Drífa: ASÍ gegn menntuðum konum

Menntaðar konur, t.d. ljósmæður, eiga ekki að fá laun umfram þá sem eru ómenntaðir. Þetta eru skilaboð Drífu Snædal forseta ASÍ.

Á síðustu áratugum ná konur fyrst og fremst með menntun að jafna launamun kynjanna. Það eru ekki gæfuleg skilaboð til ungra kvenna frá forseta ASÍ að menntun sé lítils virði og skuli ekki meta til launa.

Sósíalismi nýju forystu verkó verður sífellt undarlegri.


mbl.is Nær ekki utan um slagorðið menntun til launa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bretar vilja ekki EES - vasaútgáfu af ESB

EES-samningurinn er barn síns tíma, ætlaður þjóðum á leið inn í Evrópusambandið. Þeir þjóðir sem nú eiga aðild að EES eru Ísland, Noregur og Liechtenstein.

Bretar vilja ekki aðild að þessum samningi enda aðeins um að ræða vasaútgáfu af Evrópusambandinu.

Í gegnum EES ásælist Evrópusambandið yfirstjórn á íslenskri raforku. Það eitt og sér er næg ástæða til að Ísland segi sig frá þessum úrelta samningi.


mbl.is Tímabundin EES-aðild ekki í boði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkisrekinn einkarekstur

Svokallaður einkarekstur í heilbrigðisþjónustu er nær allur greiddur af ríkinu. Enginn sérfræðilæknir stendur undir sjálfum sér án þess að ríkið borgi með sjúklingum.

Talsmaður sérfræðilækna segir: 

Mér sýn­ist það vera stefn­an að reyna af öll­um mætti að leggja niður þjón­ustu sjálf­stætt starf­andi sama hversu góð, ódýr eða skil­virk hún er...

Þessi orð eru blekking. Sérfræðilæknar hafa ekki áhuga að standa á eigin fótum og afla sér tekna með sjálfstæðum rekstri án aðkomu ríkisins. Þeir vilja ríkistryggðan einkarekstur. Sem er álíka og að tala um hringlaga þríhyrning.

 


mbl.is Fórnað á altari opinbers reksturs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkið veitir möguleika til auðlegðar en líka fátæktar

Ríkið á að veita grunnþjónustu, sveitarfélög félagsþjónustu. Hið opinbera á ekki að útvega okkur vinnu, húsnæði eða maka. Sjálfráða einstaklingar eiga val um menntun, búsetu, starf, makaval og þar fram eftir götunum.

Ef fólk verður fyrir ófyrirséðum skakkaföllum viljum við að það geti leitað til velferðarþjónustu og fengið aðstoð.

Vísasti vegurinn til að glötunar er að láta ríki og sveitarfélög ákveða hvernig við högum lífi okkar, umfram það sem nauðsynlegt er til að samlífið sé sæmilega öruggt og friðsælt.

Sósíalistar af ýmsum sortum gera kröfu um að ríkið stýri lífi okkar. Það er ekki góð hugmynd. Við eigum að standa og falla með okkar eigin ákvörðunum.


mbl.is Ekki töff að nýta sér neyð fólks
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Evrópa: Múhameð frekar en Gestur og Ragnar

Lögmennirnir Gestur Jónsson og Ragnar Hall reyndu að tefja réttarhöldin í Al Thani-málinu þar sem sakborningar voru íslenskir auðmenn.

Mannréttindadómstóll Evrópu grætur þurrum tárum yfir sekt Gests og Ragnars.

Dómstóllinn er næmari á helgi Múhameðs spámanns en íslenskra lagatækna.

Í næstu atlögu að réttarkerfinu ættu þeir Gestur og Ragnar að reyna trúarrök. Það yrði hvorki langsóttara né ósvífnara en tilraunin sem félagarnir stóðu fyrir í auðmannavörninni. 


mbl.is Ríkið braut ekki á lögmönnunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sósíalísk verðbólga

Verðbólga er á uppleið og hagkerfið snöggkólnar með samdrætti í einkaneyslu og fjárfestingum. Meginástæðan fyrir kreppueinkennum er yfirvofandi sósíalísk árás á hagkerfið.

Undir forystu sósíalista ætlar verkalýðshreyfingin að stilla atvinnulífinu upp við vegg og krefjast kauphækkana sem engin innistæða er fyrir. Annars verður skellt í lás með verkföllum.

Launþegar finna þegar fyrir versandi kaupmætti. Sæluríki sósíalista lætur ekki að sér hæða. Það er nóg að finna reykinn af réttunum til að hagkerfið fari í baklás.


mbl.is Kjaramálin ráðandi í verðbólguþróun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skilgreiningu á lofthita breytt í þágu hjávísinda

Stofnun Sameinuðu þjóðanna, IPCC, er miðstöð þeirra hjávísinda sem gefa sér að maðurinn valdi loftslagsbreytingum, t.d. með brennslu jarðefnaeldsneytis.

IPCC breytti nýverið skilgreiningu sinni á lofthita. Nýja skilgreiningin tekur mið af því hvernig lofthitinn verður næstu 15 árin, já, segi og skrifa framtíðarhiti, í samanburði við nýliðin 15 ár.

Vitanlega veit enginn hvert hitastigið á jörðinni verður í framtíðinni. IPCC stendur heldur ekki fyrir vísindarannsóknir heldur er þetta áróðursmiðstöð fyrir gefna niðurstöðu.

Hjávísindi eru skilgreind á Vísindavefnum.


Breki stofnar stjórnmálaflokk

Nýr formaður Neytendasamtakanna, Breki Karlsson, tilkynnir á fyrsta degi í starfi að stjórnmálaflokkur hafi orðið til með kjöri hans í embætti.

Nýi flokkurinn er til höfuðs krónunni. Óvíst er hvort Neytendaflokkurinn halli sér að dollar, evru eða myntkörfu.

Neytendaflokkurinn er í ágætis færum að fá mann á alþingi. Þar eru ekki nema sjö flokkar og auðvitað þurfum við fleiri.


mbl.is Krónan minnir á skopparakringlu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Blaðamenn fá falleinkunn

Stjórnmálamenn eru í návígi við blaðamenn, oft heimildir frétta og þekkja til baksviðs þeirra málefna sem verða að fréttum.

Stjórnmálamenn gefa blaðamönnum og fjölmiðlum falleinkunn, samkvæmt rannsókn Birgis Guðmundssonar, dósents við félagsvísindadeild Háskólans á Akureyri.

Niðurstaðan kemur ekki á óvart. Blaðamenn eru iðulega ekki hótinu betri en þeir sem slengja fram illa ígrunduðum og órannsökuðum fullyrðingum á samfélagsmiðlum.


ASÍ er auðvaldið

Lífeyrissjóðir ráða ferðinni í stærstu fyrirtækjum landsins. Verkalýðshreyfingin stýrir lífeyrissjóðum til jafns við atvinnurekendur. Stjórnir fyrirtækja ákveða laun æðstu stjórnenda. Eftirfarandi tillaga var samþykkti á nýafstöðnu ASÍ-þingi:

að hafna of­ur­bón­us­um og óhóf­leg­um arðgreiðslum til fyr­ir­tækja­eig­enda og að full­trú­ar launþega í líf­eyr­is­sjóðunum ynnu í sam­ræmi við stefnu verka­lýðshreyf­ing­ar­inn­ar. Sam­tök­in vilja að stjórn­ar­menn líf­eyr­is­sjóða beiti sér fyr­ir því að starfs­fólk fyr­ir­tækja njóti arðsemi ekki síður en hlut­haf­arn­ir.

Auðvaldið er sem sagt ASÍ og það er örlátt á bónusa og arð en lætur naumhyggju ráða í launum almennra starfsmanna.

Ný forysta ASÍ auðvaldsins hlýtur að taka til hendinni í stjórn stærstu fyrirtækja landsins og gefa þar með tóninn fyrir annan atvinnurekstur. Þegar kemur að kjarasamningum eru ASÍ félögin að stórum hluta að semja fyrirtæki í eigu launþega. Það ætti ekki að vera flókið.


mbl.is Telur jafnvægi í forystu ASÍ
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband