Sólveig Anna og mótsögn sósíalismans

,,[É]g segi að stjórnmálin séu ónýt," skrifar Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar og félagi í Sósíalistaflokknum og heldur áfram, ,,á endanum ráða ávallt hin grimmu hagnýtingarsjónarmið efnahagslegra forréttindahópa för."

,,Við getum aðeins treyst á samtakamátt okkar, á stéttavitundina okkar og réttlætiskenndina okkar," segir Sólveig Anna í niðurlagi. 

Það liggur í orðum Sólveigar Önnu að til sé eitthvað sem kalla má hagnýtan sósíalisma sem skili okkur réttlátu samfélagi.

Sósíalismi býður aftur ekki upp á neina hagnýta aðferð til að deila gæðum meðal manna. Ef svo væri hefði aðferðin verið nýtt þar sem tilraunir hafa verið gerðar með sósíalisma. Sósíalískt skipulag á efnahagsmálum skilar sér einatt í fátækt alls þorra almennings.

Réttlæti sósíalisma hefur heldur ekki reynst farsælt. Sósíalistar boða ekki aðeins jöfn tækifæri, líkt og borgaraleg stjórnmál, heldur jafna útkomu. Það er mótsögn.

Jöfn tækifæri fela í sér að ólíkir einstaklingar spreyti sig í leik og starfi. Útkoman getur aldrei orðið jöfn sökum þess að einstaklingarnir eru ólíkir. Það er einfaldlega ein af staðreyndum lífsins.

Sósíalíska mótsögnin tekur ekki með í reikninginn margbreytileika mannsins. Það er mergurinn málsins. Leið sósíalista framhjá mótsögninni er að steypa alla í sama mót, með ofbeldi ef ekki vill betur.

Það er betra að búa við ,,ónýt" hversdagsstjórnmál en fullkominn sósíalisma. Mun betra.  

 


Háskóli Íslands: ESB-sinnar tala um fullveldið

Í ár fögnum við aldarafmæli fullveldis þjóðarinnar. Háskóli Íslands bryddar upp á fundi með yfirskriftinni ,,Fullveldið í hættu?". Í pallborði eru þekktir ESB-sinnar sem í ræðu og riti gera lítið úr fullveldinu.

Þau  Silja Bára Ómarsdóttir dósent í stjórnmálafræði, Kristrún Heimisdóttir lögfræðingur og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir alþingismaður eru öll margyfirlýstir ESB-sinnar sem vilja fullveldið feigt.

Þetta er eins og boða til fundar um æskulýðsmál og skipa pallborðið önugum og sínöldrandi gamalmennum.


Þórdís, skrifaðu póst til Brussel

ESB-sinnar og orkupakkafólkið vitnar í Úlfljótsgrein Rögnu Árnadóttur aðstoðarforstjóra Landsvirkjunar til stuðnings 3. orkupakka ESB. Þar eru tvær lykilefnisgreinar. Sú fyrri er þessi:

Flutningur raforku hér á landi er í höndum Landsnets hf. og eru eigendur þess vinnsluaðilar raforku. Slíkt eignarhald væri að öllu jöfnu ekki í samræmi við ákvæði þriðju raforkutilskipunarinnar. Ekki er þó nauðsynlegt að gera breytingar þar á í tilefni af innleiðingu þriðja orkupakkans í íslenskan rétt þar sem Íslandi var veitt undanþága frá þessu skilyrði tilskipunarinnar í fyrrgreindri ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 93/2017.

Það sem sagt liggur fyrir að Ísland getur fengið undanþágu frá tilskipun ESB um raforku. Seinni lykilefnisgreinin:

Mikilvægt er að hafa í huga, þegar rætt er um valdheimildir ACER, sem eru í höndum ESA gagnvart EFTA-ríkjunum, að þessar stofnanir geta einungis tekið bindandi ákvarðanir þegar eftirlitsaðilar í ríkjunum geta ekki náð samkomulagi sín á milli um atriði er varða grunnvirki yfir landamæri. Með öðrum orðum þá gilda þær einungis þegar álitamálið lýtur að tengingum milli landa með flutningslínu eða sæstreng. (undirstr. pv) Raforkukerfi Íslands er ekki tengt við önnur lönd. Af þeim sökum geta ekki komið upp þau tilvik að ESA beiti hinum bindandi valdheimildum gagnvart Orkustofnun.

Í viðtengdri frétt segir að engar hugmyndir eru uppi um að leggja sæstreng til að flytja raforku frá Íslandi til Evrópu.

Að þessu gefnu, undanþágur eru í boði frá raforkutilskipun ESB, og enginn sæstrengur er í bígerð þá er einboðið að Íslandi fái undanþágu frá öllum 3. orkupakkanum. Allur pakkinn skiptir engu máli fyrir Ísland á meðan enginn er sæstrengurinn. Til hvers að fórna sjálfstæðisstefnunni fyrir eitthvað sem engu máli skiptir?

Þórdís, málið er einfalt. Þú sendir Brussel línu um að Ísland segi sig frá raforkumálum í EES-samningnum. Í Brussel hljóta menn að fallast að þetta sjónarmið. Hvorki á Ísland hagsmuni á evrópskum raforkumarkaði né ESB í íslenskri raforku. Við skulum hafa það þannig um hríð.

Og Þórdís, bara okkar á milli, þá mun ég hvorki senda þér né Gulla reikning upp á 25 milljónir fyrir þessa ráðgjöf. Hún er ókeypis.


mbl.is Tengist ekki Atlantic SuperConnection
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 14. nóvember 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband