Huldustjórnmál

Starfandi fjölmiðlar s.s. Morgunblaðið, RÚV, Fréttablaðið, DV, Kjarninn, Hringbraut og Stundin eru allir með sínar áherslur, byggðar á ritstjórnarstefnu, sögu og eignarhaldi og og ekki síst starfsmönnum þessara fjölmiðla.

Til viðbótar eru bloggsíður einstaklinga og hópa sem syngja með sínu nefi og er hægt að greina og setja í samhengi við umræðu líðandi stundar. Ofan á þetta bætast samfélagsmiðlar þar sem hverskyns efni er dreift, ókeypis eða kostað.

Það er með öðrum orðum hægt að kortleggja mest alla miðlun uppræðu og upplýsinga. Samt sem áður gengur hópur þingmanna fram fyrir skjöldu og gerir því skóna að ,,hulduaðilar" hafi haft áhrif á síðustu tvennar þingkosningar.

Tilgangur þingmannahópsins er að sá fræjum tortryggni og gefa þeirri samsæriskenningu undir fótinn að myrk öfl stýri niðurstöðum kosninga. Það eru huldustjórnmál.


mbl.is Vilja skýrslu um „hulduaðila“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Konur gjaldfella háskólamenntun

Konur eru um 65% nemenda í háskólum, hlutfall karla er um 35 prósent og fer minnkandi. Þessi þróun hefst fyrir aldamót. Háskólamenntaðir lækka hlutfallslega í launum á sama tíma.

Viðskiptaráð segir framboð háskólafólks mun meira en eftirspurnin. Í markaðshagkerfi þýðir það lægri laun.

Engin ein skýring er á yfirtölu kvenna í háskólanámi í samanburði við karla. Ein skýring er að konur eru 80 prósent kennara í grunn- og framhaldsskólum. Ójafnvægið á milli kynjanna þar gefur bæði bein og óbein skilaboð til drengja um að langskólanám eigi ekki við þá.


mbl.is Ávinningur háskólamenntunar fer dvínandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stafrænt lýðræði

Lýðræðið átti heima á torgum Forn-Grikkja og Rómverja, í fundarsölum á 19. öld og í fjölmiðlum eftir miðja 20. öld.

Í dag á lýðræðið heima á netinu, í stafrænum veruleika sem er án staðsetningar og forms.

Lýðræðinu virðist ekki vegna ýkja vel í þessum nýju heimkynnum. Samfélagsmiðlar valdefla einstaklinginn á yfirborðinu, það er hægt að eiga stafrænt líf með lækum og brosköllum. En á bakvið tjöldin er eitthvað tekið í burtu, sem menn gengu að vísu og þykir nú leitt að hafa tapað.

Stafrænt lýðræði er álíka og stafrænt líf; yfirborðskennt.


mbl.is Mark Zuckerberg rýfur þögnina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Við þurfum kreppu - 2 leiðir

Velmegun elur ekki af sér ánægju og samfélagsfrið heldur síngirni og kröfuhörku. Öryrkjum fjölgar, ASÍ neitar aðild að stöðugleika og grunskólakennarar vilja vinna minna en fá hærra kaup.

Árin eftir hrun voru færri öryrkjar, ASÍ féllst á stöðugleika og kennarar voru í vinnunni. Augljósa svarið við vælinu er að framkalla nýja kreppu, til að fólk fatti hvað það hefur það djöfull gott.

Tvær leiðir standa til boða. Í fyrsta lagi að fara að ráðleggingum græðgismanna í fjármálageiranum sem vilja afnema höft á innflæði fjármagns. Ef þau ráð yrðu tekin myndi dollarinn falla niður í 60 kr. og ferðaþjónustan hrynja og útflutningur sömuleiðis. Þar með yrði atvinnuleysi og volæði sem gerði þá giska sátta sem á annað borð hefðu vinnu.

Í öðru lagi er hægt að framkalla langt verkfall ASÍ-félaga næsta vetur, helst í 4-6 mánuði. Fyrirtæki yrðu gjaldþrota, vöruskortur blasti við og niðurskurður á opinberri þjónustu kæmi í kjölfarið.

Þeir bjartsýnu gætu óskað sér hjálpar að utan, t.d. kjarnorkustyrjaldar, til að kenna okkur að líf í vellystingum er ekki sjálfsagt mál en það er veik von.

Eitt er vist. Við áframhaldandi velmegun er ekki hægt að búa. Ofgnóttin er okkur lifandi að drepa.

 


mbl.is ASÍ tekur ekki sæti í Þjóðhagsráði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Noregur vill stjórna Íslandi - í þágu ESB

Raforkumálum Íslands verður stjórnað af Evrópusambandinu ef ACER-stofnunin verður að veruleika. Norskir embættismenn, sem eru upp til hópa ESB-sinnar, eru tilbúnir að framselja völdin yfir norskri raforku til Brussel og fá til þess stuðning frá Hægriflokknum, sem situr í ríkisstjórn.

Framsal á raforkunni fer í gegnum EES-samninginn, sem Ísland á aðild að. Norskir embættismenn telja sig geta ráðskast með íslenska hagsmuni og framselt þá til ESB.

Íslensk stjórnvöld eiga á augabragði að senda þeim norsku skilaboð: raforkan á Ísland fer ekki undir stjórn ESB. Í framhaldi eigum við að segja upp EES-samningnum.


mbl.is Túlkun norskra embættismanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Páll gegn Stundinni og falsfréttum

Stundin gerði út blaðamann á landsfund Sjálfstæðisflokksins til að segja að þar væri á ferðinni samkoma barnaníðinga. Páll Magnússon þingmaður birti glefsur úr ritsmíð blaðamannsins á samfélagssíðu sinni og fordæmdi.

Stundin, með hjálp frá RÚV og öðrum fjölmiðlum, reyndi að kenna framboð Sjálfstæðisflokksins fyrir síðustu þingkosningar við barnaníð. Aðferðin er gamalkunn, ættuð úr ævintýrum H.C. Andersen, þar sem ein fjöður verður að fimm hænum.

Barnaníð er eitt það ljótasta sem hægt er að saka nokkurn mann um. Ritstjórar Stundarinnar kveinka sér undan fordæmingu Páls og segja blaðamanninn hafa skrifað ádeilu en ekki frétt um landsfundinn.

En þar liggur hundurinn einmitt grafinn. Það er enginn munur á ádeilum Stundarinnar, og í sívaxandi mæli RÚV, og fréttum. Svokallaðar ,,fréttir" eru ádeilur skreyttar fáeinum staðreyndum, sem oft koma málefninu næsta lítið við.

Páll Magnússon vekur athygli á hugarfarinu á bakvið falsfréttaframleiðslu Stundarinnar og kennir við endaþarmsblaðamennsku. Það er ekki ofmælt. 


Samfélagsmiðar, Rússar og Trump

Vinsælasta pólitíska kenningin síðustu daga er að (mis)notkun samfélagsmiðla hafi tryggt kjör Donald Trump í forsetaembætti Bandaríkjanna haustið 2016. Þar með er Pútín-kenningunni um kjör Trump ýtt til hliðar.

Á meðan frjálslyndir smiðir samsæriskenninga leita dyrum og dyngjum að stóra samsærinu er fleytti Trump í Hvíta húsið er húsbóndinn þar á bæ kominn langt með að tryggja sér endurkjör árið 2020.

Sannleikurinn er einfaldari en allar samsæriskenningar. Trump náði kjöri sökum þess að hann náði eyrum bandarísku þjóðarinnar.


mbl.is Forstjóri Cambridge Analytica rekinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Veikt almannavald og oftrú á markaðnum

Hrunið er útskýrt fyrir dómstólum sem glæpaverk auðmanna. Pólitískar ástæður eru of hröð einkavæðing bankanna í kringum aldamótin.

Dýpri skýringar á hruninu eru tvíþættar. Í fyrsta lagi veikt almannavald, alþingi og framkvæmdavald var komið ofan í vasa auðmanna fyrir hrun - þar sem fjölmiðlar voru fyrir. Í öðru lagi oftrú á markaðnum. Íslenski markaðurinn er í eðli sínu fákeppnismarkaður og verður að búa við aðhald af sterku almannavaldi.

Fylgi Sjálfstæðisflokksins náði methæðum í fjórflokkakerfinu. Með sjö til níu starfandi stjórnmálaflokka í landinu er óraunhæft að móðurflokkurinn nái fyrra fylgi. En haldist Sjálfstæðisflokkurinn sterkastur flokka er okkur óhætt.


mbl.is Styrmir skýtur á flokksforystuna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ísland útskýrir fullveldi fyrir Norðmönnum

Íslendingar eru næmari á fullveldið en Norðmenn, sé tekið mið af umræðunni um áætlanir Evrópusambandsins að yfirtaka stjórn orkumála þessara landa í gegnum ACER-stofnunina og EES-samninginn.

Neitunarvald Íslands gæti hindrað samþykkt ACER í Noregi, skrifar Aftenpostn.

Norðmenn búa við þau leiðindi að þjóðin er á móti yfirtöku Evrópusambandsins landsins gagni og nauðsynjum en Hægriflokkurinn þar í landi ásamt sósíaldemókrötum, auðvitað, vill aukna stýringu frá Brussel.


mbl.is „Hættulegur fyrir sjálfstæðið okkar“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Pútín, Trump, Brexit - þúsaldarskil stjórnmálanna

Forsetakjör Trump 2016 og Brexit-kosningar sama ár eru afleiðing alþjóðahyggju sem náði hámarki um aldamótin. Innrás Bandaríkjanna í Írak 2003 annars vegar og hins vegar gildistaka  evrunnar þrem árum áður voru vestræn verkefni undir formerkjum alþjóðlegs frjálslyndis.

Með innrásinni í Írak átti að breyta vandræðaheimshluta, miðausturlöndum, í vestræna fyrirmynd. Evran skyldi breyta Evrópu í frjálslynd bandaríki Evrópu. Hvorttveggja misheppnaðist.

Pútín tók við völdum í Rússlandi um aldamótin sem ónýtu ríki glæpavæddra auðmanna. Hann hefur gert Rússland öflugt, frjálslyndum alþjóðasinnum á vesturlöndum til mikillar gremju.

Þeir sem helst fagna kjöri Pútín á vesturlöndum eru íhaldssamir Bandaríkjamenn og andstæðingar fjölmenningar í Evrópu, t.d. AfD í Þýskalandi.

Um þúsaldarmótin breyttust stjórnmál í okkar heimshluta. Smátt og smátt rennur upp fyrir fólki hve breytingarnar eru róttækar.

 


mbl.is Pútín ætlar að leysa deilumál
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband