Bylting og veruleiki

Obama fyrrum Bandaríkjaforseti varar við byltingarórum og stefnumálum sem ekki eiga sér ,,stoð í veruleikanum." Almennir kjósendur hafi ekki áhuga á að ,,jafna kerfið við jörðu."

Athyglisverð orð sem eiga víðar við en í Bandaríkjunum.

Bylting snýst um róttækar breytingar á veruleikanum. Þekktustu byltingar seinni tíma sögu, sú franska 1789 og rússneska byltingin 1917, voru ekki sjálfssprottnar heldur afleiðingar af nýjum skilningi á veruleikanum annars vegar og hins vegar gjaldþroti kerfis sem gerði gamla veruleikann starfhæfan.

Spyrja má hvort veruleikinn sem við búum við, á vesturlöndum almennt og Íslandi sérstaklega, taki stakkaskiptum um þessar mundir. Í öðru lagi hvort kerfin utan um viðurkenndan veruleika séu komin að fótum fram.

Veruleikinn eins og hann birtist okkur í opinberri umræðu er allt annar núna en fyrir tveim áratugum. Samfélagsmiðlar brutu á bak aftur einveldi dagblaða og ljósvakamiðla. Kerfi stjórnmálaflokka riðlaðist víða á vesturlöndum - heldur þó velli í Bandaríkjunum. Lok kalda stríðsins á tíunda áratug síðustu aldar kippti forsendunum undan tvískiptingu heimsins í austur og vestur.

Alþjóðakerfin sem byggðust upp eftir seinna stríð láta á sjá en eru þó enn fyrir hendi. Sameinuðu þjóðirnar, ESB, Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn, Nató og fleiri úr sama ranni eru enn starfandi. Að vísu með ótryggari framtíðarhorfur en áður.

Byltingar, í skilningi þeirrar frönsku og rússnesku, eru ekki yfirvofandi. Nærtækara er að líta svo á að yfir standi aðlögunartímabil. Hugmyndir og viðmið úreldast og óreiða einkennir tímabilið á meðan ný gildi eru í samkeppni.

Þrátt fyrir bölmóðinn sem einkennir umræðuna á yfirborðinu eru ekki þær þjóðfélagslegu andstæður með tilheyrandi eymd og örbirgð sem réttlæta byltingu. Veruleikinn, eins og hann blasir við, er hagfelldari en svo að almenningur beri eld að kerfinu.

 


mbl.is Obama varar demókrata við að vera of „byltingakennda“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ragnhildur Kolka

Obama reyndi að bylta stjórnmálakerfi BNA á sinn hljóðláta hátt án stuðnings þingsins með tilskipunum. Kosning Hillary átti svo að festa tilskipanirnar í sessi. Það gekk ekki eftir og Trump vann. Þjóðin var þá ekki frekar en nú tilbúin í umskiptin. Það er hins vegar umhugsunar efni hve mikinn þátt Obama á í því ástandi sem ríkt hefur innan bandarísku stjórnsýslunnar. Fáir trúa því að hann hafi ekki vitað hvað gekk á og hvernig hver ríkisstofnunin á fætur annarri undirbjó stjórnarbyltingu sem í dag spilast út í þingsölum.

Obama er það sem á góðri íslensku kallast kafbátur. Hann kemur úr djúpinu þegar aðstæður leyfa.

Ragnhildur Kolka, 17.11.2019 kl. 13:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband