Trump, Brexit og nú Ítalía

Á vesturlöndum geisar menningarstríð milli fjölmenningar annars vegar og hins vegar samfélagslýðræðis. Fjölmenningin boðar opin landamæri, frjáls alþjóðaviðskipti og menningarlega útþynningu. Samfélagslýðræði stendur fyrir þjóðmenningu og pólitíska ábyrgð stjórnvalda á velferð borgaranna.

Evrópusambandið er háborg fjölmenningarsinna. Í Brussel þótti forsetakjör Trump slæmt, Brexit verra en velgengni lýðsinna á Ítalíu er sýnu verst, skrifar Guardian. Ítalía er eitt sex stofnríkja Evrópusambandsins og þriðja stærsta efnahagskerfið í sambandinu.

Ítalíu er ekki hægt að setja út í horn eins og Austurríki, með kanslara sem vil hefta innflytjendastrauminn, eða höfða mál gegn, eins og Póllandi, sem ekki fylgir stefnu ESB í viðtöku flóttamanna.

Menningarstríðið í Evrópu lamar frjálslynda vinstriflokka, systurflokka Samfylkingar, skrifar William Hauge, fyrrum leiðtogi Íhaldsflokksins. Enda er fjölmenning ær og kýr frjálslyndra vinstrimanna.

 

 

 


mbl.is Renzi segir af sér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stjórnarandstaðan snýr trausti upp í vantraust

Umboðsmaður alþingis sér ekki ástæðu til rannsóknar á embættisfærslu dómsmálaráðherra við skipun dómara í landsrétt. Stjórnarandstaðan beinlíns bað umboðsmann að kanna málið.

Niðurstaða umboðsmanns var að rannsóknar væri þörf á vinnu hæfisnefndar en stjórnarandstaðan notar vinnu hæfisnefndar sem helstu rök í gagnrýni sinni á dómsmálaráðherra.

Sem sagt: umboðsmaður lýsir trausti á dómsmálaráðherra en vantrausti á málatilbúnað stjórnarandstöðunnar. Hvað gerir stjórnarandstaðan? Jú, hún boðar vantraust á dómsmálaráðherra.

Þetta er svo sorglegur málflutningur að hann er ekki einu sinni fyndinn. Er eintómt rusl í heilabúi stjórnarandstöðuþingmanna?


mbl.is Ræða van­traust­s­til­lögu á dómsmálaráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Umboðsmaður fellst á málflutning Sigríðar

Dómsmálaráðherra, Sigríður Á. Andersen, stendur með pálmann í höndunum eftir niðurstöðu umboðsmanns alþingis sem stjórnarandstaðan vildi að tæki veitingu dómaraembætta í landsrétti til rannsóknar.

Rannsókn umboðsmanns mun þvert á móti beinast að skringilegu mati hæfisnefnda á umsækjendum og meta hvort það standist góða stjórnsýsluhætti. Stjórnarandstaðan, Píratar og Samfylking sérstaklega, töldu mat hæfisnefnda ófrávíkjanlegt. Umboðsmaður er á annarri skoðun, telur rannsókn þurfa að skera úr um það.

Píratar og Samfylking eru með allt niðrum sig í málinu. Málgagn þeirra, RÚV, reynir þó að finna málsbætur, með því að gera aukaatriði að aðalatriði.


mbl.is Ekki ástæða fyrir frumkvæðisrannsókn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þorskastríð, landafræði og fullveldi

Landafræði skilgreinir þjóðríki að stórum hluta. Samskipti Bretlandseyja við meginland Evrópu markast af Ermasundinu sem í þúsund ár var farartálmi spænskra, franskra og þýskra stórvelda er vildu leggja undir sig eyríkið. Finnland er nánast landfræðileg hjálenda Rússlands og stjórnmál landsins markast af því.

Sama gildir um Ísland og þorskastríðin. Þau voru háð í kalda stríðinu eftir seinni heimsstyrjöld, þar sem öllum var ljóst að frá Íslandi var hægt að stjórna skipaumferð yfir Norður-Atlandshaf.

Ísland gat sett fram kröfur um að stjórna auðlindum landgrunnsins. Við þurftum ekki að vera í Nató til að sigra þorskastríðin, þótt það hafi hjálpað til. Fyrst og fremst þurftum við fullveldi, því að skaginn sem gengur út frá Þýskalandi, og kallast Danmörk, myndi ekki hafa rænu á að styðja kröfur Íslendinga ef þær fór í bága við hagsmuni Bretaveldis.

 


mbl.is Þorskastríðin merkilegri en margir vilja vera láta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ESB verði nýtt Rómarveldi, boðar Blair

Evrópusambandið er veikt vegna metnaðarleysis. ESB var stofnað til að halda friðinn í Evrópu, en það er of lítilmótlegt verkefni. Sambandið þarf að hverfast um völd, efla sig á kostnað nágranna sinna.

Á þessa leið er greining Tony Blair, fyrrum forsætisráðherra Breta. Næstu nágrannar ESB, sem einhverju máli skipta, eru Rússar í austri og múslímar í suðri. Nú þegar er ESB í staðgenglastríði við Rússa í Úkraínu og flóttamannastríð geisar á Miðjarðarhafi þar sem múslímar keppast við að senda sitt fólk inn í evrópska velferð, Evrópubúum til armæðu.

Söguleg valdapólitísk fyrirmynd ESB er Rómarveldi. Á lýðveldistíma sigruðu Rómverjar Karþagómenn í Norður-Afríku og urðu herrar Miðjarðarhafsins. Múslímaríkin eru Karþagó nútímans. Á austurlandamærum Rómar voru Germanir, sem aldrei tókst að knésetja. Germanir höfðu að lokum betur og lögðu undir sig vest-rómverska ríkið í lok fimmtu aldar. Rússar eru Germanir nútímans.

Margan skriffinn í Brussel dreymir eflaust um ESB-Róm. ESB verður samt alrei nýtt Rómarveldi. Hvorki er áhugi meðal almennings í Evrópu að valdefla Evrópusambandið né fyrir hendi frumforsendan sem gerði slíka samstöðu mögulega. Evrópa á enga latínu til að túlka sameiginlega hagsmuni. Án sameiginlegs tungumáls verður ekki til sameiginleg pólitík, nema kannski rétt á yfirborðinu.

Þegar öllu eru á botninn hvolft er Tony Blair einungis að biðja ESB að verða meira sexý fyrir Breta. Og það er enn langsóttara en að ESB verði nýtt Rómarveldi.


mbl.is Friður ekki málið í dag heldur völd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jóhanna: tímabundinn vandi vinstrimanna - í 88 ár

Íslenskir vinstrimenn klofnuðu í tvo flokka árið 1930 þegar kommúnistar klufu sig úr Alþýðuflokknum. Þetta var á meðan Stalín var við völd í Sovétríkjunum og áður en Hitler varð kanslari í Þýskalandi. Jóhanna Sigurðardóttir, fyrsti forsætisráðherra vinstristjórnar á lýðveldistíma, telur klofning vinstrimanna tímabundinn.

Alþýðuflokkurinn fékk að taka þátt í mótun velferðarríkisins í samvinnu við Sjálfstæðisflokkinn. Á meðan voru kommúnistar/sósíalistar, síðast alþýðubandalagsmenn, oftast í stjórnarandstöðu og héldu Alþýðuflokknum við efnið, einkum á sviði verkalýðsbaráttu og fyrir þjóðfrelsi og fullveldi.

Samfylkingin tók við af Alþýðuflokknum um aldamótin og gerði þau mistök að hætta alfarið verkalýðsbaráttu og gerast ESB-flokkur. Þar með skilgreindi Samfylkingin sig bæði frá Sjálfstæðisflokknum og Vinstri grænum, sem eru arftakar Alþýðubandalagsins.

Nú boða bæði Jóhanna og sitjandi formaður Samfylkingar, Logi Einarsson, að Samfylkingin eigi að færa sig til vinstri í pólitíska litrófinu. Ef flokkurinn fylgir þeirri línu er rökrétt að innan fárra ára muni Samfylkingin sækja um að verða sérstakt aðildarfélag Vinstri grænna.

Ef Logi flýtir sér gæti Samfylkingin orðið vinstri græn áður en tímabundinn vandi vinstrimanna fyllir 100 árin.


mbl.is Jóhanna: VG villtist tímabundið af leið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Logi: Vinstri grænir eru asnar

Logi Einarsson formaður Samfylkingar heldur áfram að gera það gott, hvort heldur innan og utan kjörklefans, í ræðustól alþingis eða úti á mörkinni.

Nú heitir það að Vinstri grænir séu asnar að taka þátt í ríkisstjórnarsamstarfi með Sjálfstæðisflokknum.

Málsnilli Loga verður seint ofmetin.


mbl.is Boðar baráttu um Ísland næstu árin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Alþjóðakerfi í upplausn

Örfá misseri eru síðan til stóð að gera víðtækan fríverslunarsamning milli Bandaríkjanna og Evrópusambandsins, TTIP. Nú er boðað viðskiptastríð. Samskipti Rússlands og Bandaríkjanna eru ekki verri síðan í kalda stríðinu, bandarískum lygum er það að þakka.

Í Úkraínu geisar borgarastríð, Bandaríkin og ESB eru þar í bandalagi gegn Rússum. Í miðausturlöndum stríðir Nató-þjóðin Tyrkland gegn Kúrdum, sem njóta stuðnings Bandaríkjanna, og fá líka aðstoð frá Sýrlandsstjórn sem Rússar halda á floti. Önnur ríki í heimshlutanum eru átakasvæði, s.s. Líbýa, Írak og Yemen.

Alþjóðakerfið, sem varð til eftir lok seinna stríðs, er í upplausn. Fyrirsjáalega er langur tími þangað til það nær jafnvægi á ný. Spennið beltin.


mbl.is „Tollastríð eru góð“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heimssýn vísar veginn: íslenskt-norskt samstarf

Haraldur Ólafsson prófessor er nýkjörinn formaður Heimssýnar. Gestur á aðalfundinum var formaður Nei til EU í Noregi, Kathrine Kleveland, sem gerði grein fyrir stöðu mála þar í landi gagnvart Evrópusambandinu og EES-samningnum, sem bæði Ísland og Noregur eiga aðild að.

Á aðalfundi Heimssýnar var ályktað um EES-samninginn. Þar segir m.a.

Ljóst er að samstarfið hefur að nokkru leyti þróast á annan veg en margir hugðu í upphafi og sumar  afleiðingar samningsins hafa verið ófyrirséðar. Bretar hafa ákveðið að ganga úr Evrópusambandinu og þar með EES og nýlegir alþjóðsamningar gefa vísbendingar um nýja kosti í alþjóðaviðskiptum. Í ljósi ofanritaðs leggur aðalfundur Heimssýnar til að gagnrýnin skoðun fari fram á aðild Íslands að evrópska efnahagssvæðinu.

Noregur og Ísland standa frammi fyrir nýjum pólitískum veruleika eftir brotthvarf Breta úr Evrópusambandinu. Tímabært er að skipulegt endurmat á EES-samningnum fari fram enda liggur fyrir að Bretar munu ekki ganga inn í EES-samninginn heldur finna aðra lausn á samskiptum sínum við ESB. Nýlega gerðu Kanada og ESB með sér fríverslunarsamning sem gæti orðið fyrirmynd fyrir Ísland og Noreg.

Heimssýnarfundurinn með Kleveland fór fram á norrænu, sem sýnir að Heimssýn er félagsskapur samnorrænna alþjóðasinna er kjósa fullveldi fram yfir yfirþjóðlegt vald.


mbl.is Hafa stundum farið aðrar leiðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dauðamál Samfylkingar, bjargvættur Vinstri grænna

ESB-umsóknin gekk nærri af Samfylkingunni dauðri. ESB-umsóknin er meginástæðan fyrir því að Vinstri grænir eru í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokki en Samfylkingin er út í móa.

Hvenær gerir Samfylkingin upp ESB-mistökin?

Ekki undir forystu Loga Einarssonar.


mbl.is Flokkurinn endurheimti fyrri stöðu sína
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband