Krossfestingin, sáluhjálp og skipulag

Fyrir tvö þúsund árum var maður krossfestur í Jerúsalem. Setulið Rómverja og íbúar, gyðingar, tóku höndum saman um koma fyrir kattarnef manni sem hvorki virti forræði heimsveldisins né heimamanna.

Helgisagnir spruttu af þeim krossfesta, sem hét Jesú og mun hafa verið söguleg persóna. Söfnuðinum er hélt helgisögunni á lofti óx ásmegin og fékk fylgjendur þvert á kynþætti og þjóðir. Þegar hallaði undan fæti fjölgyðisríkis Rómverja var kristni gerð að ríkistrú. Helstu talsmenn trúarinnar, biskupar, komu sér fyrir í miðlægum borgum eins og Róm, Miklagarði og Jerúsalem.

Sögulegt hlutverk kristni er tvíþætt. Í fyrsta lagi veitti trúin einstaklingum sáluhjálp. Sú útgáfa trúarinnar, sem fékk mesta útbreiðslu, kenndi að Jesú væri þríeinn guðssonur er dó fyrir syndir mannanna í fortíð og framtíð. Ennfremur að Jesú tæki við öllum í guðsríki á hinstu stund hafi þeir gert yfirbót. Maðurinn, jafn takmarkað eintak og hann er, þarf trú og sáluhjálp til að rata í veröldinni, gera líf sitt merkingarbært.

Í öðru lagi þjónaði kristni samfélagshlutverki. Eftir hrun Rómar var úti um Pax Romana, rómverskan frið, er hafði kennt keltum og germönum vestan Rínar siðmenningu. Hrun Rómar og þjóðflutningar germanskra þjóða vestur, til svæða sem nú eru kennd við Frakkland, Þýskaland, Spán og Bretland, var tími upplausnar í Evrópu.

Í miðaldaskipulaginu, sem reis úr rústum Rómarveldis, var kristni miðlæg. Kastalinn og kirkjan voru hornsteinar samfélagsins. Þegar miðöldum lauk og einvaldskonungar yfirtóku aðalsveldi, var það hásætið og altarið sem enn réðu ferðinni. Kristni sýndi sig búa yfir aðlögunarhæfni sem engin trúarbrögð önnur státa af. Frá því að vera trú uppreisnarmanns í gyðingalandi verður kristni besti vinur vestræns þjóðskipulags.

Jafnvel á Íslandi. Heiðnir menn, sem þekktu Hvíta-Krist mest í afspurn, skipulögðu goðaveldi fljótlega eftir landnám. Æsir og vættir léku þar hlutverk líkt og hjá öðrum germönskum þjóðum. Þegar Íslendingum stóð til boða að gerast kristnir, um árið 1000,að vísu með þrýstingi frá Noregskonungi, ræddu þeir málin á fundi alþingis. Niðurstaðan varð að landinn skyldi taka kristni að nafninu til, heiðnir máttu áfram blóta, stunda fóstureyðingar á sína vísu og eta hrossakjöt sem kristnum miðaldamönnum var bannað. Íslendingar tóku sér góðan tíma að verða kristnir, um hundrað ár eða svo, og allir voru sáttir.

Þegar útþenslutími Evrópu rann í garð á nýöld var kristni enn í veigamiklu hlutverki. Heiminum skyldi bjargað frá trúleysi og vantrú með kristnum gildum, vopnum og verslun.

En nú er hún Snorrabúð stekkur. Í 200 ár eða þar um bil er kristni víkjandi. Tilraunir á síðustu öld með veraldleg trúarbrögð, kommúnisma og nasisma, gáfust illa. Tilbeiðsla einstaklingsins og mannréttinda, sem vinsæl er í dag, skortir dulúð og kynngimögnun kristninnar. Aðrir trúarkostir, t.d. íslam, eru ekki raunhæfir og þarf ekki að fjölyrða um það.

Án sáluhjálpar og trúarlegrar undirstöðu samfélagsskipunar eru vesturlönd reikul eins og rótlaust þangið í ljóði Jóhanns Sigurjónssonar; ,,Bylgjan, sem bar það uppi, var blóðug um sólarlag."


Stór-Tyrkland, þjóðarmorð og Kúrdar

Erdogan Tyrklandsforseti stefnir ætlar sér að taka landssvæði í Sýrlandi og Írak sem byggð eru Kúrdum og innlima í Tyrkland. Verkefnið kallast Stór-Tyrkland. Tilgangurinn er að ganga á milli bols og höfuðs á sjálfstæðisbaráttu Kúrda, sem eru fjölmennir í austurhluta Tyrklands og landamærahéruðum Sýrlands og Írak.

Tyrkir eru vanir róttækum aðgerðum til að tryggja hagsmuni sína. Þeir efndu fyrir hundrað árum til þjóðarmorðs á Armenum.

Tyrkir eru Nató-ríki frá kalda stríðinu og njóta skjóls frá ráðamönnum í Bandaríkjunum og Evrópu. 


mbl.is Tyrkir hafna boði Macron
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 30. mars 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband