RÚV í valdabaráttu, sakar Katrínu um hræsni

RÚV sakar Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra um hræsni og vill að lögreglurannsókn verði hætt á hlutdeild RÚV í samsæri með Seðlabankanum vegna húsleitar hjá Samherja. Í hádegisviðtali fréttamanns RÚV við Katrínu (7:10) er forsætisráðherra spurður hvort það sé ekki ,,hræsni" að láta lögreglu rannsaka samsæri RÚV og Seðlabankans um aðför að Samherja vegna gruns um brot á reglum um gjaldeyrisviðskipti.

Í útskrifaðri frétt RÚV af viðtalinu við Katrínu segir: 

Katrín sagði enga mótsögn í því að leggja fram lagafrumvarp um vernd uppljóstrara á sama tíma og hún hefði sent lögreglu erindi um hugsanlega uppljóstrun starfsmanna Seðlabanka Íslands við fréttamann RÚV um húsleit hjá Samherja vegna gruns um brot á skilaskyldu gjaldeyris.

Samherji var sýknaður fyrir dómstólum í gjaldeyrismálinu. Lögreglurannsókn stendur yfir á samvinnu starfsmanna Seðlabankans og RÚV í aðförinni að Samherja.

Namibíu-fréttaflutning RÚV af málefnum Samherja verður að skoða í ljósi tilraunar RÚV að knésetja Samherja í húsleitarmálinu.

Kristinn Hrafnson, sem er í samstarfi við RÚV í Namibíumálinu, viðurkennir óbeint að hér sé á ferðinni valdabarátta. Hann segir í frétt mbl.is:

Ég held líka al­mennt séð að þessi birt­ing og þessi um­fjöll­un sé ákveðin próf­steinn og prófraun á ís­lenskt sam­fé­lag, og einnig á ís­lenska fjöl­miðla, hvernig þeir mat­reiða og verka þessi mál, sér­stak­lega með til­liti til þess hvernig eign­ar­haldið er þar víða. (undirstrikun pv)

Kristinn hefur sem sagt áhyggjur af dreifðu eignarhaldi fjölmiðla. Almennt er það talið jákvætt í lýðræðisríki að eignarhald fjölmiðla sé dreift, fleiri raddir heyrast og ólík sjónarmið. En samstarfsmaður RÚV vill einn sterkan ríkisfjölmiðil til að ,,matreiða og verka þessi mál". RÚV á sem sagt að fá sem mest völd til að sækja, verja og dæma í opinberum málum. Eitt ríki, ein þjóð, einn fjölmiðill. 


mbl.is „Þarna var augljóslega saga“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

RÚV játar falskar forsendur í Samherjamáli

Helgi Seljan RÚV-ari skrifaði forstjóra Samherja tölvupóst 15. október síðast liðinn. Þar sagði:

Á næstunni ætlum við í Kveik okkur að fjalla um þróunaraðstoð Íslendinga í sjávarútvegi og aukin umsvif íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja erlendis.

Helgi ætlaði ekki að tala um ,,aukin umsvif" Samherja heldur bera fram ásakanir um stórfellda glæpastarfsemi Samherja í Namibíu. Helgi vildi fá forstjóra Samherja í viðtal til að sýna hann sem sekan mann. Enda var RÚV búið að ákveða niðurstöðuna fyrirfram. Í handritið vantaði aðeins senu með sekum forstjóra. (Sem RÚV þó náði síðar með því að gera Þorsteini Má forstjóra fyrirsát, sbr. Kveiks-þáttinn).

Samherji stendur í deilum við namibísk yfirvöld og fyrrum viðskiptafélaga. Fyrrum starfsmaður fyrirtækisins er genginn til liðs við namibísk yfirvöld. Allt þetta hlaut Þorsteinn Már forstjóri að vita.

Einnig mátti Þorsteinn Már vita að RÚV er í hefndarhug gagnvart Samherja eftir að hafa sýnt sig ómerkilegt verkfæri vinstristjórnar Jóhönnu Sig. í húsleitarmálinu. Samherji fékk þar sigur fyrir dómstólum og RÚV-arar sátu uppi með klámhögg.

Eðlilega hafnaði forstjóri Samherja boði RÚV um niðurlægingu fyrir framan myndavélar ríkisreknu Gróu á Efstaleiti.


mbl.is RÚV birtir bréfaskriftir við Samherja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

RÚV-stillt atlaga að Samherja

Tveir íslenskir RÚV-arar, blautir á bakvið eyrun en í hefndarhug, fara til Afríku eins og börn heimsækja Disney-land, og koma tilbaka með þá sögu að Samherji sé nýlenduherra í Namibíu og níðist á innfæddum.

Þetta er í stuttu máli RÚV-kveikur gærkvöldsins.

Eftirvinnslan er gamalkunn úr fyrri atlögum RÚV að íslenskum einstaklingum og fyrirtækjum. RÚV safnar liði til að trúa tilbúningnum. Píratar og stúdentar horfðu á Kveiksþáttinn er frétt á Efstaleitismiðstöðinni strax í kjölfarið. Afhjúpandi setning úr fréttinni: 

„Ég mundi segja að staðurinn sé svona 80 prósent fullur,“ sagði barþjónninn.

Sighvatur Björgvinsson fyrrum formaður Alþýðuflokksins veit hvað klukkan slær enda gamalreyndur í múgæsingarfræðum:

Sig­hvat­ur seg­ist ekki kunna að meta það hvort eitt­hvað sak­næmt hafi átt sér stað. Koma verði í ljós hvort brot­in sem þarna hafi verið fram­in séu fyrnd. Hann seg­ist spennt­ur að sjá viðbrögð þjóðar­inn­ar því viðbrögð stjórn­mála­manna fari oft eft­ir viðbrögðum þjóðar­inn­ar. Þá bend­ir hann á að ís­lenska rík­is­stjórn­in sé núna að leggja til að lækka veiðileyf­a­gjöld á Sam­herja um stór­fé.

Einmitt. Sekt eða sakleysi skiptir ekki máli. Aðalatriðið er ,,viðbrögð þjóðarinnar." Og RÚV sérhæfir sig í að kalla fram ,,rétt viðbrögð" þjóðarinnar.

Samherji er alþjóðlegt fyrirtæki en ekki góðgerðafélag. Fyrirtækið stundaði viðskipti í Namibíu og virðist hafa gert það gott. Deilur spruttu upp á milli namibískra viðskiptafélaga og Samherja. Þeir namibísku voru nátengdir þarlendum stjórnvöldum sem núna rannsaka starfsemi Samherja og hafa fengið til liðs við sig fyrrum starfsmann Samherja.

RÚV vill láta okkur trúa að stjórnvaldið sem núna rannsakar Samherja sé ,,góði kallinn" en stjórnvöldin sem fyrirtækið átti í samstarfi við ,,vondi kallinn". Veruleiki RÚV er eins og handrit að Disney-mynd. RÚV starfar eftir þeirri forskrift að íslenska þjóðin sé fábjáni. Og líklega erum við það: við borgum RÚV til að framleiða ofan í okkur einfeldningslega Disney-veröld. 

 


mbl.is Svo kom Samherji
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 13. nóvember 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband