Trúarstef í stjórnmálum: Trump og Oprah

Stór-Ameríka, sem Trump var kjörinn forseti út á fyrir ári er trúarstef. Stefið fær útlistun í mörgum ólíkum útgáfum, t.d. hjá Láru Ingraham þar sem hún situr í myndveri Fox og spyr hvít í bláu með gylltan kross á bringu: hvað er Ameríka?

Oprah Winfrey, sem gæti orðið forsetaframbjóðandi 2020, sveipar sig trúarstefjum. Kurt Andersen kennir trúarstef Oprah við hjávísindi og nýaldarspeki, sem boða að maður hugsi til sín frægð og frama. (Segir okkur í leiðinni að Trump og Oprah eru miklir hugsuðir, samanber frægð þeirra og frama.)

Trump og Oprah koma bæði úr bandarískum afþreyingariðnaði. Sá iðnaður býr til sögulega fortíð er hæfir samtímanum, segir Bretinn Simon Jenkins.

Trúarstef vísa í veruleika handan hversdagsins. Trump og Oprah eru í þeim skilningi spámenn almættisins. Og almenningur fylgir þeim enda hversdagsleikinn grár en almættið gyllt.

 


mbl.is Snjallt eða Oprahktískt?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flóttamenn og skítalönd

Trump hitti á taug þegar hann kallaði ónafngreind ríki ,,skítalönd". Þau ríki sem taka ummælin til sín eru flest upprunalönd milljóna flóttamanna sem flæða inn í Vestur-Evrópu og Bandaríkin og Kanada.

Umræðan næstu daga mun tengja saman þessi tvö atriði, flóttamenn og skítalönd. Spurt verður: hvað á að kalla þau þjóðríki sem búa þegnum sínum þær aðstæður að þeir kjósa að flýja land?

,,Skítaland" er tæplega prenthæft dólgsyrði og ekki nothæft. ,,Þriðji heimurinn" var notað í kalda stríðinu en það er sögulega úrelt hugtak. ,,Þróunarlönd" var í tísku um árabil en skaraðist við hugmyndina um ,,nýmarkaðsríki". Stundum er notað ,,fátæk ríki" en það á tæplega við olíuauðug lönd fyrir botni Miðjarðarhafs.

Ef samstaða næst um valkost við ,,skítalönd", en það er alls óvíst, þarf orðið að gefa til kynna hvers vegna þessi lönd virka ekki betur fyrir þegna sína en raun ber vitni.


mbl.is Krefja Trump um afsökunarbeiðni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 13. janúar 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband