Sítengd óreiða, hjörðin og andleg heilsa

Mótsögn samtímans er vaxandi einmannaleiki í sítengdum heimi. Hver sem er getur verið í sambandi við pólitískan samherja í Afríku, talað við frímerkjasafnara í Bretlandi og átt samskipti við fjölskyldu og fjarskylda á félagsmiðlum. Hvaða einmannaleiki?

Skortur á kærleika í uppvexti er meginorsökin, segir Aðalbjörg Stefanía í viðtengdri frétt. Ábyggilega líða þeir fyrir sem ekki fá gott atlæti i æsku. En er einhver ástæða til að ætla að kynslóðin sem ól ungmenni dagsins í dag hafi farist það verr úr hendi en fyrri kynslóðum?

Einmannaleiki og almennt geðheilbrigði ungs fólks er víða til umræðu á vesturlöndum. Eymd ungmenna leiðir Breta í átt að hruni siðmenningar, skrifar dálkahöfundur Telegraph. Útgáfan er ekki þekkt fyrir að mála skrattann á vegginn. Die Welt í Þýskalandi segir frá nýrri skýrslu um aldurshópinn 14-29 ára. Ungmennin eru áhyggjufull, svartsýn og andlega niðurbrotin, segir þar.

Ekki vel gott ástandið á ungmennum í henni veröld. Hver gæti verið skýringin? Það er margt í mörgu, er stutta svarið. Lengri útgáfa fylgir.

Fyrir góðum áratug var rætt um að ungmenni yrðu að sætta sig við síðri kjör efnahagslega en foreldrar þeirra. Í rúm sjötíu ár, frá lokum seinna stríðs, mátti fólk gera ráð fyrir betri efnahagslegri afkomu frá einum áratug til annars. Hér er talað um vesturlönd, ekki heimsbyggðina alla.

Verri efnahagur, s.s. fjöldaatvinnuleysi, eykur félagsleg vandamál. Það er þekkt staðreynd, en ekki hin að geðheilsa heillar kynslóðar fari í súginn þótt á bjáti. Samhliða þyngri efnahag jókst ásókn innflytjenda frá framandi þjóðum til vesturlanda. Ekki skánaði efnahagur þeirra sem fyrir voru við aukna samkeppni um húsnæði og atvinnu, að ekki sé talað um álag á innviði, t.d. heilbrigðisþjónustu og skólakerfi. Engu að síður eru umbreytingarnar ekki tilefni til andlegrar eymdar í stórum stíl. 

Þriðji þátturinn, á eftir efnahagsmálum og innflytjendum, er samskiptatækni. Facebook var stofnuð fyrir 20 árum, 2004. Næstu árin varð stafræn umbylting í samskiptaháttum fólks. Tæknin ein og sér var róttæk. Margir sáu i hillingum lýðræðislega gósentíð. Allir gátu tjáð sig um allt milli himins og jarðar. Markaðstorg hugmyndanna yrði yfirfljótandi og bestu hugmyndirnar leiddu til bestu lausna á álitamálum mannlífsins. Glöggir lesendur hafa tekið eftir að er líður á stafrænu upplýsingabyltinguna fækkar þeim sem lofa hana. Lýðræðisparadísin reyndist land óreiðunnar.

Miðillinn er merkingin, ,,The medium is the message," skrifaði Marshall McLuhan fyrir sextíu árum. Ef einhver ein setning lýsir sjónvarpsöld þá er McLuhan höfundur hennar.

Sjónvarpið, eins og það var frá árdögum fram að stafrænu upplýsingabyltingunni, sameinaði einstaklinga, fjölskyldur og vinnustaði. Í flestum íbúðum var, og er víða enn, sérstakur íverustaður ætlaður til að njóta ljósvakans. Á vinnustöðum var síðasti þátturinn af Dýrðlingnum eða Dallas ræddur og sá var utanveltu sem ekki hafði meðtekið boðskapinn kvöldið áður. Menningin mótaðist af sjónvarpi, tungumálið einnig. Tilfallandi man eftir hnjóðsyrðinu ,,þú ert algjör Falconetti," sem vísaði i skúrkinn í sjónvarpsþáttunum Gæfa eða gjörvileiki, Rich man Poor man á frummálinu. Allir horfðu á fréttir Sjónvarps, með stórum staf, og þorri manna hlustaði á sjöfréttir útvarps, til að vita hvað sneri upp og hvað niður í heiminum. Dagblöð og tímarit voru viðbit, Mogginn þó ekki, þótti nauðsyn á flestum heimilum - með sjónvarpsdagskrána.

Þótt hér séu tekin dæmi úr íslenskum veruleika, með sjónvarpslausum fimmtudögum, þá mátti halda saumaklúbb og Lionskvöld, voru Vestur-Evrópa og Bandaríkin undir sömu sökina seld. Ein til þrjár sjónvarpsstöðvar sáu, í hverju þjóðríki, landslýð fyrir merkingu, juku samheldni, færðu fólki umræðuefni. Samfélagið hafði þjóðmáladagskrá, sem að drjúgum hluta fékkst úr sjónvarpi.

Hvaða sameiginlegu dagskrá bjóða samfélagsmiðlar upp á? Enga, þar ríkir stjórnleysi, óreiða. Hver og einn semur sína einkadagskrá og unir hag sínum vel. Að því gefnu að hann sé við þokkalega andlega heilsu og sé ekki að leita að félagslegri uppörvun á samfélagsmiðlum. Sú uppörvun fæst aðeins með samskiptum við fólk augliti til auglitis og lýtur öðrum lögmálum en skyndikynni.

Ein og sér væri félagsleg einangrun í sítengdum heimi nógu slæm fyrir fólk, einkum þá sem yngri eru og búa síður að sjálfsbjörg er fæst með aldri. En jafnvel enn verra er að í óreiðunni á samfélagsmiðlum þrífast hvers kyns hindurvitni, klædd í fræðilegan búning, og haldið er að fólki sem sannindum. Grunnhyggnir og ístöðulitir eru fyrstu fórnarlömbin. Er fjöldi þeirra sem fallerast vex verður til félagslegur faraldur með stafrænum smitleiðum.

Tvö dæmi, sem tilfallandi hefur margoft fjallað um, er sú firra að hægt sé að fæðast í röngum líkama annars vegar og hins vegar bábiljan um að manngerður koltvísýringur stjórni veðurfari jarðar. Í báðum tilvikum er um að ræða uppspuna sem fer á flug með samfélagsmiðlum. Ungmenni eru markhópurinn. Þeim er í fyrsta lagi kennt af illa upplýstum og oft illa innrættum fullorðnum að mögulega séu þau í röngum líkama og í öðru lagi að heimsendir sé í nánd vegna manngerðra loftslagsbreytinga. Andleg heilsa fer úrskeiðis af minna tilefni.

Mótsagnirnar eru æpandi. Sértrúin kennir til dæmis að kyn sé huglægt. Ef karl sannfærist að hann sé kona þá verði hann kona. En sama sértrú kennir að kynþroski sé ekki huglægur heldur efnislegur veruleiki sem verði að grípa inn í með hormónagjöf og skurðaðgerðum. Hvernig getur kyn verið huglægt en kynþroski ekki? Svarið er vitanlega að hvorugt er huglægt. Kyn og kynþroski eru fyrirbæri efnisheimsins. Fólk má aftur trúa að það sé af öðru kyni en það er, líka trúa að jörðin sé flöt en ekki hnöttur. Trú er huglæg, til hennar nær ekki mælistika efnisheimsins.

Unherd er hlaðvarpsþáttur er býður upp á umræðu um þjóðfélagsmál sem hvorki er öfgar né út í bláinn. Öflugt alþjóðlegt netfyrirtæki GDI sem þykist sérhæfa sig gegn upplýsingaóreiðu setti Unherd á svartan lista. Svarti listinn er fyrir miðla með ,,hættuleg" sjónarmið, eins og þau að líffræðilegt kyn sé staðreynd. Miðlar með hættuleg sjónarmið skulu ekki fá auglýsingafé. Óreiðan, sem sagt, freistar þess að útiloka heilbrigða skynsemi.

Maðurinn er hjarðdýr. Til að samfélag manna gangi sæmilega snurðulaust fyrir sig þarf þorri manna að samþykkja sameiginlega þekkingu, gildi og viðmið. Fyrir daga stafrænu upplýsingabyltingarinnar var bærileg sátt á vesturlöndum um grunnatriði mannlífsins. Eftir stafrænu byltinguna, með óreiðunni sem fylgdi, vex efi og ósætti um þekkingarfræðilegar og siðferðilegar undirstöður mannlífsins. Gamlar meginstoðir, vísindi láta á sjá. Ungmenni verða verst úti, þau eru á mótunarskeiði. Er þau horfa upp á fullorðna vita hvorki í þennan heim né annan er viðbúið að unglingarnir fyllist óöryggi, sem er þó nóg fyrir á æskuskeiði. Hindurvitni og bábiljur verða haldreipi.

Geðlæknir, sem vinnur með börn og unglinga og tilfallandi átti orðastað við, upplýsti að í mörgum tilvikum sem börn glíma við andleg mein er orsakanna að leita í heimilishaldinu - hjá þeim fullorðnu. Þeir fullorðnu lifa í menningaróreiðu sem ekki er hagfelld fólki tæpu á geði.

    

 


mbl.is Íslendingar ein mest einmana þjóð heims
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: RPP

There should be a push for wider adoptation of Yoga & Pranayama (breath control & exercise) in Iceland. It would greatly benefit society here.

These practices are known to effectively address mental health issues & depression. There will always be a small percentage of people that will need clinical treatment and expert medical attention for their condition. But a large majority will derive great benefit from a regular regimen of Yoga & Pranayama. With Yoga also comes a change in consciousness over time, leading to better lifestyle choices.

Doctors are quick on the trigger in prescribing medication which does not address the underlying cause and may in fact cause longterm harm.

RPP, 25.4.2024 kl. 10:14

2 Smámynd: Dominus Sanctus.

Fólk þarf að fara að átta sig á því

þannig eru stríð nútímans / framtíðarinnar:

Það er að auka á ringulreiðina með skipulögðum hætti.

Almenningur veit ekki hver óvinurinn er.

Eins og David Icke segir hérna á mínútu 23:30

"IT IS NOT THE GUNS, IT IS THE CONSCIOUSNESS"

Þannig er í raun hægt að yfirtaka heilu þjóðirnar

og afvegaleiða þær í gegnum 

SÁLFRÆÐIHERNAÐ í gegnum fjölmiðla:

= Þannig er fólki haldið í fávita-gíslingu,

án þess að það átti sig á því sjálft:

Dominus Sanctus., 25.4.2024 kl. 10:51

4 Smámynd: Dominus Sanctus.

Hérna getið þið séð hverjir stjórna 78% af öllum fjölmiðlum: 

Það þarf ekki nema 1 óæskilegan aðila inn á rúv með dagskrárvald

til að knésetja íslesnsku þjóðina innanfrá:

https://contact.blog.is/blog/geimveru_handbokin/entry/2294069/

Dominus Sanctus., 25.4.2024 kl. 14:59

5 Smámynd: Baldur Gunnarsson

Hannibal Barca beið ósigur af því þjóðleg eining ríkti með Rómverjum, en ekki með Karþagómönnum þegar á reyndi. Þetta skildi hann sjálfur að lokum.   

Baldur Gunnarsson, 26.4.2024 kl. 18:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband