Snjall Skúli, mistök Icelandair eða WOW á hrakvirði?

Markaðurinn refsaði Icelandair fyrir að gefa frá sér WOW, hlutabréfin féllu í gær og dag. Á yfirborðinu heyktist Icelandair á kaupunum þar sem skuldir WOW reyndust meiri en áætlað var.

Í reynd er ekki ólíklegt að yfirstjórn Icelandair hafi metið það svo að ábyrgðin á einu risafélagi með þúsundum starfsmanna og nánast allri ferðþjónustu landsins hafi ekki verið áhættunnar virði. Fyrirsjáanlegar uppsagnir starfsfólks og minna framboð af ódýrum fargjöldum, já, þeim sem kollkeyrðu WOW, myndi kalla fram harða gagnrýni.

En svo getur verið að Skúli Mogensen hafi talað við tvo aðila samtímis, Icelandair og Indigo, og ákveðið að taka betra tilboðinu.

Þriðja útgáfan er að Indigo hafi beðið á hliðarlínunni, stokkið til þegar Icelandair kippti að sér höndunum og fái WOW á hrakvirði.

Fréttir af fyrstu uppsögnum á starfsliði WOW sama dag og tilkynnt var að Indigo ætli að kaupa félagið bendir til að áætlanir um uppstokkun eru útfærðar.

Næstu dagar og vikur leiða í ljós hver kyns er á íslenska flugmarkaðnum. Ólíklegt er þó að Skúli og félagar setjist að sumbli á miðborgarbar og úthrópi meiningu sína sem verði hleruð og sett i fjölmiðla.


mbl.is Sigurður og Skúli ræddu stöðuna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Inga færir Sigmundi Davíð glaðning: 2 þingmenn

Þingmenn eru kjörnir sem fulltrúar kjósenda en ekki flokka. Þingmenn eiga að fylgja samvisku sinni en ekki flokksskipunum á alþingi. Inga Sæland formaður Flokks fólksins getur e.t.v. rekið þingmenn úr flokknum en ekki af alþingi.

Líklegast er að flokkslausu þingmennirnir starfi sjálfstætt fram yfir áramót en gangi til liðs við Miðflokk Sigmundar Davíðs undir vor.

Falleg gjöf Ingu til Sigmundar Davíðs í upphafi aðventu.


mbl.is „Eiga ekkert erindi inn á Alþingi“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stjórnsýsla aftengd lýðræðinu

Pólitískir jarðskjálftar síðustu ára, t.d. forsetakjör Trump og Brexit, stafa af vonsviknum kjósendum sem telja yfirvöld svíkjast um að hlusta á réttmætar áhyggjur af því hvert samfélag þeirra stefnir.

Algengt viðkvæði yfirvalda er að þau segjast bundin í báða skó. Yfirþjóðlegt samstarf krefjist þess að málum sé skipað í óþökk kjósenda og jafnvel gegn hagsmunum þeirra. Almenningur, seinþreyttur til vandræða, svarar með krók á móti bragði og kýs valkosti sem til skamms tíma voru á jaðrinum.

Stundum kýs fólk með fótunum. Almenningur, einkum ungt fólk, flykktist frá Eystrasaltslöndunum þegar yfirvöld þar aftengdu hagstjórnina lýðræðinu til að þóknast Evrópusambandinu. Sú saga er rakin í nýrri bók Hilmars Þórs Hilmarssonar.

Hér heima sjáum við tilburði stjórnsýslunnar til að aftengjast lýðræðinu. Þriðji orkupakkinn er valdaframsal yfir orkuauðlindum okkar í hendur Evrópusambandsins. Embættismenn, og stjórnmálamenn og álitsgjafar á þeirra vegum, segja valdaframsalið nauðsynlegt í þágu æðri hagsmuna.

Þessir æðri hagsmunir eru yfirþjóðlegt vald Evrópusambandsins. En það er ekkert lögmál sem segir að raforkumálum Íslendinga sé betur stjórnað í Brussel en Reykjavík. Reynslan segir okkur þvert á móti að opinbert vald sé best komið næst þeim sem eiga að búa við það. Lýðræði Íslendinga er marklaust í Brussel alveg eins og áður var í Kaupmannahöfn.


Bloggfærslur 30. nóvember 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband