Hatursfáni og sjálfstæðisfáni

Fáni Suðurríkjanna er mörgum tákn sjálfstæðis gagnvart alríkisstjórninni í Washington. Öðrum er hann réttlæting á þrælahaldi sem viðgekkst í Bandaríkjunum fram að borgarastríðinu rétt eftir miðja 19. öld.

Bandaríkin voru framan af laustengt bandalag nýlendna Breta sem kröfðust sjálfstæðis undir lok 18. aldar. Sjálfstæði ríkjanna er mörgum hjartans mál enn þann dag í dag. Eftir sigur á Bretum fengu sumir þrælar frelsi sakir herþjónustu í þágu málstaðarins. Sú dýrð varði ekki lengi.

Efnahagskerfi Suðurríkjanna byggði á þrælum sem týndu baðmull sem varð að vefnaðarvöru í Norðurríkjunum og Evrópu.

Norðurríkin snerust gegn þrælahaldi og þar með hófst borgarastríðið sem er mannskæðasta stríð Bandaríkjanna, fyrri og seinni heimsstyrjöld meðtaldar.

Eftir sigur Norðurríkjanna biðu þrælarnir í hundrað ár eftir borgararéttindum. Martin Lúther King og mannréttindabaráttan á sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar batt endi á hugmyndina um ,,aðskilnað og jafnrétti" sem var orðaleikur um ójafnrétti en var hluti lagavenju fram yfir miðja nýliðna öld.

Deilan um fána Suðurríkjanna kennir að sagan er lifandi veruleiki, jafnvel í sögulausu landi eins og Bandaríkjunum.

 


mbl.is „Takið fánann niður“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ísland semur - hrunárin kvödd

Allt stefnir i að nær öll stéttafélög landsins séu komin með langtímasamninga, þá fyrstu frá hruninu 2008. Líkur eru á því að kjarabætur samninganna, sem liggja í nágrenni við 25 prósent, keyri ekki upp verðbólgu, þótt eitthvað muni hún hreyfa sig úr 1-2% síðustu missera.

Með langtímasamningum er lagður grunnur að stöðugleika og sjálfbærum hagvexti.

Aðilar vinnumarkaðarins eiga hrós skilið fyrir að sýna ábyrgð í kjarasamningum. Ríkisstjórnin kemur vel frá þessari lotu, hún sýndi staðfestu þegar á þurfti og sendi skýr skilaboð að verðbólgusamningar voru ekki í boði.


mbl.is Vonast til að semja í dag eða á morgun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Grikkland er í fátæktargildru evrunnar

Með evru eru Grikkir fastir í ósjálfbærum skuldum og gengisskráningu sem viðheldur atvinnuleysi upp á 25 prósent, þar sem annar hver undir þrítugu er án vinnu. Gengi evrunnar er ákveðið í Brussel, Frankfurt, París og Berlín og Grikkjum finnst sjálfsagt að aðrar þjóðir ali önn fyrir þeim.

Lífeyrissjóðakerfið í Grikklandi er það dýrasta í Evrópu, og sennilega öllum heiminum, tekur til sín heil 16,2 prósent af þjóðarframleiðslu. Grikkir geta byrjað lífeyristöku 58 ára gamlir sem er með því yngsta í ESB-ríkjum.

Ríku ESB-ríkin í norðri eru ekki tilbúin að niðurgreiða lífeyrisgreiðslur til Grikkja og krefjast þess að þær verði lækkaðar.

Grikkir líta svo á að krafa ESB-ríkja sé íhlutun í grísk innanríkismál. Í Evrópusambandinu, sérstaklega í evru-samstarfinu, eru einstök þjóðríki óðum að fá stöðu héraðsstjórna í sambandsríki Evrópu.

Val Grikkja stendur á milli þess að vera fátækir, atvinnulausir og ósjálfbjarga í evru-samstarfi eða rífa af sér hlekkina og verða þjóð meðal þjóða á ný.


mbl.is Bankarnir eru akkilesarhæll Grikkja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 21. júní 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband