.


mbl.is „Stöðvað af nokkrum miðaldra körlum“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Listin og sagan - Nató og Rússland

Nató-listaverkinu við Bændahöllina var gert í tilefni af lokum kalda stríðsins, þegar leit út fyrir að Bandaríkin/Nató og Rússland yrðu samstarfsaðilar eftir að hafa verið óvinir frá lokum seinna stríðs.

Listaverkið var afhjúpað ári áður en Bandaríkin, með stuðningi Nató-ríkja, héldu í herleiðangur til Írak. Rússar voru eðlilega ekki hafðir með í ráðum, enda á brauðfótum, ekki lengur stórveldi. Þar var nýkominn til valda maður sem freistaði þess að bjarga landinu úr klóm auðmanna. Hann hét Pútín og átti full í fangi með að forða Rússlandi frá fjárhagslegu og siðferðilegu hruni vesturlandavæðingar.

Innrásin í Írak var vestrænt verkefni, fyrsta skrefið í áætlun um að gera miðausturlönd að vestrænum skjólstæðingi Bandaríkjanna og Evrópu. Verkefnið mistókst, kveikti ófriðarbál sem enn logar glatt hálfum öðrum áratug síðar.

Vesturveldin, einkum Bandaríkin, sannfærðust á síðasta áratug liðinnar aldar að sigur í kalda stríðinu gæfi þeim siðferðilegan rétt til að breyta heiminum í sína mynd. Sannfæringin þvarr ekki þótt Íraks-verkefnið mistækist. Úkraína komst á dagskrá vesturvaldanna á öðrum áratug aldarinnar. Skipulega var grafið undan forseta sem þótti of hliðhollur Rússlandi Pútín, sem fór að rétta úr kútnum. Forseti Úkraínu var flæmdur úr embætti og borgarastyrjöld tók við sem ekki sér fyrir endann á.

Listaverkið við Bændahöllina minnir okkur á tækifæri í alþjóðastjórnmálum sem fór forgörðum. Hvort heldur listaverkið sé gljáandi eða tjargað og fiðrað er það aðeins neðanmálsgrein í tröllasögu alþjóðastjórnmála eftir kalda stríðið. Verkið verður aldrei til friðs, segir listamaðurinn Hulda Hákon, höfundur Tuttugu loga. List sem aldrei er til friðs er snöggtum sannari en friðsöm list.


mbl.is Telur að verkið verði aldrei til friðs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vinstri grænir ábyrgasti vinstriflokkurinn

Vinstri grænir leiða ríkisstjórnarsamstarfið vegna þess að flokkurinn hleypur ekki út undan sér eftir því hvernig vindar blása í samfélagsmiðlum - ólíkt öðrum vinstriflokkum.

Vinstri grænir gerðu upp við sig að betra hlutskipti væri að taka sæti í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknar heldur en að vera hrópandi í vinstrieyðimörkinni.

Það vinnur með Vinstri grænum að Samfylking og Viðreisn eru orðnir pólitískir síamstvíburar líkt og Viðreisn og Björt framtíð síðasta kjörtímabil. Viðreisn er saga-klass útgáfa Sjálfstæðisflokksins; fólk sem dýfir ekki hendi í kalt vatn heldur vasa annarra. Á meðan Samfylking er í faðmlagi Viðreisnar óttast Vinstri grænir ekki um fylgið sitt.


mbl.is Hvað yrði um flokkinn þá?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bandarísk innanríkismál gerð íslensk

Vopnaeign einstaklinga í Bandaríkjunum er pólitískt hitamál þar í landi. Hægrimenn eru hlynntir rétti einstaklinga að eiga skotvopn en frjálslyndir vinstrimenn vilja takmarka þennan rétt og jafnvel afnema.

Hvort heldur sem er þá eru reglur um meðferð skotvopna í Bandaríkjunum innanríkismál sem kemur öðrum þjóðum ekki við. Hvers vegna er samstöðuganga í Reykjavík vegna bandarískra innanríkismála?

Stutta svarið er að auðvelt er að skipuleggja slíka uppákomu á samfélagsmiðlum með aðstoð fjölmiðla. Ítarlegra svar tæki með í reikninginn að breytt fjölmiðlun, þar sem atburðir í Bandaríkjunum, og annars staðar í heiminum, eru sýndir í rauntíma á Íslandi og hverju byggðu bóli með nettengingu. Það sem einu sinni var fjarlægt er nálægt.

Pólitísk álitamál í einu landi, einkum stórveldi eins og Bandaríkjunum, eru innflutt í örríki eins og Ísland. Nýlegt dæmi er uppákoma á alþingi þar sem stjórnarandstaðan fór fram á skýrslu um ,,hlut­deild hulduaðila í kosn­ing­um". Þetta gerist í beinu framhaldi af umræðu um áhrif Facebook/Cambridge analytica á bandarísku forsetakosningarnar.

Annað dæmi, tveggja missera gamalt, er metoo-byltingin/umræðan sem byrjaði í Hollywood og varð að heimshreyfingu.

Bandaríkin eru að sönnu eina stórveldið í efnahagslegum og hernaðarlegum skilningi. En það nokkuð merkilegt hve margir í Evrópu kokgleypa pólitískum menningarafurðum þaðan samtímis sem þeir eru fullir gagnrýni á heimsveldið í vestri.


mbl.is Sýndu bandarískum nemum samstöðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Múslímar herja á Evrópu

Herskáir múslímar, oft dæmdir glæpamenn, efna til hryðjuverka í nafni trúarinnar og drepa drepa fólk við hversdagslega iðju í Evrópu. Á síðustu árum er Frakkland einkum í skotlínu herskárra múslíma.

Hryðjuverkamennirnir koma iðulega af annarri og þriðju kynslóð múslíma sem hafa verið boðnir velkomnir í Evrópu. Gestrisnina gjalda þeir með blóðsúthellingum. Í moskum og trúarmiðstöðvum múslíma eru hryðjuverkin lofuð, stundum þögguð í hel en sjaldnast fordæmd.

Austur af Frakklandi liggur Þýskaland, sem síðustu ár hefur veitt mörg hundruð þúsund múslímum viðtöku. Í nýrri ríkisstjórn Angelu Merkel kanslara er opinskátt rætt hvort múslímatrú eigi erindi til Þýskalands. Í vestrænu ríki, þar sem trúfrelsi er viðurkennt, er erfitt að vera á móti trúarbrögðum, sama hvaða nafni þau nefnast.

En Þjóðverjar kæra sig ekki um að ala upp kynslóðir af múslímskum öfgamönnum sem einn daginn láta sér detta í hug að efna til blóðsúthellinga á saklausu fólk. Múslímsk trúarmenning verður seint aðlöguð vestrænni. Farsælast er að múslímar haldi til í heimaríkjum sínum.


mbl.is Lögreglumaðurinn lést af sárum sínum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Barnavernd og kosningaréttur

Ekki eru nema rúm 20 ár síðan sjálfræðisaldur var hækkaður úr 16 árum í 18. Breytingin kom í kjölfar þjóðfélagsþróunar þar sem ungmenni dvöldust lengur í foreldrahúsum. Ýmsar reglur, t.d. aðgengi að tóbaki og áfengi, ganga í sömu átt á seinni árum.

Tillaga um að lækka kosningaaldur úr 18 árum í 16 gengur þvert á ríkjandi barnaverndarhugsun síðustu áratuga. Lækkun kosningaaldurs myndi í senn valdefla 16 til 18 ára ungmenn en jafnframt gera aldurshópinn 14 til 16 ára að skotmarki stjórnmálaafla. 

Pólitískum skilaboðum yrði beint að börnum frá fermingaraldri. Í ljósi þess hve beinskeytt pólitísk skilaboð eru orðin, með netvæddum samfélagsmiðlum, er vafasamt, svo ekki sé meira sagt, að færa kosningaaldur niður í 16 ár.


mbl.is Kosningalög óbreytt um sinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Leiðinlegi karlinn er skýri strákurinn

Það er betra að vera á móti vondum hugmyndum heldur en fljóta með samræðunni af ótta við að vera úthrópaður sem leiðinlegi karlinn.

Þegar að er gáð er leiðinlegi karlinn oft fullvaxta útgáfa af skýra stráknum sem hrópaði á torginu ,,keisarinn er nakinn" þegar öll hjörðin trúði áróðrinum um klæðadýrð keisarans.

Stjórnmál eru, þegar öllu er á botninn hvolft, ekki hjarðhugsun heldur forysta. 

 


mbl.is „Eigum að hætta að vera leiðinlegi karlinn“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband