Pútín-Trump samsærið er falsfrétt

Trump varð ekki forseti Bandaríkjanna vegna þess að Pútín Rússlandsforseti studdi hann. En Pútín-Trump samsæriskenningin gengur út á einmitt það.

Lee Smith rekur Pútín-Trump samsærið til frjálslyndrar elítu sem ekki gat afborið þá tilhugsun að Trump sigraði frambjóðanda elítunnar, Hillary Clinton, á bandarískum forsendum. Pútín hlýtur að bera ábyrgð kjöri Trump, búum til raðfréttir um það og þá trúir almenningur okkur, var viðkvæðið.

En það voru, óvart, ekki rússnesk nettröll sem leiddu bandaríska kjósendur inn í kjörklefann haustið 2016 og sögðu þeim að kjósa Trump. Forsetakjör Trump er niðurstaða bandarískra stjórnmála. Þegar hamfarir knýja dyra hjá trúarsamfélagi er það óðara skýrt með reiði guðs. Frjálslynda elítan á engan guð, aðeins djöfulinn. Og hann heitir Pútín.


mbl.is Segja engin tengsl milli Moskvu og Trumps
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjölskylduflokkar á ríkisframfæri

Viðreisn og Björt framtíð eru stjórnmálaflokkar á vegum örfárra fjölskyldna og vina. Flokkarnir hittu á rétt augnablik, fengu atkvæði inn á alþingi, og eru þar með komnir á ríkisframfæri.

Jafnvel Píratar eru með breiðari hóp á bakvið sig, þar má tala um stjórnmálaflokk kunningja og e.t.v. nördasamfélags.

Það yrði hollt lýðræðinu að fækka flokkum. Stjórnmálaskoðanir i landinu þurfa ekki sjö flokka á alþingi, 3-4 eru kappnóg.


mbl.is Þorgerður hlaut 61 atkvæði af 64
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Viðreisn; eins manns flokkur fárra atkvæða

Ef ekki væri fyrir Benedikt Jóhannesson væri Viðreisn ekki til, sagði Þorgerður Katrín, sitjandi formaður, í upphafi landsþings flokksins. 

Ástæðan fyrir því að stofnandinn hrökklaðist úr brúnni er að atkvæðum fækkaði. Nú eru þau orðin svo fá að ekki er gefið upp hve mörg þarf til að fá kjör sem formaður Viðreisnar.

Viðreisn er stofnuð af fólki sem einangraðist í Sjálfstæðisflokknum. Viðreisnarfólk sá blámann í austri, Evrópusambandið, hvers fána var flaggað á landsfundi flokksins. 

ESB-fáninn en engin atkvæði. Það eru eftirmæli Viðreisnar.


mbl.is Gefa ekki upp tölur í formannskjöri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ögmundur um skoðanakúgun Egils, RÚV og Stundarinnar

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra var á röngunni þegar hún mætti á fund um stríðið í Sýrlandi, segir Egill Helgason, RÚV og Stundin - þ.e. bandalag frjálslyndra vinstrimanna. Ögmundur Jónasson, fyrrverandi þingmaður Vinstri grænna, svarar:

Við fyrstu umhugsun hefði ég haldið að óhætt væri fyrir hvern sem er, líka forsætisráðherra, að sækja fund þar sem færð væru fyrir því rök að stríð í tilteknu landi kynni að eiga sér aðrar skýringar en þær sem okkur væru kynntar í fréttatímum fjölmiðlanna.
Í kúgunarþöggun er hins vegar enginn óhultur þegar vilji er til að grafa undan fólki: „Var á fundi með málpípu kúgara! Þarf frekar vitnanna við?"

Er það svona sem við viljum hafa það?

Þótt fundur um Sýrland sé deiluefnið á yfirborðinu býr meira undir. Löng hefð er fyrir því að kratar, frjálslyndir vinstrimenn, séu hlynntir heimsvaldastefnu Bandaríkjanna. Forverar Vinstri grænna, Alþýðubandalagið og sósíalistar, voru aftur gagnrýnir á bandarískt auðræði og alþjóðlegan yfirgang þess.

Deilurnar um fundarsetu Katrínar eru hluti af stórpólitísku uppgjöri vinstrimanna þar sem afstaðan til heimsvaldastefnu Bandaríkjanna og Nató er miðlæg.


Ögmundur, Egill, vinstripólitík og Sýrland

Ögmundur Jónasson er gagnrýninn á hlut Bandaríkjanna og Nató í miðausturlöndum. Hann skammar RÚV fyrir að neita að fjalla um framferði vestrænna ríkja í Sýrlandi.

Egill Helgason er að hætti frjálslyndra vinstrimanna stækur Rússahatari. Hann tekur Ögmund á beinið, ekki í einni færslu heldur tveim. Í leiðinni skammar hann Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra fyrir að mæta á fund þar sem Rússahatur var ekki á dagskrá.

Assad Sýrlandsforseti nýtur stuðnings Rússa. Bandaríkjamenn vilja Assad feigan og styðja aðskiljanlega uppreisnarhópa í því skyni, Kúrda meðtalda. Stefán Pálsson sagnfræðingur kemur á ská inn í deilu Ögmundar og Egils með því að vekja athygli á grein um sýrlensku borgina Raqqa sem Kúrdar frelsuðu frá Ríki íslams. Í lok greinarinnar segir að íbúar Raqqa viti ekki í hvort fótinn þeir eigi að stíga þegar valið stendur á milli Kúrda og Assad. En Assad sé þó skárri þar sem hann er arabískur, en Kúrdar ekki.

Málefni Sýrlands eru flókin en skipting íslenskra vinstrimanna er í grunninn einföld. Frjálslyndir vinstrimenn styðja Bandaríkin/Nató að búta í sundur ríki í þágu vestrænna hagsmuna, t.d. Sýrland og Úkraínu. Íhaldssamir vinstrimenn eru raunsærri - og gagnrýnni á Bandaríkin/Nató - og þar að auki ekki haldnir Rússahatri.

 


Helga Vala, Guðmundur Andri fá sér síma

Helga Vala Helgadóttir og Guðmundur Andri Thorsson þingmenn Samfylkingar fengu sér síma á kostnað þjóðarinnar í byrjun árs. Samkvæmt vef alþingis var kostnaðurinn samtals 160 þúsund krónur.

Löglegt en siðlaus, eru skilaboðin á samfélagsmiðlum þar sem birtar eru myndir af samfylkingarþingmönnunum tveim og spurt: hvers vegna kaupa þau ekki sinn síma sjálf. Þau eru með yfir 1,2 m.kr. í mánaðarkaup og ættu eins og venjulegt fólk að borga símann sinn.

Reglur alþingis eru að þingmenn geta á tveggja ára fresti keypt sér síma og rukkað almenning um 80 þúsund krónur.

Guðmundur Andri, og þó enn frekar Helga Vala, kynna sig sem riddara réttlætisins. Til að standa undir nafni verða slík fyrirbæri að temja sér hóf í (mis)notkun hlunninda sem fylgja þeirri forréttindastöðu að vera þingmenn.

Eða eru kannski Helga Vala og Guðmundur Andri ekkert á móti hlunnindum forréttindastétta? Er allt í plati sem þau segja?

 


Stjórnlyndi vex, lýðræði dofnar

Lýðræði er skásta stjórnskipunin en ekki sú besta. Rökin eru þau að besta stjórnskipunin sé ekki enn fundin upp og verður sennilega aldrei. Lýðræðið er veikt fyrirkomulag, þolir illa öfgar eins og sást í Þýskalandi á millistríðsárunum.

Lýðræði á í vök að verjast í ríkjum þar sem það stóð aldrei sterkt, t.d. Kína, Rússlandi og Tyrklandi. En jafnvel í heimshlutum sem búa að langri lýðræðishefð, Bandaríkjunum og Vestur-Evrópu, stendur lýðræðið höllum fæti. Trump yrði seint sagður lýðræðissinni, þótt hann sé lýðræðislega kjörinn. Evrópusambandið er ekki háborg lýðræðisins heldur embættismannaveldis.

Svo öfugsnúið sem það hljómar er framgangur algildra mannréttinda ein ástæða þess að lýðræðið veikist. Algild mannréttindi valdefla einstaklinginn, sérþarfir hans og sérvisku, en grafa undan því sammannlega, samfélaginu. Lýðræði þarf samfélag sem styðst við sameiginleg grunngildi. Ef einstaklingarnir eru hver og einn heimur út af fyrir sig, og það er æ minna sem sameinar þá, verður lýðræðið því merkingarlausara.

Lýðræði er ekki af eða á fyrirkomulag heldur bæði og. Lýðræðisríki viðurkenna að valdið komi frá almenningi og að valdhafar séu þjónar og eiga að standa skil á ábyrgð sinni.

Stjórnlyndi vex eftir því sem lýðræðið dofnar. Í stjórnlyndu samfélagi, sem þarf ekki endilega að vera einræði eða alræði, er meginstraumur valda ekki frá almenningi til ríkisstjórna heldur flýtur valdið í öfuga átt; yfirvöld eru forráðamenn, líkt og foreldrar barna sinna. Yfirvöld eru ekki þjónar almennings heldur ábyrgðarmenn almannaheilla.

Sagt beinskeytt: einstaklingsfrekja síðustu áratuga býr í haginn fyrir harðara yfirvald. Skrattinn hitti ömmu sína.


mbl.is Getur verið forseti Kína fyrir lífstíð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað varð um krónur Þorgerðar Katrínar?

ESB-sinninn og evru-aðdáandinn Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, fyrrverandi varaformaður Sjálfstæðisflokksins og núverandi formaður Viðreisnar er hvorki meðvirk né íhaldssöm heldur frjálslynd. Hún segir þetta um íslensku krónuna:

Íslenskri þjóð þykir vænt um krón­una sína, það á hana jú eng­inn ann­ar í heim­in­um. Hún er líka fín meðan þú átt hana og allt er í lukk­unn­ar velst­andi. Um leið og þú skuld­ar hana er hún hins veg­ar slótt­ug og jafn­vel of­beld­is­full. Hún hef­ur valdið meiri efna­leg­um mis­mun milli þeirra sem hafa aðstöðu til að standa utan krónu­hag­kerf­is­ins og hinna sem eru bundn­ir inn­an  þess.

Athyglisverð orð. Einhverjar krónur eignaðist Þorgerður Katrín um ævina. Krónur Tobbu Kötu voru sumar á sveimi í Kaupþingi í kringum hrunið. Þær voru að hluta eign en að hluta skuld. Hvað varð um þær krónur? Kom einhver meðvirkni við sögu þegar krónueignin var gerð upp?


mbl.is Krónan fín meðan þú átt hana
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sólveig og sósíalisminn

Sólveig Anna Jónsdóttir, nýr formaður Eflingar, skrifar sósíalíska samfélagsgreiningu sem boðar nýjar áherslur í verkalýðsbaráttu. Í greininni er að finna orð eins og ,,arðrán", ,,auðstétt" og setningar á borð við: ,,Verkafólk og láglaunafólk skilur nákvæmlega hvað á sér [stað] í íslenskum samtíma og það getur ekki lengur sætt sig við sturlunina."

Í allri greininni er aðeins nefnd ein tala, Eflingartaxti upp á 283.000 kr. mánaðarlaun. En verkalýðshreyfingin semur ekki um markaðslaun, þ.e. raunveruleg laun, heldur lágmarkslaun, sem eru aðeins viðmið fyrir raunlaun.

Samkvæmt Hagstofunni frá sl. hausti voru heild­ar­laun í fullu starfi að meðaltali 667 þúsund krón­ur á mánuði. Samanburður á starfsstéttum er þó meira afhjúpandi. Um það segir:

Árið 2016 voru heild­ar­laun starfs­stétta að meðaltali á bil­inu 479 þúsund krón­ur á mánuði hjá þjón­ustu-, sölu- og af­greiðslu­fólki til 1.079 þúsund krón­ur hjá stjórn­end­um. Heild­ar­laun skrif­stofu­fólks voru 497 þúsund krón­ur á mánuði, verka­fólks 520 þúsund krón­ur, tækna og sér­menntaðs starfs­fólks 699 þúsund krón­ur, sér­fræðinga 707 þúsund krón­ur og iðnaðarmanna 715 þúsund krón­ur á mánuði.

Sem sagt, launamunur á milli starfsstétta í landinu nær því að vera rétt rúmlega tvöfaldur þar sem hann er mestur, 479 þús. á mánuði hjá þjónustu og afgreiðslufólki upp í rúma milljón hjá stjórnendum.

Auðsstétt sem ekki borgar sér meira en rúm tvöföld meðallaun ,,lágstéttar" er vitanlega ekki auðsstétt. Hún er meira í ætt við tannhjól í sósíalistaríki. Ef það er einhver ,,sturlun" þá er það orðræða Sólveigar.


Samræmd próf; eftirlit, traust og svindl

Almennt ætti það að gilda að skólum sé treyst til að fara eftir aðalnámskrá. Eftirlit í formi samræmdra prófa skaðar skólastarf þar sem iðulega er kennt til að nemendur nái sem bestum árangri á samræmdum prófum.

Sumir skólar ganga lengra og beinlínis koma því svo fyrir að slakir nemendur taki ekki samræmd próf - til að meðaleinkunn skólans falli ekki.

Þegar það gerist í ofanálag að tæknilegt klúður eyðileggur samræmd próf ættu yfirvöld að íhuga að treysta skólum betur og draga úr eftirliti.


mbl.is „Hvað er að ykkur?“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband