Laugardagur, 17. nóvember 2018
Sigurður Ingi: ESB fær ekki Ísland og Noreg í einum pakka
Evrópusambandið hugðist fá raforkuauðlindir Íslands og Noregs á einu bretti, með þriðja orkupakkanum. Íslenska fullveldið yfir auðlindum þjóðarinnar er þó ekki falt, segir Sigurður Ingi formaður Framsóknarflokksins og telur einboðið að fá undanþágu frá raforkustefnu ESB.
Sigurður Ingi er formaður ríkisstjórnarflokks. Eftir útspil hans er verkefni viðkomandi fagráðherra, Þórdísar og Gulla, að finna þá embættismenn í utanríkis- og iðnaðarráðuneytinu sem þvældu okkur í orkustefnu ESB, og senda á endurmenntunarnámskeið í fullveldismálum.
Stjórnmálaskóli Sjálfstæðisflokksins verður ekki fyrsti viðkomustaður, sé tekið mið af afurðunum þaðan síðustu árin.
![]() |
Vill nýta undanþágur frá orkupakkanum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 19:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Laugardagur, 17. nóvember 2018
Maðurinn, lögmálin og trúin
Mælieining eins og metri fær löggildingu í frönsku byltingunni fyrir 200 árum. Í gamla stjórnarfarinu voru margar mælieiningar notaðar. Nú skyldi samræma og staðla.
Án almennra mælieininga er óreiða. Maðurinn vill skipulag. Þegar framandi menningarheimar mætast er brýnast að finna ,,rétta" mælingu. Á 15. öld tóku að sigla til Íslands enskir sjómenn og þýskir að kaupa skreið og selja sinn varning. Eftir nokkra reynslu af þeim viðskiptum hittust Íslendingar á alþingi og samþykktu Píningsdóm 1490.
Í Píningsdómi er krafist að útlendingar fari með friði og stundi viðskipti eftir mælieiningum ,,sem at fornv hefer verid hier j landit." Maðurinn þarf aðferð til að mæla þyngd og rúmmál nauðsynja löngu áður en hann notar aðferðirnar til að skrásetja svokölluð náttúrulögmál.
Allt frá vísindabyltingunni í upphafi nýaldar er skilningur manna á lögmálum náttúrunnar settur fram í frásögnum. Sagan um eplið sem féll á höfuð Newton, og leiddi til uppgötvunar á þyngdarlögmálinu, varð til í meðförum Voltaire, sem hitti frænku Newton og rakti úr henni garnirnar.
Þyngdarlögmálið var vitanlega ekki uppgötvað af Newton. Lögmál í náttúrunni, ef þau eru til, eru ekki uppgötvuð af manninum. Annað hvort eru lögmál eða ekki - óháð manninum. Eina framlag mannsins er að setja saman aðferð til að lýsa meintum lögmálum. Aðferðin er í þeim skilningi skáldskapur að hún er ekki hluti af náttúrunni heldur tilbúningur.
Tölur og málfræði finnast ekki í náttúrinni. Maðurinn bjó hvorttveggja til í því skyni að koma reglu á óreiðuna sem blasti við, bæði úti í hinum stóra heimi og innra með honum sjálfum. Maðurinn þarf reglu til að lifa með sjálfum sér og öðrum.
Fram yfir vísindabyltinguna og frönsku stjórnarbyltinguna var trúin regluverkið sem treyst var á. Trúin svarar bæði spurningum þessa heims og eilífðarinnar.
Vegna innbyggðra takmarkana geta vísindin ekki sannað eitt eða neitt. Þau geta á hinn bóginn afsannað kenningar um hvernig hlutirnir ganga fyrir sig í heiminum. Fyrir utan það, sem að ofan segir, að aðferðin til að lýsa náttúrulögmálum er skáldskapur, þá vita vísindamenn ekki hvort þeir eru að lýsa heild eða aðeins brotabroti af heildinni. Þess vegna geta þeir ekkert sannað, aðeins afsannað.
Síðustu tvær aldirnar eða svo snýr maðurinn baki við trú til að skilja heiminn, einkum á vesturlöndum, og leitar svara í vísindum um hvernig tilverunni sé háttað. En vísindi svara aðeins hagnýtum spurningum um nauðsynjar; hvað er kíló þungt? Um leið og vísindin eru spurð flóknari spurninga, og beðin að sanna svörin, er viðkvæðið í grunninn það sama og hjá miðaldakirkjunni. Við verðum að trúa.
Kílóið var endurskilgreint með viðhöfn. Viðstaddur sagði athöfnina ,,tilfinningaþrungna". Frásögnin er falleg og hátíðleg. Eins og kirkjuathöfn.
![]() |
Kílógrammið endurskilgreint |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 14:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Laugardagur, 17. nóvember 2018
Femínistaríkið: ómenntaðir karlar, atvinnulausar konur
Femínistar koma í veg fyrir úrræði til að halda drengjum í skólum. Afleiðingin er yfirtala kvenna í háskólum, 57 konur á móti hverjum 43 körlum. Fyrrum yfirmaður breskrar skráningarstofu fyrir háskóla heldur þessu fram.
Hér á Íslandi er staðan þannig að tvöfalt fleiri konur en karlar ljúka háskólaprófi. Vanmenntun karla helst í hendur við atvinnuleysi háskólakvenna. Félag háskólamenntaðra, BHM, segir að í september sl. hafi 649 háskólakonur verið atvinnulausar en 477 háskólakarlar.
Laun háskólamenntaðra hafa fallið í samanburði við laun ómenntaðra. Slagorð BHM, ,,metum menntun til launa" er til marks um það.
Í nýja fagra femínistaríkinu eru á kreiki ferlar sem boða hvorki gott fyrir karla né konur.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Föstudagur, 16. nóvember 2018
Þórdís trompar Gulla - hvað gerir Bjarni?
Þriðja orkupakka ESB verður frestað til vors, sagði Guðlaugur Þór utanríkisráðherra í gær. Þórdís Kolbrún iðnaðarráðherra trompar Gulla í dag; frestum pakkanum til hausts 2019.
Samkeppni sjálfstæðisráðherranna um frestun á innleiðingu þriðja orkupakka ESB í íslensk lög staðfestir það sem augljóst er af umræðunni. ESB-sinnar, bæði þeir sem koma fram undir nafni og kennitölu og laumusinnar, töpuðu umræðunni um hvort færa skuli yfirráðin yfir íslenskri raforku til Brussel.
Bjarni Benediktsson formaður yrði maður að meiri að lýsa því yfir að þriðji orkupakkinn verður ekki leiddur í íslensk lög með stuðningi Sjálfstæðisflokksins.
Þá væri málið dautt.Á afmælisdegi Jónasar er við hæfi að afþakka vonda útlenska pakka. Flokkur sjálfstæðis stæði betur undir nafni.
![]() |
Útilokar ekki frekari frestun orkupakka |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Föstudagur, 16. nóvember 2018
Laumu ESB-sinnar, lestir, skipaskurðir og sæstrengur
Í svari þáverandi utanríkisráðherra við fyrirspurn Sigríðar Á. Andersen, núverandi dómsmálaráðherra, segir í niðurlagi um undanþágur Íslands frá EES-samningnum:
Ísland hefur þannig samið um ýmsar aðlaganir og undanþágur, hvort sem er að hluta eða í heild. [...] Þá má bæta við að Ísland þarf hvorki að innleiða gerðir á sviði lestarsamgangna né um skipgengar vatnaleiðir.
Þeir sem vilja að Ísland innleiði þriðja orkupakka ESB í gegnum EES-samninginn segja að hann skipti ekki máli fyrir Íslendinga þar sem enginn sæstrengur sé á milli Íslands og Evrópu. Það liggur fyrir að Ísland fái undanþágur ,,í heild" frá tilskipunum sem eiga ekki við um landið okkar, s.s. vegna járnbrauta og skipaskurða.
Þá vaknar spurningin: hvers vegna er Ísland ekki með heildarundanþágu frá orkustefnu ESB?
Svarið liggur í augum uppi. Í stjórnkerfinu eru menn sem ætla sér að læða raforkumálum Íslendinga undir yfirráð ESB. Þriðji orkupakkinn er Trójuhestur laumu ESB-sinna í stjórnkerfinu.
Núna segist utanríkisráðherra ætla að fá ,,færustu sérfræðinga" til að ,,meta málefnalegar" athugasemdir. Guðlaugur Þór er í sporum þjófs sem staðinn er að verki og biður um ,,málefnalegt mat færustu sérfræðinga" hvort hann sé að taka eitthvað ófrjálsri hendi. Til dæmis fullveldi þjóðarinnar í orkumálum.
![]() |
Fresta orkupakkanum til vors |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Fimmtudagur, 15. nóvember 2018
Byltingin, Samherji og RÚV
Allt kjörtímabil Jóhönnustjórnarinnar 2009-2013 ríkir byltingarástand hér á landi. Fyrsta hreina vinstristjórn lýðveldissögunnar komst til valda í kjölfar bankahrunsins.
Til að viðhalda byltingarmóðnum og knýja fram róttækar breytingar, nýja stjórnarskrá og ESB-aðild, varð að búa til óvini. Bylting þrífst á óvinum og slúðri um spillingu þeirra og vélráð.
Óvinir byltingarstjórnarinnar voru: lýðveldið - ónýta Ísland, útgerðin - arðrán kvótaeigenda, Sjálfstæðisflokkurinn - valdablokk auðstéttarinnar. Síðast en ekki síst: föllnu bankarnir - auðmennirnir sem steyptu okkur í glötun.
Samherji og forstjóri fyrirtækisins tikka í alla reitina nema einn (lýðveldið).
RÚV var viljugt verkfæri að koma slúðrinu á framfæri og viðhalda óvinaímyndinni. Ekki aðeins í Samherjamálinu. RÚV boðaði til mótmælafunda á Austurvelli og lofaði beinni útsendingu. RÚV var íslenska útgáfan af þeim blóðþyrsta Robespierre í frönsku byltingunni.
En, sem sagt, og til að gera langa sögu stutta, byltingin rann sitt skeið vorið 2013. Byltingarflokkarnir biðu meira afhroð en dæmi eru um í stjórnmálasögu vesturlanda á friðartímum. Samfylking hrapaði úr 30 prósent fylgi í 12,9% og Vinstri grænir úr ríflega 20 prósent í 10,9%.
Og þjóðin var hólpin. RÚV lifir samt enn. Frakkar höfðu þó rænu á að gera Robespierre höfðinu styttri.
![]() |
Megn pólitísk myglulykt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 16:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Fimmtudagur, 15. nóvember 2018
Bankarnir finna kreppueinkenni
Minni hagnaður banka sýnir að efnahagskerfið hægir á sér. Enn mælist hagvöxtur en hann fer minnkandi. Neysla almennings skreppur saman og færri atvinnutækifæri verða til þar sem fyrirtækin halda að sér höndum í mannaráðningum og segja jafnvel upp fólki.
Fram yfir áramót hangir annar óvissuþáttur yfir atvinnulífinu, sem eru yfirvofandi kjarasamningar við sósíalíska verkalýðshreyfingu.
Kreppueinkennin gætu orðið að fullveðja kreppu eða mjúkri lendingu hagkerfisins eftir langvarandi þenslu. Valið er okkar.
![]() |
Samdráttur í kortunum hjá öllum bönkunum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 15. nóvember 2018
ESB hirti fullveldið af Bretum - barátta að fá það tilbaka
Bretar ákváðu í þjóðaratkvæðagreiðslu sumarið 2016 að segja sig úr Evrópusambandinu. Úrsagnarferlið sýnir að ESB lætur ekki svo glatt af hendi valdheimildir sem það hefur náð frá aðildarríkjum.
Óvissuástand er varanlegur þáttur í breskum stjórnmálum sl. 2 ár. Afsagnir ráðherra sem telja ESB reyna að gera Bretland að hjálendu sinni eru til marks um það.
Skýr niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslu er ekki virt af Evrópusambandinu sem leggur sig fram um að gera Bretum óleik. Lærdómur fyrir fullvalda þjóðríki er að gefa ekki ESB færi á sér.
![]() |
Ríkisstjórnin samþykkti Brexit |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Miðvikudagur, 14. nóvember 2018
Sólveig Anna og mótsögn sósíalismans
,,[É]g segi að stjórnmálin séu ónýt," skrifar Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar og félagi í Sósíalistaflokknum og heldur áfram, ,,á endanum ráða ávallt hin grimmu hagnýtingarsjónarmið efnahagslegra forréttindahópa för."
,,Við getum aðeins treyst á samtakamátt okkar, á stéttavitundina okkar og réttlætiskenndina okkar," segir Sólveig Anna í niðurlagi.
Það liggur í orðum Sólveigar Önnu að til sé eitthvað sem kalla má hagnýtan sósíalisma sem skili okkur réttlátu samfélagi.
Sósíalismi býður aftur ekki upp á neina hagnýta aðferð til að deila gæðum meðal manna. Ef svo væri hefði aðferðin verið nýtt þar sem tilraunir hafa verið gerðar með sósíalisma. Sósíalískt skipulag á efnahagsmálum skilar sér einatt í fátækt alls þorra almennings.
Réttlæti sósíalisma hefur heldur ekki reynst farsælt. Sósíalistar boða ekki aðeins jöfn tækifæri, líkt og borgaraleg stjórnmál, heldur jafna útkomu. Það er mótsögn.
Jöfn tækifæri fela í sér að ólíkir einstaklingar spreyti sig í leik og starfi. Útkoman getur aldrei orðið jöfn sökum þess að einstaklingarnir eru ólíkir. Það er einfaldlega ein af staðreyndum lífsins.
Sósíalíska mótsögnin tekur ekki með í reikninginn margbreytileika mannsins. Það er mergurinn málsins. Leið sósíalista framhjá mótsögninni er að steypa alla í sama mót, með ofbeldi ef ekki vill betur.
Það er betra að búa við ,,ónýt" hversdagsstjórnmál en fullkominn sósíalisma. Mun betra.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Miðvikudagur, 14. nóvember 2018
Háskóli Íslands: ESB-sinnar tala um fullveldið
Í ár fögnum við aldarafmæli fullveldis þjóðarinnar. Háskóli Íslands bryddar upp á fundi með yfirskriftinni ,,Fullveldið í hættu?". Í pallborði eru þekktir ESB-sinnar sem í ræðu og riti gera lítið úr fullveldinu.
Þau Silja Bára Ómarsdóttir dósent í stjórnmálafræði, Kristrún Heimisdóttir lögfræðingur og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir alþingismaður eru öll margyfirlýstir ESB-sinnar sem vilja fullveldið feigt.
Þetta er eins og boða til fundar um æskulýðsmál og skipa pallborðið önugum og sínöldrandi gamalmennum.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)