ESB þolir ekki lýðræði

Evrópusambandi þolir ekki lýðræði í tvennum skilningi. Í fyrsta lagi þolir sambandið ekki að lýðræðislegur vilji einstakra þjóða innan þess nái fram að ganga, ef sá vilji stendur gegn hagsmunum ESB. Dæmi: Katalónía, Brexit og Írland (sem hafnaði Lissabon-sáttmálanum en var knúið til að kjósa aftur).

Í öðru lagi þolir ESB ekki lýðræði vegna þess að sambandið uppfyllir ekki eina af frumforsendum lýðræðisins, sem er að iðkendur lýðræðisins tali sama tungumál.

Þess vegna er ESB fyrst og fremst embættismannaveldi.


mbl.is Frakkar færu líklega úr ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tyrkland eða Kúrdistan

Innrás Tyrkja í Sýrland er til að koma í veg fyrir að nýtt ríki Kúrda, Kúrdistan, verði myndað á suðurlandamærum Tyrklands. Kúrdar eru taldir um 30 til 35 milljónir, dreifðir um Tyrkland, Sýrland, Írak, Íran og Armeníu.

Að nafninu til eru Tyrkir bandamenn Bandaríkjanna, enda Nató-þjóð. En Bandaríkin hafa stutt hersveitir Kúrda til að ryðja úr vegi sveitum Ríkis íslam sem gerðu tilraun til að stofna íslamskt trúarríki í Sýrlandi og Írak.

Í seinni tíð halla Tyrkir sér að Rússum, sem eru bakhjarlar Assad Sýrlandsforseta. Tyrkjum er í mun að kæfa Kúrdistan í fæðingu. Ef það tekst eykst áhrifavald þeirra fyrir botni Miðjarðarhafs. En Erdogan Tyrklandsforseti nær ekki markmiði sínu nema með a.m.k. vinsamlegu hlutleysi annarra tveggja stórveldanna, Bandaríkjanna eða Rússlands.


mbl.is Hersveitir Tyrkja ráðast inn í Sýrland
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Benedikt og biðsalur dauðans

Einn helsti talsmaður ESB-sinna á Íslandi, stofnandi og fráfarandi formaður Viðreisnar, Benedikt Jóhannesson, viðurkennir að EES-samningurinn sé biðsalur dauðans. Benedikt skrifar í blað Davíðs Oddssonar og endurbirtir á heimasíðu sinni:

EES var í upphafi hugsað sem biðstofa fyrir fulla aðild að Evrópusambandinu,

ESB-sinnar neita þráfaldlega fyrir það að EES-samningurinn sé biðsalur. Þeir sem þekkja verklag ESB vita að samningurinn er í reynd tímabundinn. Annað tveggja ganga þjóðir fyrir björg, afsala sér fullveldinu og taka áhættuna af grískum harmleik, eða þær þakka fyrir sig og segja upp EES-samningnum.

Hrakfallabálkar vinna oft þurftarverk í óförum sínum. Takk, Benedikt.


Oflækningar eru menningarsjúkdómur

Lyf drepa fólk, ef rangt er með þau farið. Lyf eru breiðvirkt svar við ríkjandi menningarsjúkdómi sem mælir fyrir um líf án sársauka eða þjáninga.

Lyf eiga ekki aðeins að koma í veg fyrir sársauka heldur bæta andlega líðan okkar, jafn fáránlega og það hljómar.

Oflækningar leiða til þess að fólk lítur til lækna og lyfja sem ábyrgðaraðila fyrir eigin heilsu. Fólk í hrönnum framselur óviðkomandi ábyrgð á eigin lífi.

Nú hefur menningarsjúkdómnum oflækningum verið sagt stríð á hendur. Þá þarf að finna óvin til að berjast við. Óvinurinn þarf helst að vera af holdi og blóði enda erfitt að hatast út í sjúkdóm. Sackler-fjölskyldan býður bæði upp á nafn og auðæfi til að hatast út í.

 


mbl.is Hagnast á kvölum annarra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjálfstæðiskonur stjórna Seltjarnarnesi

Fimm af sjö efstu í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins á Seltjarnarnesi eru konur. Rúmlega 700 greiddu atkvæði en flokkurinn fékk rúmlega 1100 atkvæði í síðustu sveitarstjórnarkosningum.

Á Seltjarnarnesi kýs fólk það sem virkar. Sjálfstæðisflokkurinn virkar svo langt aftur í tímann sem elstu menn muna. Þess vegna er prófkjör flokksins forkosning meirihluta.

Undir handleiðslu Ásgerðar Halldórsdóttur skorar Nesið hvað hæst bæjarfélaga í mælingu á ánægju íbúa með þjónustuna sem þeir fá. Kyn Ásgerðar skiptir þar engu máli. Þess vegna er fyrirsögnin á þessari færslu út í hött, aðeins sett þar til að minna á að konur eiga ekki erfitt uppdráttar í Sjálfstæðisflokknum.


mbl.is Ásgerður skipar fyrsta sætið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvers vegna þola frjálslyndir ekki framfarir?

Þrátt fyrir aukna almenna hagsæld, lengri meðalævi, minni fátækt, færri stríð og bætt umhverfi er þorri frjálslyndra þeirrar skoðunar að heimur versnandi fer.

Sálfræðingurinn Steven Pinker ræðir andstyggð frjálslyndra á framförum.

Að hluta til útskýrir Pinker andstyggðina út frá sálfræði en meginástæðuna rekur hann til fjölmiðla þar sem er fyrir á fleti hátt hlutfall vinstrimanna/frjálslyndra.


Lýðræði, stjórnarskrá og stöðugleiki

Megineinkenni lýðræðis er að kjósendur geti í frjálsum kosningum skipt út stjórnvöldum, þ.e. löggjafa- og framkvæmdavaldi. Eftir hrun skiptu kjósendur út stjórnvöldum vorið 2009, fyrsta vinstristjórn lýðveldisins leit dagsins ljós.

Eftir 4 ár með vinstristjórn fannst kjósendum kominn tími til hægristjórnar. Stjórn Sigmundar Davíðs fékk ekki að ljúka kjörtímabilinu og í hönd fóru tvennar kosningar sem kenna má við stjórnarkreppu. Niðurstaðan varð nýmæli, samstjórn Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknar.

Í eftirhruninu reyndi á stjórnarskrána, sem er ramminn fyrir lýðræði okkar. Bæði í þingkosningunum, sem raktar eru að ofan, og enn frekar í þjóðaratkvæðagreiðslum um Icesave-skuldbindingar.

Stjórnarskráin stóðst prófið. Hún hélt sem umgjörð, tryggði að lýðræðislegur vilji þjóðarinnar næði fram að ganga í brýnum málum.

Maður á ekki að endurskoða það sem virkar. Nóg eru vandræðin samt.


mbl.is Leitar sátta í stjórnarskrármálum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Erfitt að telja krónur, hvað með sanngirni?

Ríkið, verkalýðshreyfingin og samtök atvinnurekenda komust að því á fundi að erfitt sé að telja launakrónur launþega. 

Launakrónurnar eru í meginatriðum fjórþættar. Í fyrsta lagi launataxti sem birtist í launatöflum. Sumir, t.d. kennarar, fá greitt skv. launataxta. Í öðru lagi markaðslaun, sem virka þannig á almenna launamarkaðnum að taxti er viðmið og svo fá menn laun ofan á taxtann eftir aðstæðum. Í þriðja lagi eru það heildarlaunin með yfirvinnu, sem stundum er unnin en stundum ekki. Í fjórða lagi ýmsar sporslur, t.d. fata- og ferðapeningar, sem undir hælinn er lagt hvort að séu raunkostnaður eða launauppbót.

Skiljanlega er erfitt að ná utan um allar launakrónurnar og fá þær í töflureikni til að gera samanburð milli starfshópa.

Önnur nálgun að samkomulagi á vinnumarkaði er að spyrja um sanngirni. Það má spyrja hvað er sanngjarnt að leikskólakennari fái í laun? Eða rútubílstjóri? Við myndum ekki geta svarað þessum spurningum nema með samanburði við aðra starfshópa. Til viðbótar yrði að hafa í huga að leikskólakennarar starfa ekki á samkeppnismarkaði. Ríki og sveitarfélög einoka menntun. Rútubílstjórar starfa aftur á samkeppnismarkaði, ferðaþjónustunni, og laun þeirra hljóta að taka mið af afkomu greinarinnar.

Þingfararkaupið er 1,1 milljón kr. á mánuði. Þingmennska er mikilvægt starf, um það hljóta allir að vera sammála, þótt ekki beri á því í pólitískri umræðu. Er hægt að nota þingfarakaup sem viðmið? Að aðrar stéttir, t.d. í opinbera geiranum, fái laun sem hlutfall af þingfarakaupi?

Það verður alltaf erfitt að telja launakrónur. Og það er snúið að meta hvaða laun eru sanngjörn. Hvorugur mælikvarðinn er algildur. En mörg úrlausnarefni bjóða einfaldlega ekki upp á fullkomin lausn.

 

 

 


mbl.is Eru sammála um nauðsyn betri launagagna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

CIA á bakvið bitcoin?

Rafmiðillinn bitcoin er sagður sköpunarverk bandarískra leyniþjónustustofnana. Tilgátan er birt í þýsku útgáfunni Die Welt en höfundur hennar er rússneskur sérfræðingur í tölvugeiranum.

Bitcoin er samkvæmt tilgátunni ætlað að koma í staðinn fyrir aðra gjaldmiðla. Bitcoin er eingöngu til sem rafmynt og býður ekki upp á viðskipti í reiðufé.

Kosturinn við rafmynt er að yfirvöld geta, a.m.k. fræðilega, stjórnað gengi myntarinnar. Á meðan gjaldmiðlar eru bæði til sem reiðufé og rafmyntir er illa hægt að miðstýra gengi þeirra og erfitt að fylgjast viðskiptum í reiðufé.

CIA eða ekki þá er bitcoin freisting fyrir ríkisstjórnir að fá vítæk völd á peningamarkaði. 


mbl.is Bitcoin í snörpum lækkunarfasa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svíþjóð: herinn gegn fjölmenningarstefnu

Svíþjóð gengur vestrænna þjóða hvað lengst í fjölmenningarstefnu. Afleiðingin er sívaxandi glæpatíðni þar sem æ fleiri segja sig frá sænska réttarríkinu, m.a. með þeim rökum fjölmenningar að sænsk lög séu ekki rétthærri en glæpsamlegir siðir og venjur menningarkima.

Svo illa er komið fyrir Svíum að forsætisráherra þeirra útilokar ekki að kalla herinn á vettvang til að halda uppi lögum og reglu í landinu.

Fjölmenningarstefna er skálkaskjól fyrir menningarkima sem rækta með sér andúð á vestrænu réttarríki. Í þessum menningarkimum er viðurkenndum gildum eins og jafnrétti og mannréttindum úthýst. Ólíkir menningarhópar fá svigrúm til að þróa með sér samfélagsgerð sem viðurkennir ekki forræði ríkisvaldsins að halda uppi lögum og reglu.

Hernum er beitt í vanþróuðum ríkjum sem síðasta úrræði, þegar lögmæti ríkisvaldsins er í húfi. Að forsætisráðherra Svía skuli svo mikið sem íhuga valdbeitingu hersins sýnir ófarir fjölmenningar betur en nokkuð annað.


mbl.is Sænski herinn gegn glæpagengjum?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband