ESB verði nýtt Rómarveldi, boðar Blair

Evrópusambandið er veikt vegna metnaðarleysis. ESB var stofnað til að halda friðinn í Evrópu, en það er of lítilmótlegt verkefni. Sambandið þarf að hverfast um völd, efla sig á kostnað nágranna sinna.

Á þessa leið er greining Tony Blair, fyrrum forsætisráðherra Breta. Næstu nágrannar ESB, sem einhverju máli skipta, eru Rússar í austri og múslímar í suðri. Nú þegar er ESB í staðgenglastríði við Rússa í Úkraínu og flóttamannastríð geisar á Miðjarðarhafi þar sem múslímar keppast við að senda sitt fólk inn í evrópska velferð, Evrópubúum til armæðu.

Söguleg valdapólitísk fyrirmynd ESB er Rómarveldi. Á lýðveldistíma sigruðu Rómverjar Karþagómenn í Norður-Afríku og urðu herrar Miðjarðarhafsins. Múslímaríkin eru Karþagó nútímans. Á austurlandamærum Rómar voru Germanir, sem aldrei tókst að knésetja. Germanir höfðu að lokum betur og lögðu undir sig vest-rómverska ríkið í lok fimmtu aldar. Rússar eru Germanir nútímans.

Margan skriffinn í Brussel dreymir eflaust um ESB-Róm. ESB verður samt alrei nýtt Rómarveldi. Hvorki er áhugi meðal almennings í Evrópu að valdefla Evrópusambandið né fyrir hendi frumforsendan sem gerði slíka samstöðu mögulega. Evrópa á enga latínu til að túlka sameiginlega hagsmuni. Án sameiginlegs tungumáls verður ekki til sameiginleg pólitík, nema kannski rétt á yfirborðinu.

Þegar öllu eru á botninn hvolft er Tony Blair einungis að biðja ESB að verða meira sexý fyrir Breta. Og það er enn langsóttara en að ESB verði nýtt Rómarveldi.


mbl.is Friður ekki málið í dag heldur völd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jóhanna: tímabundinn vandi vinstrimanna - í 88 ár

Íslenskir vinstrimenn klofnuðu í tvo flokka árið 1930 þegar kommúnistar klufu sig úr Alþýðuflokknum. Þetta var á meðan Stalín var við völd í Sovétríkjunum og áður en Hitler varð kanslari í Þýskalandi. Jóhanna Sigurðardóttir, fyrsti forsætisráðherra vinstristjórnar á lýðveldistíma, telur klofning vinstrimanna tímabundinn.

Alþýðuflokkurinn fékk að taka þátt í mótun velferðarríkisins í samvinnu við Sjálfstæðisflokkinn. Á meðan voru kommúnistar/sósíalistar, síðast alþýðubandalagsmenn, oftast í stjórnarandstöðu og héldu Alþýðuflokknum við efnið, einkum á sviði verkalýðsbaráttu og fyrir þjóðfrelsi og fullveldi.

Samfylkingin tók við af Alþýðuflokknum um aldamótin og gerði þau mistök að hætta alfarið verkalýðsbaráttu og gerast ESB-flokkur. Þar með skilgreindi Samfylkingin sig bæði frá Sjálfstæðisflokknum og Vinstri grænum, sem eru arftakar Alþýðubandalagsins.

Nú boða bæði Jóhanna og sitjandi formaður Samfylkingar, Logi Einarsson, að Samfylkingin eigi að færa sig til vinstri í pólitíska litrófinu. Ef flokkurinn fylgir þeirri línu er rökrétt að innan fárra ára muni Samfylkingin sækja um að verða sérstakt aðildarfélag Vinstri grænna.

Ef Logi flýtir sér gæti Samfylkingin orðið vinstri græn áður en tímabundinn vandi vinstrimanna fyllir 100 árin.


mbl.is Jóhanna: VG villtist tímabundið af leið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 4. mars 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband