Þórhildur Pírati hótar Helga Seljan og RÚV

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir þingmaður Pírata segir á alþingi að Ísland ætti að taka sér Namibíu til fyrirmyndar í stjórnarháttum. Þingmaðurinn gefur yfirlýsinguna í sömu mund og fréttist af brottrekstri fréttamannsins Vita Angula frá systurstofnun RÚV í Namibíu, NAMPA.

Ekki er hægt að skilja orð Þórhildar á annan veg en að hér sé um hótun að ræða. Annað hvort starfi Helgi Seljan og aðrir RÚV-arar eftir forskrift ráðandi afla eða þeir missi vinnuna.

Nokkuð bratt, Þórhildur Sunna, nokkuð bratt.


mbl.is Ættum að taka Namibíu til fyrirmyndar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stöð 2 á bláþræði, RÚV á ríkisgrunni

Fréttastofa Stöðvar 2/Bylgjunnar hangir á bláþræði, segir Viljinn. Það liggur fyrir 

að fjölmiðlafyrirtækin hér á landi glíma við mjög erfið rekstrarskilyrði, gegndarlausan taprekstur og mega því ekki við miklum áföllum — sérstaklega ekki í aðdraganda jólanna þegar auglýsingatekjur eru þó með mesta móti.

Nema, auðvitað, RÚV sem er með áskrift að ríkisfé. 

Sérstaða RÚV er lítt rædd í fjölmiðlum. Stétt blaðamanna er fámenn, menn eiga vini og kunningja á Efstaleiti, og eru kannski með liggjandi starfsumsókn um ríkistryggðar launagreiðslur.


mbl.is „Mikil gremja í fólki“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samherji Sjálfstæðisflokknum dýrkeyptur

Sjálfstæðisflokkurinn tapar mestu á Samherjamálinu. Í aðdraganda Kveiks-þáttarins hagaði Samherji sér eins og ríki í ríkinu, ætlaði sér að koma seðlabankastjóra Jóhönnustjórnarinnar, Má Guðmundssyni, í fangelsi. Már vann sér það til óhelgi að rannsaka gjaldeyrisviðskipti Samherja. Látið var eins og útgerðin ætti landið og miðin með þjóðina sem leiguliða er ætti hvorki að æmta né skræmta heldur hlýða.

Áhrifamenn í Sjálfstæðisflokknum létu sér vel líka að Samherji léti höggin dynja á þeirri stofnun sem vakir yfir velferð krónunnar og þar með efnahagslegu sjálfstæði þjóðarinnar. Það fer ekki vel á því að norðlenskir útvegsbændur brjóti helstu stofnun lýðveldisins á bak aftur. Fiskur verður alltaf dreginn á Íslandsmiðum. Krónan er höfuðdjásn sem slorugar krumlur eiga ekki að fara höndum um.

Í aðförinni að Seðlabankanum hlóðu Samherjamenn eigin galdrabrennu. RÚV-Kveikur skaffaði eldfærin. Ísland er ekki Gvatemala þótt Samherji leiki United Fruit.

Meðhlaup Sjálfstæðisflokksins gerir móðurflokkinn pólitískt meðsekan í Namibíuútgerð Norðlendinganna. Stjórnarandstaðan finnur blóðbragð og sparar ekki stóryrðin.

Eftir því sem fylgi Sjálfstæðisflokksins minnkar líkist flokkurinn æ meira laustengdu bandalagi valdahópa í viðskiptalífi og djúpríki embættismanna. Sjálfstæðinu var fórnað fyrir þessa hagsmuni með 3. orkupakka ESB sem flokkurinn kokgleypti. Án kjölfestu og á klafa sérhagsmuna er Sjálfstæðisflokkurinn eins og spýta með smásteinum vinstribörnum að leik í fjöruborðinu. 


mbl.is Sökuðu fjármálaráðherra um lögbrot
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 26. nóvember 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband