Á Egill Helga nægar evrur?

Evran hrynur í beinni útsendingu í Grikklandi og þar er staddur Egill Helgason álitsgjafi og evruvinur til margra ára. Alvöru fréttamenn á vettvangi lýsa aðstæðum í Grikklandi og velta fyrir sér framtíð lögeyris Evrópusambandsins.

Evruvinurinn Egill er ekkert að spá í biðraðirnar við tóma hraðbanka í Grikklandi. Í dag bloggar hann um flugvöllinn í Vatnsmýri og siðblindan bankamann sem gæti fundið lausn á evruvandanum í Grikklandi. Egill segir siðblindingjann ,,feykilega" snjallan hagfræðing sem kann fínar lausnir á öllu öðru en einkalífinu.

Líklega er Egill Helgason vel birgur af evrum og þarf ekki að standa í biðröð eftir þeim eins og grískur almenningur.


mbl.is Gjaldeyrishöft í Grikklandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Steingrímur J. vildi já, Tsipras nei

Samanburður á afstöðu ríkisstjórnar Jóhönnu Sig. til Icesave-þjóðaratkvæðagreiðslunnar annars vegar og hins vegar ríkisstjórnar Grikklands til skilamála lánadrottna er virði eins bloggs.

Í fyrsta lagi var ríkisstjórn Jóhönnu Sig. knúin til þjóðaratkvæðagreiðslunnar af almenningi og forseta lýðveldisins. Í Grikklandi er það forsætisráðherrann sjálfur, Alexi Tsipras, sem boðar til þjóðaratkvæðis.

Í öðru lagi vildi Steingrímur J. fá já frá íslensku þjóðinni til að þóknast erlendum kröfuhöfum. Tsipras vill fá nei frá grísku þjóðinni. Og einmitt þessi afstaða fór verulega illa í ráðandi öfl í Þýskalandi. Stjórnmálaskýrandi FAZ segir Tsipras snúa Grikkjum ,,gegn Evrópu" með þessari afstöðu. Utanríkisráðherra Þýskalands segir Tsipras taka Grikki í ,,gíslingu" og það eru sterk orð frá þýskum ráðherra.

Munurinn á Steingrími J. og Alexi Tsipras er þá þessi: Steingrímur J. vildi að íslenska þjóðin kiknaði undan kröfum ríkisstjórnarinnar og erlendra kröfuhafa og segði já við Icesave. Tsipras vill að erlendir lánadrottnar beygi sig fyrir lýðræðislegum vilja grísku þjóðarinnar að taka ekki á sig frekari niðurskurð.

Steingrímur J. vildi já en fékk nei. Kjósendur refsuðu honum og Vg fyrir, Steingrímur missti formennskuna og flokkurinn helminginn af fylginu.

Tsipras vill nei en gæti fengið já enda þorir gríska þjóðin ekki að standa á eigin fótum eftir að hafa í áravís verið á framfæri Evrópusambandsins.

Og er þá ekki augljóst hvor sé meiri heybrók, Steingrímur J. eða Tsipras?


mbl.is Merkel „heldur á lyklinum“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Björt framtíð eyðileggur Samfylkingu, en átti að bjarga vinstripólitík

Björt framtíð var stofnuð með stuðningi forystumanna Samfylkingar, t.d. Össurar Skarphéðinssonar. Björt framtíð skyldi þjóna Samfylkingunni á tvennan hátt. Í fyrsta lagi að breikka stuðninginn við ESB-umsókn Samfylkingar.

Andstæðingum ESB-aðildar tókst að einangra Samfylkinguna í umræðunni. Össur utanríkisráðherra átti erfitt með að útskýra fyrir ráðamönnum í Brussel hvers vegna aðeins einn stjórnmálaflokkur á Íslandi væri fylgjandi umsókninni. Björt framtíð skyldi tvöfalda þá flokka sem studdu ESB-leiðangurinn.

Í öðru lagi átti Björt framtíð að taka við óánægjufylgi frá Samfylkingu - til að það færi ekki á Vg, Hreyfinguna eða annað.

Þegar þingmaður Samfylkingar, Róbert Marshall, gekk til liðs við Bjarta framtíð gaf hann út yfirlýsingu sem smellpassaði málstað Samfylkingar. Í yfirlýsingunni segist Róbert hlynntur ESB-umsókninni og ennfremur að hann ætli að styðja ríkisstjórn Samfylkingar og Vg.

Vinstrimenn eins og Össur Skarphéðinsson töldu sér trú um að með því að fjölga stjórnmálaflokkum á vinstri vængnum væri hægt að safna fylgi á ólíkum forsendum. Björt framtíð átti að höfða til ,,kósi fólksins" sem leiddist harkan í pólitíkinni.

Plan Össurara og félaga gerði ekki ráð fyrir að flokkur eins og Píratar kæmi á sjónarsviðið. Píratar reru á þau mið að Samfylkingin, Björt framtíð og alli hinir væru klækjastjórnmál uppmáluð.

Árni Páll, sem er formaður Samfylkingar með einu atkvæði, þorir ekki að brydda á þeirri hugsun að tímabært sér að sameina vinstriflokkana. Hann veit sem er að Katrín Jakobsdóttir yrði fyrsti kostur til formanns. Árni Páll getur ekki snúið við blaðinu þótt við blasi að taktíkin ,,margir flokkar, mörg atkvæði" sé algerlega misheppnuð.

Björt framtíð reyndist vinstrimönnum ekki sá happafengur að var stefnt. Þvert á móti. Í kosningum til sveitastjórna sveik Björt framtíð vinstrimennskuna og gekk til liðs við Sjálfstæðisflokkinn í tveim stórum bæjarfélögum, Kópavogi og Hafnarfirði.

Í stað þess að styrkja Samfylkinguna er Björt framtíð fleinn í flokksholdinu og tappar fylgi og lífsþrótti úr móðurflokknum. Klækjastjórnmál skila aldrei öðrum árangri en eymd og volæði.

 


mbl.is Hætti að tala sem „gamaldags flokkur“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stöð 2 endursýnir sjálfa sig í samkeppni við RÚV

Áskriftarsjónvarp eins og Stöð 2 er deyjandi fyrirbrigði. Fólk kaupir ekki lengur að dagskrárstjórar ákveði hvað er sýnt hverju sinni þegar valkosturinn er að vera sinn eigin dagskrárstjóri í gegnum netsjónvarp.

Skylduáskriftarflykki eins og RÚV eru undir sömu sökina seld.

Það er við hæfi að Stöð 2 endursýni sjálfa sig í samkeppni við gamalt efni frá RÚV.


mbl.is „Forrest Gump í þúsundasta skipti“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 28. júní 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband