Þriðjudagur, 19. nóvember 2019
Trúin á spillinguna, spámennirnir og fall Bensa
Á Íslandi er trú á spillingu. Líkt og í trúarmálefnum almennt er ekki spurt um undirstöðu trúarinnar, að Ísland sé spillt, - það væri guðlast - heldur iðka menn trú sína án þess að spyrja um rök eða forsendur.
Trúin þrífst á spámönnum, sem margir hverjir hreiðra um sig í fjölmiðlum, og trúarsöfnuðum sem kalla sig stjórnmálaflokka. Safnaðarlífið er giska fjörugt síðustu ár og misseri; söfnuðir á víxl stofnaðir og aflagðir.
Endrum og sinnum birtast spámönnum opinberanir um spillingu. Lykilatriði er að nafngreina þann spillta, sem eftir atvikum er einstaklingur en sjaldnar fyrirtæki eða stofnun. Ef um er að ræða lögaðila þarf að setja andlit einstaklings í forgrunn enda verður sá spillti að vera af holdi og blóði til að þjóna tilgangi blóðfórnar.
Spillti einstaklingurinn er ekki tekinn neinum vettlingatökum. Þekktu spámennirnir ryðja brautina í fjölmiðlum og segja véfréttir af þeim spillta. Minni spámenn koma í halarófu á eftir og úthúða skotmarkinu fyrir stórt og smátt. Söfnuðir halda bænastundir, semja ályktanir og oddvitarnir taka til máls á alþingi og samfélagsmiðlum.
Takist vel til með opinberunina skapast stemmning í samfélaginu fyrir allsherjarsamkomu þeirra trúuðu. Samkoman er venju samkvæmt haldin á Austurvelli. Þar berja þeir réttlátu sér á brjóst, stíga á stokk og strengja heit.
Trúin á spillinguna er þrungin stæku hatri á sérvöldum fórnarlömbum. Í ferlinu frá opinberuninni og fram að allsherjarmessunni á Austurvelli fer saman reiði og sjálfsupphafning múgsins. Við erum þeir hreinu, réttlátu, saklausu og þarna fer úthrópaða kvikindið sem hvergi skal um frjálst höfuð strjúka.
Þegar móðurinn rennur af spámönnunum og söfnuðinum, nokkra daga eða vikur eftir Austurvallamessu, átta sumir sig á að opinberunin var haganlega saman settur spuni með hálfsannleik og kryddaður nokkrum sannleikskornum.
En vei þeim sem efast um gildi sakramentanna. Maður er kallaður Bensi, liðtækur minni háttar spámaður, og sat í ríkisstjórn sem sprakk eftir næturfund hjá einum söfnuðinum. Bensa varð það á í aðdraganda kosninganna í kjölfarið að viðurkenna svo aðrir heyrðu til að hafa gleymt opinberuninni sem felldi ríkisstjórnina. Óðara var Bensi sviptur hempunni í söfnuðinum sem hann stofnaði og veitti forstöðu. Í framhaldi var þingsetan afturkölluð.
Trúin á spillingu er öllum boðorðum æðri. Spyrjið Bensa, ef þið vogið ykkur að trúa ekki.
![]() |
Sósíalistar álykta vegna Samherjamálsins |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Mánudagur, 18. nóvember 2019
Stasi-aðferðir Björns Leví og Pírata
Þingmaður Pírata opnar gagnasíðu þar sem fólki er boðið undir nafnleynd að saka samborgara sína um spillingu.
Í skjóli nafnleysis getur hver sem er sakað nafngreint fólk um að vera spillt.
Austur-þýska leyniþjónustan Stasi fullkomnaði aðferðir lögregluríkisins og safnaði ógrynni upplýsinga um ,,spillt viðhorf" í kommúnistaríkinu.
Björn Leví er á kaupi sem þingmaður á alþingi Íslendinga. Píratar fá ótaldar milljónir króna á ári i flokkssjóð - almenningur borgar.
Það er hvorki hlutverk Björns Leví né Pírata að safna gögnum um almenna borgara. Björn Leví og Píratar ættu að biðjast afsökunar og loka fyrir þessar ógeðfelldu njósnir.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Mánudagur, 18. nóvember 2019
Færri glæpir, fleiri dómsmál
Íslendingar fremja færri glæpi en almennt gengur og gerist. Á hinn bóginn eru rekin fleiri dómsmál hér en tíðkast á byggðum bólum.
Sú skýring er nærtæk að Íslendingar eru friðsamir en þrasgjarnir.
Lagaþrætur eru í Njálu, við tókum kristni eftir þras á þingi og heimtum fullveldi frá Dönum með argaþrasi í meira en hálfa öld. Gamall texti, sem Jón Sigurðsson fann á skjalasafni í Köben, Gamli sáttmáli, var rökvopnið sem beit.
Almennt gildir í siðuðu samfélagi að þras er huggulegra en glæpur.
![]() |
Óvenjumikill málafjöldi á fámennu landi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 18. nóvember 2019
Forseti Namibíu grunar RÚV um græsku
RÚV setti fram ásakanir um spillingu ráðherra í Namibíu, sem ekki er hægt að sannreyna, rétt fyrir kosningar þar í landi. Hage Geingob, forseti Namibíu, grunar að tímasetning RÚV sé ekki tilviljun.
Það liggur fyrir að namibísk yfirvöld hafa rannsakað meinta spillingu ráðherrana i fimm ár. RÚV er heimildin.
Einnig liggur fyrir að RÚV beið í marga mánuði með að birta ásakanir um spillingu. Fram kemur í myndefni Kveiks-þáttarina að meintar sannanir fyrir spillingu liggja fyrir síðast liðið vor.
Samstarfsmaður RÚV, Kristinn Hrafnsson ritstjóri alþjóðlegu spillingarveitunnar Wikileaks, segir í viðtali á mbl.is að samstarfið við RÚV hafi byrjað haustið 2018. Kristinn talar um að brýnt sé að ,,matreiða og verka" ásakanir til að þær hafi áhrif.
Í spunafræðum er þekkt staðreynd að ásakanir um spillingu, settar fram rétt fyrir kosningar, ná hámarksáhrifum einmitt vegna þess að ekki vinnst tími til að sannreyna þær áður en almenningur greiðir atkvæði.
Í nafni gegnsæis og áreiðanleika þarf að fara í saumana á tilurð ásakana RÚV um mútur og spillinu í Samherja-Namibíumálinu. RÚV er opinber stofnun og er ætlað að þjóna Íslandi en ekki móta sérstaka utanríkisstefnu og hafa áhrif á þingkosningar í erlendum ríkjum. Íslensk stjórnvöld hljóta að taka vel í óskir frá Namibíu um slíka rannsókn.
![]() |
Segir tímasetningu ásakananna grunsamlega |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 08:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Sunnudagur, 17. nóvember 2019
Helga Vala játar afglöp í starfi
Helga Vala Helgadóttir er þingmaður á alþingi Íslendinga, þótt hún tali eins og aðalstarfið sé að vera í saumaklúbbi vinstrimanna. Þegar Helga Vala krafðist þess að eigur Samherja yrðu frystar jafngilti það kröfu um að starfsemi fyrirtækisins yrði stöðvuð.
Með því að viðurkenna að það sé ekki í hennar höndum að krefjast haldlagningar á eigur Samherja er Helga Vala að játa afglöp í starfi. Því sannanlega sagði þingmaðurinn þetta: ,,Í mínum huga kemur ekkert annað til greina en að eignir Samherja verði frystar núna strax á meðan á rannsókn stendur."
Tvennt verður ekki aftur tekið, töluð orð og tapaður meydómur.
![]() |
Ekki í mínum höndum að krefjast frystingar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Sunnudagur, 17. nóvember 2019
Bylting og veruleiki
Obama fyrrum Bandaríkjaforseti varar við byltingarórum og stefnumálum sem ekki eiga sér ,,stoð í veruleikanum." Almennir kjósendur hafi ekki áhuga á að ,,jafna kerfið við jörðu."
Athyglisverð orð sem eiga víðar við en í Bandaríkjunum.
Bylting snýst um róttækar breytingar á veruleikanum. Þekktustu byltingar seinni tíma sögu, sú franska 1789 og rússneska byltingin 1917, voru ekki sjálfssprottnar heldur afleiðingar af nýjum skilningi á veruleikanum annars vegar og hins vegar gjaldþroti kerfis sem gerði gamla veruleikann starfhæfan.
Spyrja má hvort veruleikinn sem við búum við, á vesturlöndum almennt og Íslandi sérstaklega, taki stakkaskiptum um þessar mundir. Í öðru lagi hvort kerfin utan um viðurkenndan veruleika séu komin að fótum fram.
Veruleikinn eins og hann birtist okkur í opinberri umræðu er allt annar núna en fyrir tveim áratugum. Samfélagsmiðlar brutu á bak aftur einveldi dagblaða og ljósvakamiðla. Kerfi stjórnmálaflokka riðlaðist víða á vesturlöndum - heldur þó velli í Bandaríkjunum. Lok kalda stríðsins á tíunda áratug síðustu aldar kippti forsendunum undan tvískiptingu heimsins í austur og vestur.
Alþjóðakerfin sem byggðust upp eftir seinna stríð láta á sjá en eru þó enn fyrir hendi. Sameinuðu þjóðirnar, ESB, Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn, Nató og fleiri úr sama ranni eru enn starfandi. Að vísu með ótryggari framtíðarhorfur en áður.
Byltingar, í skilningi þeirrar frönsku og rússnesku, eru ekki yfirvofandi. Nærtækara er að líta svo á að yfir standi aðlögunartímabil. Hugmyndir og viðmið úreldast og óreiða einkennir tímabilið á meðan ný gildi eru í samkeppni.
Þrátt fyrir bölmóðinn sem einkennir umræðuna á yfirborðinu eru ekki þær þjóðfélagslegu andstæður með tilheyrandi eymd og örbirgð sem réttlæta byltingu. Veruleikinn, eins og hann blasir við, er hagfelldari en svo að almenningur beri eld að kerfinu.
![]() |
Obama varar demókrata við að vera of byltingakennda |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 11:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Laugardagur, 16. nóvember 2019
Loftslagskvíði og gamalt húsráð
Fólk skemmtir sér ekki lengur vegna loftslagskvíða, segir í frétt á Vísi. Hvernig er hægt að skemmta sér kortéri fyrir endalok heimsins vegna hlýnunar og hruns vistkerfa?
Erlendis eru haldin námskeið fyrir fólk þjakað af kvillanum.
Eitt fórnarlambanna, sem blaðamaður Vísis talaði við, segir: ,,Ég hugsa að lausnin sé bara að taka nokkur þúsund skref aftur á bak, endurhugsa þessa heimsmynd okkar og minnka samfélögin."
Gamalt húsráð við færa samfélög ,,aftur á bak" og minnka þau er stríð. Ráðið er þrautreynt og gefur nær undantekningalaust sömu niðurstöðuna.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Laugardagur, 16. nóvember 2019
Byltingarmaðurinn og Viðreisn
Formaður VR reyndi fyrir ári innflutning á mótmælum gulvestunga í Frakklandi.
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, hvetur fólk til að mótmæla stjórnmálaástandinu á Íslandi. Ragnar birti mynd á Facebook í dag af gulu vesti með áletrunum og spyr hvort hann eigi að panta fleiri, segir í ársgamalli frétt mbl.is
Engin eftirspurn var eftir gulvestungamótmælum Ragnars Þórs fyrir ári. En byltingarmaðurinn er ekki af baki dottinn. Nú skal mótmæla ,,afrekum Samherja á erlendri grundu."
Gaurar eins og Ragnar Þór eru alltaf til í byltingu að tveim skilyrðum uppfylltum. Í fyrsta lagi að samfélagsvöld séu boði. Í öðru lagi að byltingarmennirnir fái hlutverk á stóra sviðinu, komist í valdastöðu. Hugmyndafræðin er aukaatriði, völdin aðalatriði.
Nýrra ber við að stjórnmálaflokkurinn Viðreisn, almennt kallaður saga-class útgáfa Sjálfstæðisflokksins, bjóði upp á byltingu. En Viðreisn getur ekki á sér setið, enda langsoltin í völd, og stekkur á Sammherjavagn Ragnars Þórs.
Viðreisn boðar til fundar til að fordæma ,,meinta hægrimenn" í Sjálfstæðisflokknum. Við erum sannir hægrimenn, segir Viðreisnarfólk, og boðar markaðsvæðingu samfélagsins.
Ragnar Þór og Viðreisn hljóta að sameina kraftana og markaðsvæða allt sem hægt er að kaupa og selja og láta Evrópusambandið um afganginn. Þannig verður samfélagið óspillt. Og völdin komast í ,,réttar" hendur.
Fyrirsjáanlegt er kosningabandalag Ragnars Þórs og Viðreisnar. Jafnvel að Sósíalistaflokkur Gunnars Smára sláist í för. RÚV yrði málgagnið.
![]() |
Samfélagslegum gildum okkar er ógnað |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 16. nóvember 2019
Efsta stig RÚV, frumstig veruleikans
RÚV ákærði og dæmdi Samherja í einum sjónvarpsþætti í nóvember 2019 fyrir að múta namibískum stjórnmálamönnum. Seðlabanki Íslands gerði húsleit hjá Samherja 2012, í samráði við RÚV, vegna gjaldeyrisviðskipta. Dómsmál sem leiddi af þeirri rannsókn sýknaði fyrirtækið fyrir rúmu ári.
Meintar mútur Samherja í Namibíuviðskiptum eru til rannsóknar þarlendra yfirvalda frá 2014, samkvæmt frétt á RÚV.
Myndin sem blasir við er þessi: RÚV ætlar sér að knésetja Samherja, fyrst með ásökunum um brot á gjaldeyrisviðskiptum á Íslandi og síðar með ásökunum um mútugreiðslur í Namibíu.
Í báðum tilvikum ákærir RÚV og dæmir. Ríkisfjölmiðillinn er með á sínum snærum stjórnmálamenn, þingmenn Samfylkingar og Pírata, sem endurtaka ásakanir RÚV á alþingi og í almennri pólitískri umræðu.
Efsta stig RÚV-réttlætis er múgæsingin sem á að fullkomna verkið. Sighvatur Björgvinsson fyrrum formaður Alþýðuflokksins segir að ,,viðbrögð stjórnmálamanna fari oft eftir viðbrögðum þjóðarinnar."
Sem sagt: RÚV sannfærir þjóðina um sekt Samherja og stjórnmálamenn framfylgja RÚV-réttlætinu.
![]() |
Samherjamálið er á frumstigi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 10:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Föstudagur, 15. nóvember 2019
Boris nennir ekki Rússagrýlunni
Rússagrýlan, að Pútín ákveði niðurstöður kosninga á vesturlöndum, er til marks um að spuni og dómgreindarleysi nái tökum á fólki sem ætti að vita betur.
Rússagrýlan gengur út á að Moskvuvaldið kunni þau vélbrögð samfélagsmiðla að senda skilaboð til kjósendahópa að greiða atkvæði stjórnmálaöflum sem eru Rússum þóknanleg.
Hvernig í veröldinni ættu Rússar að búa yfir þekkingu og snilli sem þarf til að fá Jón og Gunnu á vesturlöndum að kjósa ,,rétt". Eru Rússar heimsins mestu tölvunördar og sérfróðari en allir aðrir að hanna pólitísk skilaboð sem duga til atkvæða?
Rökin halda ekki vatni. Þau eru spunaþvættingur frjálslyndra vinstrimann sem neita að horfast í augu við þá staðreynd að stórir kjósendahópar kusu Trump og Brexit og andófsöfl sem hafna alþjóðahyggju.
Boris Johnson afneitar Rússagrýlunni og fær prik fyrir.
![]() |
Boris segir engar sannanir fyrir afskiptum Rússa |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)