Kjarnorkurafmagn til sölu á Íslandi, segir Brussel

Allir vita að hér eru engin kjarnorkuver, en samt er kjarnorka orðinn óumbeðinn hluti af orkukaupum íslenskra heimila. Ef menn vilja ekki raforku sem skilgreind er með uppruna í kjarnorku þá verða menn eins og fyrr segir að kaupa sig frá því með sérstöku gjaldi. Þannig eru orkufyrirtækin búin að koma hér upp sjálfvirkri peningavél sem byggir á að gjaldfella sannleikann um orkuframleiðslu og um leið að gjaldfella hreinleikaímynd Íslands.

Tilvitnunin hér að ofan er úr umfjöllun Bændablaðsins um svikamyllu orkufyrirtækja í skjóli tilskipunar frá EES.

Orkufyrirtækin bjóða garðyrkjubændum að kaupa sig frá þeirri áþján að framleiða grænmeti með kjarnorkurafmagni.

Embættismenn í Brussel eru duglegir að búa til martröð handa almenningi.


Össur og Þorbjörn hanna nýja atlögu að Sigmundi Davíð

Þegar Össur Skarphéðinsson var utanríkisráðherra var ötull talsmaður hans, í ESB-málum sérstaklega, fréttamaðurinn Þorbjörn Þórðarson á Stöð 2/365miðlum sem m.a. þáði boðsferðir til Brussel í því skyni að ,,dýpka" skilning sinn á Evrópusambandinu. Þeir félagar settu saman í dag fréttaatlögu að Sigmundi Davíð forsætisráðherra.

Þorbjörn undirbjó jarðveginn fyrir Össur með því að birta fréttaskýringu í viðskiptablaði Fréttablaðsins um meinta gleði kröfuhafa slitabúa föllnu bankanna. Fréttaskýringin byggir ekki á neinum nafngreindum heimildum og er þar af leiðandi slúður í fréttabúningi.

Össur kemur í kjölfarið með Feisbúkk færslu þar sem hann mærir félaga sinn Þorbjörn fyrir að vera afburðablaðamaður og dregur síðan víðtækar afleiðingar af slúðurfréttaskýringunni og þær helstar að forsætisráðherra sé ömögulegur samningamaður. Eyjan endurbirtir með fyrirsögninni: Samdi Sigmundur Davíð af sér?

Össur og Þorbjörn endurtaka í þessari fréttahönnun gegn Framsóknarflokknum leikinn frá í fyrrasumar þegar þeir bjuggu til frétt um að Sjálfstæðisflokkurinn ætlaði að segja upp ríkisstjórnarsamstarfi við Framsóknarflokkinn vegna moskumálsins.

Blaðamenn sem stunda vinnubrögð þessu tagi hljóta að fá verðlaun - t.d. frá samtökum almannatengla.


Alþingi er aukaatriði - umræðan er á netinu, verkin í stjórnarráðinu

Algjört aukaatriði er hvort alþingi starfar eða ekki. Og enn minna atriði er hvort svokölluð starfsáætlun þingsins sé fyrir hendi eða ekki. Einu sinni var alþingi uppspretta stjórnmálumræðu. Þar voru lagðar fram upplýsingar og fitjað upp á nýmælum.

Á seinni árum er alþingi ekki vettvangur frumkvæðis og nýmæla. Yfirbragð þingstarfa er nöldursleg vanmetakennd. Þingmenn stjórnarandstöðunnar leggja aldrei fram nýjar upplýsingar eða reifa fersk sjónarhorn eldri álitamála.

Pólitísk umræða fer fram í netútgáfum, fjölmiðlum og bloggi. Enginn þingmaður stendur reglulega fyrir umræðum á netinu. Fyrrverandi þingmenn, t.d. Björn Bjarnason og Björn Valur Gíslason, eru reglulegir þátttakendur auk nokkurra tuga áhugamanna um stjórnmál.

Þegar umræðunni sleppir og verkin tala verður hlutur alþingis enn minni. Framkvæmdavaldið er í höndum stjórnarráðsins. Samkvæmt stjórnskipuninni á alþingi að hafa eftirlit með framkvæmdavaldinu. En það eftirlit kemur fyrir lítið þegar þingmenn gaspra dagana langa um fundarstjórn forseta.

Ríkisstjórnarmeirihlutinn ætti að leyfa stjórnarandstöðunni að grafa sína gröf fram eftir sumri. Það verða engin mótmæli á Austurvelli þótt alþingi sitji fram yfir verslunarmannahelgi.


mbl.is Samkomulag um þinglok ólíklegt í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er innanríkisráðuneytið á móti málfrelsi?

Maður út í bæ fær peninga frá innanríkisráðuneytinu til að stefna embættismanna fyrir meiðyrði. Meint meiðyrði féllu í umræðu um hversu heppilegt væri að maðurinn ræki meðferðarheimili. Í fréttinni segir

Inn­an­rík­is­ráðuneytið hafði samþykkt að veita Tý gjaf­sókn og greidd­ist því all­ur kostnaður máls­ins og mál­flutn­ingsþókn­un lög­manns hans sem ákveðin er 600.000 krón­ur að meðtöld­um virðis­auka­skatti úr rík­is­sjóði.

Það er lyginni líkast að maður út í bæ fái gjafsókn frá innanríkisráðuneytinu til að þagga niður í embættismanni. Er virkilega ekki hægt að finna peningum ríkissjóðs verðugri verkefni?

 


mbl.is Sýknaður af kröfu um meiðyrði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þingmenn tala upp illsku í kjaradeilum

Þingmenn vinstriflokkanna, t.d. Katrín Júlíusdóttir og Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, tala upp illsku í kjaradeilur opinberra starfsmanna og ríkíssjóðs.

Kjarasamningar á almenna vinnumarkaðnum eru búnir að leggja línuna fyrir efnahagskerfið i heild sinni. Ef ríkið samþykkti meiri kauphækkanir til opinberra starfsmanna væri friðurinn úti á vinnumarkaði.

Málflutningur Katrínar og Sigríðar er bæði ómálefnalegur og óábyrgur.

 


mbl.is Áhugaleysi í alvarlegum málum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Alþýðan kýs hægriflokka, háskólaelítan er til vinstri

Á seinni hluta síðustu aldar kepptu Alþýðuflokkur og Alþýðubandalag um hylli almenns launafólks. Forskeytið alþýða týndist þegar vinstriflokkarnir tóku hamskiptum um síðustu aldamót og urðu Samfylking og Vinstri grænir.

Vinstriflokkarnir sneru baki við fólki með grunnskólapróf og urðu flokkar háskólaborgara. Krafa háskólaborgara um aukið launamisrétti fær hljómgrunn hjá vinstriflokkunum.

Egill Helgason kallar það hægriöfga þegar alþýða manna verður fráhverf gömlu vinstriflokkunum og kýs hægriflokka, líkt og gerðist í nýliðnum kosningum í Danmörku. Sigurvegari kosninganna þar er Þjóðarflokkurinn sem er gagnrýninn á Evrópusambandið og flóttamannastrauminn til Danmerkur.

Fráhvarf alþýðunnar frá vinstriflokkunum er vegna þess að háskólaelítan sem stjórnar þeim er ekki í takt við almenning. Háskólaelítan óskar sér inngöngu í ESB til að auka starfsmöguleika sína og er tilbúin að fórna til ríkum almannahagsmunum, s.s. fiskveiðiauðlindinni.

Alþýða manna gefur lítið fyrir draumóra um Stór-Evrópu háskólaliðsins og kýs hægriflokka með þjóðlegar rætur.


ESB milli Grexit og Brexit

Grikkland gæti verið þvingað úr Evrópusambandinu eftir gjaldþrot, það er kallað Grexit. Bretland gæti kosið að yfirgefa sambandið - Brexit.

Bretar vilja ekki taka þátt í samrunaferli ESB í átt að sambandsríki Evrópu. Bretar sjá fyrir sér viðskiptabandalag en ekki ríkjabandalag.

Til að ná tökum á aðildarríkum eins og Grikklandi, sem hlaða upp skuldum og krefjast þess að ríkir nágrannar borgi, verður ESB að fá auknar valdheimildir til að hlutast til um innanríkismál aðildarríkja.

ESB mun freista þess að auka miðstýringuna en ekki koma til móts við Breta. Aðstæður í kjölfar Grexit gætu þó knúið Brussel til að endurskoða samrunaþróun ESB.


mbl.is Miklar breytingar nauðsynlegar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Menntun og krafa vinstrimanna um ójöfnuð

Nær alla síðustu öld var menntun baráttumál jafnréttissinna. Bæði sígild jafnaðarstefna og kynjajafnrétti báru fram þá kröfu að menntun ætti að standa öllum til boða, án tillits til efna eða kynferðis.

Krafan um menntun fyrir alla náði fram að ganga. Nú ber svo við að jafnaðarmenn, t.d. Samfylkingarfólk, krefst þess að menntun verði ,,metin til launa", eins og það heitir. Krafan felur í sér að starfsstéttir langskólafólks fái hærra kaup en þær stéttir sem mannaðar eru fólki með grunnskólapróf.

Krafan um ójöfnuð birtist í hiki forystu Samfylkingar að lýsa stuðningi við 300 þús. kr. lágmárkslaun. Sígildir jafnaðarmenn sneru sér við í gröfum sínum, heyrðu þeir þau ósköp að jafnaðarmannaflokkur íslands styðji ekki lengur launajafnrétti.

Háskólafólk er ráðandi í vinstriflokkunum. Af því leiðir fær ójafnaðarkrafan um hærri laun handa háskólafólki hljómgrunn í Samfylkingu og Vg.

 


mbl.is Menntun hefur minnstu áhrifin á Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hatursfáni og sjálfstæðisfáni

Fáni Suðurríkjanna er mörgum tákn sjálfstæðis gagnvart alríkisstjórninni í Washington. Öðrum er hann réttlæting á þrælahaldi sem viðgekkst í Bandaríkjunum fram að borgarastríðinu rétt eftir miðja 19. öld.

Bandaríkin voru framan af laustengt bandalag nýlendna Breta sem kröfðust sjálfstæðis undir lok 18. aldar. Sjálfstæði ríkjanna er mörgum hjartans mál enn þann dag í dag. Eftir sigur á Bretum fengu sumir þrælar frelsi sakir herþjónustu í þágu málstaðarins. Sú dýrð varði ekki lengi.

Efnahagskerfi Suðurríkjanna byggði á þrælum sem týndu baðmull sem varð að vefnaðarvöru í Norðurríkjunum og Evrópu.

Norðurríkin snerust gegn þrælahaldi og þar með hófst borgarastríðið sem er mannskæðasta stríð Bandaríkjanna, fyrri og seinni heimsstyrjöld meðtaldar.

Eftir sigur Norðurríkjanna biðu þrælarnir í hundrað ár eftir borgararéttindum. Martin Lúther King og mannréttindabaráttan á sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar batt endi á hugmyndina um ,,aðskilnað og jafnrétti" sem var orðaleikur um ójafnrétti en var hluti lagavenju fram yfir miðja nýliðna öld.

Deilan um fána Suðurríkjanna kennir að sagan er lifandi veruleiki, jafnvel í sögulausu landi eins og Bandaríkjunum.

 


mbl.is „Takið fánann niður“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ísland semur - hrunárin kvödd

Allt stefnir i að nær öll stéttafélög landsins séu komin með langtímasamninga, þá fyrstu frá hruninu 2008. Líkur eru á því að kjarabætur samninganna, sem liggja í nágrenni við 25 prósent, keyri ekki upp verðbólgu, þótt eitthvað muni hún hreyfa sig úr 1-2% síðustu missera.

Með langtímasamningum er lagður grunnur að stöðugleika og sjálfbærum hagvexti.

Aðilar vinnumarkaðarins eiga hrós skilið fyrir að sýna ábyrgð í kjarasamningum. Ríkisstjórnin kemur vel frá þessari lotu, hún sýndi staðfestu þegar á þurfti og sendi skýr skilaboð að verðbólgusamningar voru ekki í boði.


mbl.is Vonast til að semja í dag eða á morgun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband