Vantraustið er innan ASÍ

Verkalýðshreyfingin hefur aldrei verið valdameiri en hún er í dag. Ekki aðeins gerir hún valdatilkall á stjórnvöld og fær áheyrn heldur stjórnar verkalýðshreyfingin í gegnum lífeyrissjóði mörgum stærstu fyrirtækjum landsins.

Skyldi ætla að verkalýðshreyfingin væri nokkuð sátt við sinn hlut.

En það er öðru nær. Í verkalýðshreyfingunni er hver höndin upp á móti annarri. Formaður VR sakar forseta ASÍ um launráð og sjómenn og landverkafólk í Grindavík segja sig úr ASÍ á einu bretti.

Vantraustið innan ASÍ er vandamálið, ekki að það skorti á traust milli verkalýðshreyfingar og stjórnvalda.


mbl.is Mikið vantraust á milli aðila
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ofbeldi eykst með umfjöllun

Eftir því sem umfjöllun um ofbeldi verður meiri í opinberri umræðu eykst ofbeldið í samfélaginu. Tvær ástæður eru fyrir því. Í fyrsta lagi fjölgar þeim sem stíga fram og telja sig hafa orðið fyrir ofbeldi. (Gerendur koma nær aldrei fram að fyrra bragði).

Í öðru lagi verður fólk næmara á ofbeldi en áður, einfaldlega vegna þess að umræðan víkkar út skilgreininguna á ofbeldi sökum fyrirferðarinnar.

Ofbeldi sem hugtak er ekki meitlað í stein. Við skilgreinum það á annan veg í dag en við gerðum fyrir 15 árum. Og enginn býr yfir því kennivaldi í samfélaginu að geta lagt fram óvefengjanlega skilgreiningu á ofbeldi.

Mótsögnin sem við er að glíma er eftirfarandi. Umfjöllun um ofbeldi hjálpar fórnarlömbum að ná réttlæti og fá ofbeldið stöðvað. Það er jákvætt. Aftur er neikvætt að við förum að trúa því að ofbeldi þrífist í hverjum krók og kima; að við búum í ofbeldissamfélagi.

Því ef við trúum að samfélagið sé gegnsýrt ofbeldi verður það hversdags, hluti af mannlífinu. Og það viljum við ekki.


mbl.is Undir niðri býr fjöldi fólks við ofbeldi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjölskyldurnar 14 urðu 300 á hálfri öld

Á áttunda áratug síðustu aldar var talað um að 14 fjölskyldur ættu Ísland. Nánari talning gaf að fjölskyldurnar væru í sex ættum. Ef eitt þúsund Íslendingar eiga Ísland í dag, í merkingunni allt eigið fé einstaklinga í fyrirtækjum, og vísitölufjölskyldan er þrír einstaklingar þá fáum við ríflega 300 fjölskyldur.

Og ef hlutföllin milli fjölskyldna og ætta er það sama og fyrir hálfri  öld gerir þetta um 150 ættir. Það er harla góð frammistaða hjá okkar samfélagi að dreifa þjóðarauðnum frá sex ættum í 150 á hálfri öld.

Við ættum að fá hagfræðinga og ættfræðinga að greina þessar 150 ættir til að færa þeim þakklæti þjóðarinnar. Einhver þarf að nenna að eiga peninga í kapítalísku þjóðfélagi. Annars yrði allt hirt af ríki og lífeyrissjóðum.


mbl.is 1.000 efnamestu eiga nær allt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 11. janúar 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband