Ár Trump og Kötustjórnar

Donald Trump átti sviðið á erlendum vettvangi á árinu. Innsetning ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur er tímamótaatburðurinn innanlands.

Menn ýmist elsk´ann eða hata. Hvort heldur sem er breytir Trump alþjóðastjórnmálum. Spurningin er aðeins hve róttækt.

Ástin ein umlykur aftur Kötustjórnina. Almenningur sýnir henni fádæma stuðning sem teflonhúðar stjórnina fyrir gagnrýni.

 


mbl.is Viðburðaríkt fyrsta ár Trumps
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkisstjórnin stærri en stjórnarflokkarnir

Stjórnarflokkarnir þrír mælast samtals með um 54 prósent fylgi en ríkisstjórnin nýtur nær 75 prósent stuðnings. Það segir okkur að þjóðin telur ríkisstjórn Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks þá bestu mögulegu við núverandi aðstæður.

Skýringin á yfirburðafylgi ríkisstjórnarinnar liggur í þeirri staðreynd að þjóðin er þreytt á viðvarandi stjórnarkreppu eftir hrun og vill stöðugleika í landsstjórninni.

Traustur stuðningur við ríkisstjórnina gerir stjórninni kleift að takast á við stærstu prófraunina hingað til, sem er að sigla kjarasamningum í höfn í vetur.


mbl.is Þrír af hverjum fjórum styðja stjórnina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

McCartyismi

Smári McCarthy þingmaður á alþingi Íslendinga reiknar sig inn í bandarísk stjórnmál og vill bæta slaka stöðu alþjóðasinna í Washington með fjárframlögum úr ríkissjóði Íslands í hít Sameinuðu þjóðanna.

Smári gat sér orð sem fréttaskýrandi um stjórnmál fyrir þingmennsku og er öllum hnútum kunnugur um siðvædda stjórnsýslu, eins og orðfærið staðfestir:

Hafið þið fylgst með þeim skrípaleik sem Alþingi er orðið? Það er með ólíkindum að hægt hafi verið að finna svona mikið af fólki sem getur talað viðstöðulaust með rassgatinu.

Einu sinni var maccartyismi bandarísk útflutningsafurð. Fræ barst hingað og varð að smára.


mbl.is Vill laga „frekjukast forsetans“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ofgnótt og öfgar haldast í hendur

Allir þurfa að borða. Margir borða of mikið en fáir of lítið. Tískusveiflur í mataræði kenna stundum að best sé að borða eingöngu kolvetni en núna á kjötið að ryðja öðrum matvælum af borðum. Grænmeti er annar lífstíll og svo er til kenningin um að svelta sig í þrjá daga en borða vel í tvo.

Frá miðöldum var mataræði Íslendinga þannig að mjólkurmatur hélt í okkur lífinu með eilitlu af kjöti og smávegis fiskmeti en kolvetni fengust með fjallagrösum og þara. Íslendingurinn var svangur alla daga, nema kannski á jólunum.

Ofgnóttin sem við búum við leyfir okkur taka þátt í matartískunni, kaupa jafnvel rándýr tæki til að elda rétt. En það er með matinn eins og annað að meðalhófið reynist iðulega best.


mbl.is Kjöt, kjöt og bara kjöt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Carragher jarðar Mourinho

Ef Pep Guardiola stýrði Manchester United í stað José Mourinho yrði liðið meistari, segir Jamie Carragher sparkspekingur og fyrrum fyrirliði Liverpool.

Guardiola er stjórinn hjá Manchester City og er kominn með 15 stiga forskot á toppi deildarinnar þegar leiktíðin er hálfnuð.

Munurinn á Guardiola og Mourinho er að sá fyrrnefndi spilar sóknarbolta á meðan taktík Mourinho er að tapa ekki leikjum. Mourinhio böðlast til að vinna titla en Guardiola gerir það með fágun.

Leikstíll stjóranna endurspeglar persónuleika þeirra. Guardiola er hreinskiptinn og beinskeyttur en Mourinho potar fingri í augu andstæðingsins.


mbl.is Mourinho sakar Klopp um hræsni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einkauppgjör við látinn föður - hver er tilgangurinn?

Anna Ragna Magnúsardóttir gerir upp sakirnar við föður sinn, Magnús Thorlacius, sem lést fyrir 40 árum. Fyrsta setningin í uppgjörinu, eins og það birtist alþjóð, er ,,Faðir minn var pervert, nauðgari og barnaníðingur. Hann var líka hæstaréttarlögmaður og frímúrari."

Efni af þessu tagi er eftirsótt lesefni, það skýrir vilja fjölmiðla að birta það. Á Önnu Rögnu er að skilja að uppgjörið sé til að brjóta upp þrúgandi þögn fjölskyldunnar.

Blaðamaðurinn, sem vinnur efnið frá Önnu Rögnu, virðist telja það dæmi um hvernig ,,fínir menn" komist upp með að níðast á börnum. Blaðamaðurinn skrifar:

Í sumar, þegar mál Roberts Downey stóð sem hæst, kom það til tals, meðal annars af Illuga Jökulssyni, hví svo fáir „fínir menn“ hafi í gegnum tíðina á Íslandi þurft að svara fyrir níðingsskap gegn börnum.

Magnús Thorlacius er gerður að dæmi um áhrifamann sem í skjóli virðingarstöðu í samfélaginu kemst upp með glæpi. En hann naut einskins skjóls nema heimilisins, sem allir njóta hvort heldur þeir eru efst eða neðst í mannvirðingarstiganum. Málavextir bera með sér að Magnús var aldrei kærður og að meint brot hans hafi verið framin innan veggja heimilisins.

Menn verða ekki níðingar eða annars konar glæpamenn vegna þjóðfélagsstöðu sinnar. Hneigð manna til óhæfuverka ræðst af persónulegum þáttum, ekki hvort þeir eru efnaðir eða fátækir.

Í minningargrein um Magnús segir:

Magnús varð í æsku fyrir miklum heilsufarslegum áföllum, sem mörgum hefði dugað til aldurtila, en Magnús sigraði. Þetta varð hins vegar þess valdandi, að hann náði ekki þeirri líkamlegu reisn, sem hann var borinn til.

Ef tilgangurinn með því að bera einkauppgjör Önnu Rögnu við föður sinn á götur og torg væri að upplýsa, fræða eða varpa ljósi á eðlisþætti í fari manna sem brjóta á þeim sem síst skyldi væri nærtækt að skyggnast um líf gerandans, sem verður að teljast meintur í þessu tilviki þar sem aðeins fórnarlambið er til frásagnar.

 

 


Trump: alþjóðakerfið virkar ekki

Á fundi í Pentagon, varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna, fékk Donald Trump forseti 50 mín. langa kynningu helstu yfirmanna hermála og viðskiptahagsmuna um alþjóðakerfið sem verið hefur við lýði frá lokum seinna stríðs. ,,Alþjóðakerfið virkar alls ekki," sagði Trump.

Frásögnin af fundinum, sem var í sumar, er í fréttaskýringu New York Times með fyrirsögn um að Trump brjóti 70 ára hefð bandarískrar utanríkisstefnu.

New York Times er frá gamalli tíð miðstöð frjálslyndrar alþjóðahyggju. Blaðið er stofnun í bandarískri umræðu. Þess vegna sker það í augu að í ítarlegri fréttaskýringu um utanríkisstefnu Bandaríkjanna frá lokum seinna stríðs er ekki minnst á eitt atriði sem flestir myndu halda að skipti ögn máli, sum sé að kalda stríðinu lauk fyrir aldarfjórðungi.

En það var einmitt kalda stríðið, samkeppni vestrænna þjóða við kommúnískt samfélag, sem var drifkrafturinn í utanríkisstefnu Bandaríkjanna allar götur frá því Hitler skaut sjálfan sig í byrginu í Berlín.

Frjálslynd alþjóðahyggja heldur dauðahaldi í kalda stríðið og gerir Pútín að arftaka Stalín. En Trump er saklausa barnið sem bendir á hið augljósa. Kommúnisminn er kominn á öskuhaug sögunnar. Tilgangslaust er að halda í alþjóðakerfi sem lætur eins og vofa kommúnisma leiki enn lausum hala í henni veröld.

Alþjóðakerfi sem hvílir á þeirri forsendu að barátta standi yfir á milli góðs og ills glatar þeim eiginleika sem er nauðsynlegur til að kerfið virki. Sá eiginleiki er raunsæi.


Atgervisflótti skýrir ekki lélega fjölmiðla

Íslenskir fjölmiðlar eru samfélagsmiðlar með launaðri ritstjórn. Blaðamennska samfélagsfjölmiðla mun ekki batna þótt laun ritstjórna hækki, eins og Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans, vill vera láta.

Á dögum flokksblaðanna var blaðamennska sögð ,,yndislegt hundalíf" og atgervisflótti var viðvarandi. Tvennskonar fólk varð blaðamenn, sumt gafst upp á námi en annað naut pólitískra eða persónulegra sambanda. Sumir ílentust á meðan aðrir leituðu úrræða eins og að komast á alþingi eða auglýsingastofu.

Samt var blaðamennskan betri á gömlu flokksblöðunum en hún almennt er í dag. Ástæðan er sú að flokksblöðin stóðu fyrir samfélagsleg gildi. Þjóðviljinn talaði fyrir verkalýðsbaráttu og þjóðfrelsi, Morgunblaðið fyrir vörnum landsins og borgaralegri menningu; bændur og dreifbýli á hauk í horni þar sem Tíminn var. Alþýðublaðið komst fyrir í eldspýtustokki.

Samfélagsfjölmiðlar standa ekki fyrir nein pólitísk, siðferðileg eða menningarleg gildi. Þeir hengja sig á hvikul umræðustef á fésbók og bloggi í von um að taka þátt í æsilegri atburðarás þar sem staðreyndir víkja fyrir skoðunum.

Tilgangslaust er að fleygja opinberum peningum í samfélagsfjölmiðla. Nýir miðlar munu spretta upp eins og gorkúlur á haug en innihaldið ekkert batna.


Verslunin er ekki þjóðin

Verslunin er hagsmunaaðili, ekki ekki þjóðin. Talsmenn verslunar berjast fyrir sértækum hagsmunum en láta aðra lönd og leið, t.d. jafnvægi í byggðum landsins.

Sérhagsmunir eru iðulega klæddir fögrum orðum. Verslunin talar um ,,frelsi" í viðskiptum þegar barist er fyrir stærri sneið af veltunni með matvörur.

Bændur eiga meira tilkall til þess að vera þjóðin en verslunin. Bændur standa fyrir frumframleiðsluna en verslunin er bara milliliður.

 


mbl.is Þjóðarsamtal í hættu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afsláttur af skatti - eða skattalækkun

Söluskattur var við lýði áður en virðisaukaskatturinn var tekinn upp. Ein rökin fyrir kerfisbreytingunni var að söluskatturinn þjónaði ekki lengur tilgangi sínum vegna fjölda undaþága.

Ný ríkisstjórn hætti við að afnema skattaundanþágu sem ferðaþjónustan nýtur. Og nú er talað um undanþágu fyrir fjölmiðla og tónlist.

Það er einfalt að tala fyrir undanþágum frá skatti, þær eru vanalaga gjafir í þágu góðra málefna. Við búum við fordæmalaust góðæri. Gjafir í góðæri verða gjöld í hallæri.

Það er erfitt að búa til og viðhalda skilvirku og sanngjörnu skattkerfi. Og í hallæri eru allir skattar ósanngjarnir.


mbl.is Ágætis stuðningur við málið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband