Bankaáhlaup í evrulandi - Grikkir velja gjaldþrot

Bankaáhlaup í einu af 19 þjóðríkjum sem nota evru fyrir lögeyri á ekki að geta gerst. Samkvæmt ESB er sameiginlegum gjaldmiðli tæplega 340 milljóna Evrópumanna stýrt í þágu sameiginlegra hagsmuna.

Og hvers vegna eru Grikkir ekki hluti af sameiginlegum hagsmunum evru-ríkjanna 19? Jú, Grikkir lentu í fjármálakreppu, fengu lán en stóðu ekki við skilyrði lánadrottna. Eftir margra mánaða samningaþóf datt grísku ríkisstjórninni það ,,snjallræði" í hug að setja skilyrði lánadrottna í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Þjóðin svaraði með áhlaupi á bankanna. Grískur almenningur áttaði sig strax á því að ríkisstjórnin í Aþenu er búin að gefast upp.

Á mánudag vakna hin evrulöndin 18 upp við þann vonda draum að bankaáhlaupið í Grikklandi gæti endurtekið sig í öðru evru-ríki.

Evran er búin að tapa tiltrú.

 


mbl.is Bankaáhlaup í Grikklandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sigurður Einarsson hafnar réttarríkinu

Sigurður Einarsson fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings er iðinn við kolann að gera réttarríkið tortryggilegt. Sigurður fær reglulega tækifæri að sýna iðrun vegna sannaðra og dæmdra brota.

Í stað þess að játa og viðurkenna misgjörðir er Sigurður einbeittur í þeirri málsvörn að segjast saklaus þótt dómstóll dæmi sekt. Sigurður telur sig hafinn yfir réttarríkið.

Hugarfar Sigurðar veitir innsýn í heim íslensku auðmannanna frá tímum útrásar. Og minnir okkur á að trúa þeim aldrei fyrir einu eða neinu. Upp til hópa eru þetta menn sem sagt hafa sig úr lögum við samfélagið. Slíkir menn eru hættulegir.


mbl.is Segir niðurstöðuna vonbrigði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Karlar aðeins með 30% stúdentsprófa - kvenvæðing samfélagins

Ef fyrsta gráða í háskóla, BA/BS, er hið nýja stúdentspróf þá eru konur þar í miklum meirihluta. Samkvæmt fréttaskýringu í Sunnudagsmogga útskrifar Háskóli Íslands 2.615 manns fyrri hluta árs og eru konur 68% en karlar aðeins 32%.

Þar sem HÍ útskrifar fólk með BA/BS sem og meistara- og doktorsnema, þar sem konur eru enn sterkari en karlar, má gera ráð fyrir hlutfall karla með grunngráðuna sá 30% eða minna.

Að baki tölum um yfirtöku kvenna á háskólum glittir í stærri þjóðfélagsbreytingar en flesta grunar. Hatrömm kjaradeila BHM við ríkið, þar sem krafist er að menntun (kvenna) skili hærri tekjum en það sem ómenntaðir (karlar) fá í kaup, er aðeins ein birtingarmynd þjóðfélagsbreytinganna.

Menntun og mannaforráð haldast í hendur. Fari sem horfir verða konur ráðandi í samfélaginu á líkan hátt og karla réðu um miðja síðustu öld. Kvenvæðing samfélagins gæti einnig birst í gengisfellingu menntunar. Kennarastarfið var t.d. gengisfellt samhliða kvenvæðingu þess.

Kvenvæðing þjóðfélagsumræðunnar er þegar hafin. Allir fimm heimildarmenn í fréttaskýringu Sunnudagsmogga um hrakfarir karla í skólum eru konur. Skilaboðin voru þessi: karlar vita ekkert hvað amar að karlkyninu, konurnar vita það miklu betur. Fáir ef nokkrir munu fetta fingur út í þetta kynjaða val á heimildamönnum. Ef hlutunum væri snúið við, fimm karlar fengnir til að greina þjóðfélgasstöðu kvenna, myndi ábyggilega heyrast hljóð úr horni.


mbl.is Háskólamenntun líkist stúdentsprófi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tsipras gefst upp á pólitík - lýðræði sem versti kosturinn

Tsipras forsætisráðherra Grikkja fékk kosningu í janúar út á loforð um að binda endi á sparnaðarkröfur ESB annars vegar og hins vegar að halda Grikkjum innan evru-samstarfsins og í ESB.

Tsipras gat aldrei fengið hvorttveggja; lánum fylgja skilyrði og neyðarlánum fylgja neyðarskilyrði. Eina leiðin til að komast hjá skilyrðum lánadrottna er að lýsa gríska ríkið gjaldþrota og taka upp nýjan gjaldmiðil í stað evru og það fæli í sér útgöngu úr ESB.

Í stað þess að velja skárri kostinn af þeim slæmum vísar Tispras málinu til þjóðaratkvæðagreiðslu eftir viku.

Það heitir að gefast upp á pólitík.

Með þjóðaratkvæðagreiðslunni gerist annað tveggja:

a. Grikkir samþykkja skilmála lánadrottna til að halda í evruna og ESB-aðild. Í framhaldi geta lánadrottnar gert en harðari kröfur á hendur Grikkjum enda komnir með lýðræðislegt lögmæti fyrir málstað sinn. Gríska ríkisstjórnin yrði í reynd umboðsstjórn Brussel.

b. Grikkir höfnuðu skilmálum lánadrottna og kysu sig út úr evru-samstarfi og ESB. Ríkisstjórnin yrði að bregðast við niðurstöðunni án þess að vera með pólitíska stefnumótun um framtíð peninga- og efnahagsmála landsins. Ríkisstjórnin væri rúin trausti bæði heima og erlendis, einmitt vegna þess að hún gafst upp á ögurstundu, sagði pass og vísaði málinu til almenna atkvæðagreiðslu með sama og engum fyrirvara.

Það mun koma í hlut Grikkja, þar sem lýðræðið varð til í fyrstu útgáfu, að sýna fram á að stundum er lýðræði versti kosturinn.


mbl.is Tsipras boðar til þjóðaratkvæðagreiðslu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 27. júní 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband