Listin og sagan - Nató og Rússland

Nató-listaverkinu við Bændahöllina var gert í tilefni af lokum kalda stríðsins, þegar leit út fyrir að Bandaríkin/Nató og Rússland yrðu samstarfsaðilar eftir að hafa verið óvinir frá lokum seinna stríðs.

Listaverkið var afhjúpað ári áður en Bandaríkin, með stuðningi Nató-ríkja, héldu í herleiðangur til Írak. Rússar voru eðlilega ekki hafðir með í ráðum, enda á brauðfótum, ekki lengur stórveldi. Þar var nýkominn til valda maður sem freistaði þess að bjarga landinu úr klóm auðmanna. Hann hét Pútín og átti full í fangi með að forða Rússlandi frá fjárhagslegu og siðferðilegu hruni vesturlandavæðingar.

Innrásin í Írak var vestrænt verkefni, fyrsta skrefið í áætlun um að gera miðausturlönd að vestrænum skjólstæðingi Bandaríkjanna og Evrópu. Verkefnið mistókst, kveikti ófriðarbál sem enn logar glatt hálfum öðrum áratug síðar.

Vesturveldin, einkum Bandaríkin, sannfærðust á síðasta áratug liðinnar aldar að sigur í kalda stríðinu gæfi þeim siðferðilegan rétt til að breyta heiminum í sína mynd. Sannfæringin þvarr ekki þótt Íraks-verkefnið mistækist. Úkraína komst á dagskrá vesturvaldanna á öðrum áratug aldarinnar. Skipulega var grafið undan forseta sem þótti of hliðhollur Rússlandi Pútín, sem fór að rétta úr kútnum. Forseti Úkraínu var flæmdur úr embætti og borgarastyrjöld tók við sem ekki sér fyrir endann á.

Listaverkið við Bændahöllina minnir okkur á tækifæri í alþjóðastjórnmálum sem fór forgörðum. Hvort heldur listaverkið sé gljáandi eða tjargað og fiðrað er það aðeins neðanmálsgrein í tröllasögu alþjóðastjórnmála eftir kalda stríðið. Verkið verður aldrei til friðs, segir listamaðurinn Hulda Hákon, höfundur Tuttugu loga. List sem aldrei er til friðs er snöggtum sannari en friðsöm list.


mbl.is Telur að verkið verði aldrei til friðs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vinstri grænir ábyrgasti vinstriflokkurinn

Vinstri grænir leiða ríkisstjórnarsamstarfið vegna þess að flokkurinn hleypur ekki út undan sér eftir því hvernig vindar blása í samfélagsmiðlum - ólíkt öðrum vinstriflokkum.

Vinstri grænir gerðu upp við sig að betra hlutskipti væri að taka sæti í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknar heldur en að vera hrópandi í vinstrieyðimörkinni.

Það vinnur með Vinstri grænum að Samfylking og Viðreisn eru orðnir pólitískir síamstvíburar líkt og Viðreisn og Björt framtíð síðasta kjörtímabil. Viðreisn er saga-klass útgáfa Sjálfstæðisflokksins; fólk sem dýfir ekki hendi í kalt vatn heldur vasa annarra. Á meðan Samfylking er í faðmlagi Viðreisnar óttast Vinstri grænir ekki um fylgið sitt.


mbl.is Hvað yrði um flokkinn þá?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bandarísk innanríkismál gerð íslensk

Vopnaeign einstaklinga í Bandaríkjunum er pólitískt hitamál þar í landi. Hægrimenn eru hlynntir rétti einstaklinga að eiga skotvopn en frjálslyndir vinstrimenn vilja takmarka þennan rétt og jafnvel afnema.

Hvort heldur sem er þá eru reglur um meðferð skotvopna í Bandaríkjunum innanríkismál sem kemur öðrum þjóðum ekki við. Hvers vegna er samstöðuganga í Reykjavík vegna bandarískra innanríkismála?

Stutta svarið er að auðvelt er að skipuleggja slíka uppákomu á samfélagsmiðlum með aðstoð fjölmiðla. Ítarlegra svar tæki með í reikninginn að breytt fjölmiðlun, þar sem atburðir í Bandaríkjunum, og annars staðar í heiminum, eru sýndir í rauntíma á Íslandi og hverju byggðu bóli með nettengingu. Það sem einu sinni var fjarlægt er nálægt.

Pólitísk álitamál í einu landi, einkum stórveldi eins og Bandaríkjunum, eru innflutt í örríki eins og Ísland. Nýlegt dæmi er uppákoma á alþingi þar sem stjórnarandstaðan fór fram á skýrslu um ,,hlut­deild hulduaðila í kosn­ing­um". Þetta gerist í beinu framhaldi af umræðu um áhrif Facebook/Cambridge analytica á bandarísku forsetakosningarnar.

Annað dæmi, tveggja missera gamalt, er metoo-byltingin/umræðan sem byrjaði í Hollywood og varð að heimshreyfingu.

Bandaríkin eru að sönnu eina stórveldið í efnahagslegum og hernaðarlegum skilningi. En það nokkuð merkilegt hve margir í Evrópu kokgleypa pólitískum menningarafurðum þaðan samtímis sem þeir eru fullir gagnrýni á heimsveldið í vestri.


mbl.is Sýndu bandarískum nemum samstöðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 25. mars 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband