Hvers vegna þola frjálslyndir ekki framfarir?

Þrátt fyrir aukna almenna hagsæld, lengri meðalævi, minni fátækt, færri stríð og bætt umhverfi er þorri frjálslyndra þeirrar skoðunar að heimur versnandi fer.

Sálfræðingurinn Steven Pinker ræðir andstyggð frjálslyndra á framförum.

Að hluta til útskýrir Pinker andstyggðina út frá sálfræði en meginástæðuna rekur hann til fjölmiðla þar sem er fyrir á fleti hátt hlutfall vinstrimanna/frjálslyndra.


Lýðræði, stjórnarskrá og stöðugleiki

Megineinkenni lýðræðis er að kjósendur geti í frjálsum kosningum skipt út stjórnvöldum, þ.e. löggjafa- og framkvæmdavaldi. Eftir hrun skiptu kjósendur út stjórnvöldum vorið 2009, fyrsta vinstristjórn lýðveldisins leit dagsins ljós.

Eftir 4 ár með vinstristjórn fannst kjósendum kominn tími til hægristjórnar. Stjórn Sigmundar Davíðs fékk ekki að ljúka kjörtímabilinu og í hönd fóru tvennar kosningar sem kenna má við stjórnarkreppu. Niðurstaðan varð nýmæli, samstjórn Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknar.

Í eftirhruninu reyndi á stjórnarskrána, sem er ramminn fyrir lýðræði okkar. Bæði í þingkosningunum, sem raktar eru að ofan, og enn frekar í þjóðaratkvæðagreiðslum um Icesave-skuldbindingar.

Stjórnarskráin stóðst prófið. Hún hélt sem umgjörð, tryggði að lýðræðislegur vilji þjóðarinnar næði fram að ganga í brýnum málum.

Maður á ekki að endurskoða það sem virkar. Nóg eru vandræðin samt.


mbl.is Leitar sátta í stjórnarskrármálum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Erfitt að telja krónur, hvað með sanngirni?

Ríkið, verkalýðshreyfingin og samtök atvinnurekenda komust að því á fundi að erfitt sé að telja launakrónur launþega. 

Launakrónurnar eru í meginatriðum fjórþættar. Í fyrsta lagi launataxti sem birtist í launatöflum. Sumir, t.d. kennarar, fá greitt skv. launataxta. Í öðru lagi markaðslaun, sem virka þannig á almenna launamarkaðnum að taxti er viðmið og svo fá menn laun ofan á taxtann eftir aðstæðum. Í þriðja lagi eru það heildarlaunin með yfirvinnu, sem stundum er unnin en stundum ekki. Í fjórða lagi ýmsar sporslur, t.d. fata- og ferðapeningar, sem undir hælinn er lagt hvort að séu raunkostnaður eða launauppbót.

Skiljanlega er erfitt að ná utan um allar launakrónurnar og fá þær í töflureikni til að gera samanburð milli starfshópa.

Önnur nálgun að samkomulagi á vinnumarkaði er að spyrja um sanngirni. Það má spyrja hvað er sanngjarnt að leikskólakennari fái í laun? Eða rútubílstjóri? Við myndum ekki geta svarað þessum spurningum nema með samanburði við aðra starfshópa. Til viðbótar yrði að hafa í huga að leikskólakennarar starfa ekki á samkeppnismarkaði. Ríki og sveitarfélög einoka menntun. Rútubílstjórar starfa aftur á samkeppnismarkaði, ferðaþjónustunni, og laun þeirra hljóta að taka mið af afkomu greinarinnar.

Þingfararkaupið er 1,1 milljón kr. á mánuði. Þingmennska er mikilvægt starf, um það hljóta allir að vera sammála, þótt ekki beri á því í pólitískri umræðu. Er hægt að nota þingfarakaup sem viðmið? Að aðrar stéttir, t.d. í opinbera geiranum, fái laun sem hlutfall af þingfarakaupi?

Það verður alltaf erfitt að telja launakrónur. Og það er snúið að meta hvaða laun eru sanngjörn. Hvorugur mælikvarðinn er algildur. En mörg úrlausnarefni bjóða einfaldlega ekki upp á fullkomin lausn.

 

 

 


mbl.is Eru sammála um nauðsyn betri launagagna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 20. janúar 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband