CIA á bakvið bitcoin?

Rafmiðillinn bitcoin er sagður sköpunarverk bandarískra leyniþjónustustofnana. Tilgátan er birt í þýsku útgáfunni Die Welt en höfundur hennar er rússneskur sérfræðingur í tölvugeiranum.

Bitcoin er samkvæmt tilgátunni ætlað að koma í staðinn fyrir aðra gjaldmiðla. Bitcoin er eingöngu til sem rafmynt og býður ekki upp á viðskipti í reiðufé.

Kosturinn við rafmynt er að yfirvöld geta, a.m.k. fræðilega, stjórnað gengi myntarinnar. Á meðan gjaldmiðlar eru bæði til sem reiðufé og rafmyntir er illa hægt að miðstýra gengi þeirra og erfitt að fylgjast viðskiptum í reiðufé.

CIA eða ekki þá er bitcoin freisting fyrir ríkisstjórnir að fá vítæk völd á peningamarkaði. 


mbl.is Bitcoin í snörpum lækkunarfasa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Það er auðvitað heilmikil getraun hver skapaði "a bit"í viðskiptum,en Fréttablaðið segir frá nýjum leiðum fyrir almenning að versla með; Pei og Aur-app í síma eru kynntar sem góðir kostir,með slagorðinu "segðu bless við banka"!

Helga Kristjánsdóttir, 19.1.2018 kl. 16:31

2 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

"Bitcoin er eingöngu til sem rafmynt og býður ekki upp á viðskipti í reiðufé."

Þetta er rangt. Eitt stykki af Bitcoin er ekkert annað en stafa- og talnaruna þ.e. dulkóðunarlykill sem er jafnan vistaður á tölvutæku formi. Þó er ekkert því til fyrirstöðu að prenta dulkóðunarlykil út á pappír og varðveita hann á því formi, ekkert ósvipað og raðnúmerið sem er prentað á hvern einasta krónuseðil. Erlendis eru til aðilar sem sérhæfa sig í þessu, þeir kaupa Bitcoin á netinu sem stafakóða, steypa þann stafakóða innan í plastskífu sem minnir á spilapening, eyða rafræna afritinu og selja skífuna. Kaupandinn getur svo geymt skífuna þar til hann þarf að nota hana, en þá þarf hann að brjóta hana í sundur til að nálgast stafakóðann. Hann getur svo slegið kóðann inn í tölvuforrit til að eiga viðskipti með það eintak af Bitcoin sem samsvarar þeim tiltekna kóða.

Hér má sjá mynd af slíku eintaki af Bitcoin í "reiðufé":

https://denarium.com/wp-content/uploads/2016/07/Custom-Denarium-Bitcoin-Gold-Plated-1.jpg

(Þessi ákveðna týpa er meira að segja gullhúðuð!)

"Kosturinn við rafmynt er að yfirvöld geta, a.m.k. fræðilega, stjórnað gengi myntarinnar."

Þessi fullyrðing byggist á grundvallarmisskilningi á því hvernig Bitcoin og aðrar sambærilegar rafmyntir virka (ég nota Bitcoin hér sem dæmi því hún var sú fyrsta og er jafnframt best þekkta rafmyntin.)

Það er nákvæmlega ekkert við Bitcoin sem segir til um gengi hennar gagnvart öðrum gjaldmiðlum. Það sama á reyndar líka við um krónur, ef þú skoðar íslenskan peningaseðil vel og vandlega þá er hvergi prentað á hann hvaða gengi hann hefur eða eigi að hafa gagnvart öðrum gjaldmiðlum eða vörum, þjónustu og öðru sem gæti verið hægt að kaupa fyrir krónur.

Það sama má segja um hesta, á þá er ekki prentað neitt verð, hvorki í krónum Bitcoin eða öðrum gjaldmiðlum, heldur er það eitthvað sem seljandi og kaupandi ákveða sín á milli í einstökum viðskiptum. Ríkið getur ekki skipt sér af þeirri verðmyndun. Það gæti kannski gefið út viðmiðunarverð og jafnvel sett lög sem skylda alla til að selja hesta á "ríkisverðinu", en ríkið gæti aldrei framfylgt slíkum lögum nema með því að njósna um hver einustu hestakaup sem eiga sér stað. Þar sem slík viðskipti eru ekki skráningarskyld er það ómögulegt.

Þá gæti ríkið tekið upp á því að gera hestakaup skráningarskyld en að sama skapi gæti það samt ekki komið í veg fyrir að tveir menn úti í sveit skiptist á hestum og einhverjum öðrum verðmætum án þess að skrásetja þau viðskipti opinberlega. Það sama á við um Bitcoin, ríkið getur ekki njósnað um Bitcoin færslur né gert þær skráningarskyldar svo framfylgjanlegt sé, enda eru færslurnar nafnlausar, dulkóðaðar og órekjanlegar. Ekki er hægt að brjóta það öryggi án þess að brjóta sjálft kerfið og sá sem myndi gera það gæti því ekki haft af því neinn sérstakan ávinning.

"...er bitcoin freisting fyrir ríkisstjórnir að fá vítæk völd á peningamarkaði"

Reyndar er það einmitt öfugt. Bitcoin gerir það ómögulegt fyrir stjórnvöld að "fikta" í útgáfu gjaldmiðilsins, því allt slíkt fikt er ómögulegt án þess að brjóta kerfið og koma um leið upp um fiktið.

Það skal tekið fram að með þessum athugasemdum er ég ekki að halda því fram að Bitcoin sé góður eða slæmur gjaldmiðill eða hvort notkun hans sé æskileg eða ekki, heldur er ég einfaldlega að benda á tilteknar staðreyndar um hvað Bitcoin er og hvað það er ekki. Hvort slík mynt sé hentug til ákveðinna nota fer alfarið eftir því hvaða notkun það er í hverju tilviki. Rétt eins og hamar er ekki gagnlegur til sömu notkunar og sög heldur fer það eftir því hvort þú þarft að negla nagla eða saga spýtu í sundur.

Bitcoin tekur valdið yfir gjaldmiðlinum af ríkisstjórnum með því að tryggja að enginn aðili getur haft miðstýrt vald yfir gjaldmiðlinum.

Guðmundur Ásgeirsson, 20.1.2018 kl. 16:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband