Konungssmiður knésettur

Bannon var sagður höfundur að kosningasigri Donald Trump haustið 2016. Bannon þótti hugmyndafræðingurinn að baki Trump og honum var eignaður mestur heiðurinn að pólitíska bandalaginu sem fleytti Trump inn í Hvíta húsið.

Eftir fáeina mánuði í innsta valdakjarna forsetans varð Bannon að víkja og hélt á gamlar slóðir, til Breitbart-fjölmiðlaveitunnar, þar sem hann fyrrum gat sér orð.

Konungssmiðurinn Bannon tók því ekki þegjandi að vera settur út í kuldann og gerðist lausmáll við blaðamenn sem ekki voru forsetanum vinsamlegir en af þeim er nóg að taka.

Bókin Eldur og æði, um fyrstu misseri forsetaferils Trump, geymir nokkur gullkorn frá Bannon er gerðu bókina trúverðugri en ella.

Konungssmiðir sem komast í ónáð eiga um tvennt að velja. Að bera harm sinn í hljóði og njóta fyrri afreka eða hitt að leggja lag sitt við tilræðismenn konungdómsins. Fyrri leiðin er ávísun á virðulega friðsæld en sú seinni gefur von um uppreisn æru - en aðeins ef tilræðið heppnast.

Bannon er nokkur vorkunn. Hann mátaði gáfnafar sitt við Trump og taldi sig meira en jafnoka. En þótt gáfur nýtist til að komast til valda þarf aðra og frumstæðari eðlisþætti til að halda þeim. Þar standa gáfumennin höllum fæti. Konungssmiðurinn er kominn á vonarvöl.


mbl.is Bannon hættir hjá Breitbart
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

#metoo, einkalíf og refsingar

Innbyrðis samskipti fólks eru þeirra einkamál, svo fremi sem samskipti varða ekki við lög eða reglur á vinnustað eða skóla. Byltingin kennd við #metoo breytir viðurkenndum skilgreiningum á einkalífi.

Nú eru fyrri samskipti einstaklinga orðin opinbert mál ef þau varða óviðeigandi háttsemi þar sem kynferði skiptir máli. Það virðist nóg að annar aðilinn af tveim telji að háttsemi hafi verið óviðeigandi og eigi að hafa í för með sér refsingu fyrir meintan geranda.

Refsingarnar geta verið opinber smánun, atvinnumissir eða félagsleg útilokun, jafnvel allt þrennt.

,,Réttarhöldin" í þessum refsimálum fara fram á samfélagsmiðlum og í fjölmiðlum. Undir hælinn er lagt hvort sakborningur fái tækifæri til að bera hönd fyrir höfuð sér og útskýra sína hlið málsins. Ásökun um óviðeigandi háttsemi er oftast látin nægja sem staðfesting á sekt. Nær aldrei fer fram rannsókn á málsatvikum.

#metoo-byltingin byrjar sem frelsun en endar á galdrabáli. 

 


mbl.is Uppsögnin tengd #metoo-byltingunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dómarar án dómgreindar

Deilan um hverjir skipi dómaraembætti í landsrétti og héraðsdómi eykur ekki tiltrú almennings á dómskerfinu. Augljóst er, af orðum formanns dómnefndar um hæfni umsækjenda héraðsdómara, að deilan snýst ekki um aðalatriði.

Hvort settur dómsmálaráðherra skrifaði tiltekið bréf eða ekki er fullkomið aukaatriði. Ráðherrar skrifa nær aldrei embættisbréf sín sjálfir, það gerir starfslið ráðuneyta. Formaður dómnefndar veit þetta mætavel en kýs samt sem áður að gera þetta lítilfjörlega atriði að uppistöðu í svari sínu við gagnrýni ráðherra.

Jón Steinar Gunnlaugsson birtir matskvarða á hæfni þeirra 33 sem sóttu um embætti í landsrétti. Allir umsækjendur fá 10 stig af 10 mögulegum á þrem mælikvörðum af 12. Almennt eru mælikvarðar notaðir til að sundurgreina en ekki til að finna samnefnara. Það er beinlínis tilgangurinn. Þegar þrír kvarðar af 12 gefa öllum umsækjendum fullt hús stiga er augljóst að hæfnismatið er gallað.

Lögfræði er ekki nákvæm vísindagrein. En valdaelítan sem stendur í þjarki við yfirvöld dómsmála vill telja okkur trú um að umsækjandi með 5,525 stig búi yfir meiri hæfni til að verða dómari en umsækjandi með 5,275 stig. 

Tiltrú almennings á dómskerfinu er nauðsynleg. Umboðslausa valdaelítan sem telur sig hafna yfir lögmæt yfirvöld dómsmála ætti nota dómgreindina og láta af þeirri iðju að grafa eigin gröf. 


mbl.is Viss um að Guðlaugur ritaði ekki bréfið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 10. janúar 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband