Áslaug fórnar íslenskunni fyrir alþjóðahyggju

Dómsmála-Áslaug ætlar að fórna íslenskri mannanafnahefð, sem er jafngömul byggð í landinu, í nafni frelsis.

Tveir litlir og léttvægir hópar munu njóta góðs af. Í fyrsta lagi dómgreindarlaust fólk sem velur skrípanöfn á ómálga börn s.s. Mikki Mús, Hrossabrestur, Samfólína og Vér Fáviti. Í öðru lagi þeir sem vilja taka upp erlendan sið og festa sér ættarnöfn.

Íhaldsflokkar um allan heim snúa baki við alþjóðahyggju og kjána-frjálslyndi. Sjálfstæðisflokkur arkar blindur á báðum út í fúafenið sem þjóðhyggjufólk hefur snúið baki við. Frelsið í fúafeninu er hvorki mannbætandi né eykur það tiltrú á flokki sem einu sinni var tákn sjálfstæðis.


mbl.is Engar „stórkostlegar breytingar í frjálsræðisátt“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aðskilnaður ríkis og RÚV tímabær

RÚV er ríki í ríkinu. Á meðan aðrir fjölmiðlar lepja dauðann úr skel fitnar RÚV eins og púkinn á fjósabitanum. Formaður stjórnar RÚV er fyrrum fréttastjóri stofnunarinnar. Stjórnin að öðru leyti er skipuð fulltrúum stjórnmálaflokka sem eiga allt undir að starfsmenn RÚV hleypi þeim að hljóðnema og í myndver.

RÚV fer ekki að lögum nema þegar það hentar. RÚV leggur leyndarhjúp yfir umsækjendur um stöðu útvarpsstjóra. Þannig skapast svigrúm til baktjaldamakks um að handvelja einhvern þægan í taumi stjórnenda og starfsfólks á Efstaleiti.

Einokunarstaða RÚV skekkir fjölmiðlun á Íslandi og skaðar frjálsa umræðu. Dagskrárvaldi er iðulega misbeitt þar maður og annar eru teknir af lífi með ásakanaherferðum RÚV.

Almenningur er látinn borga, getur ekki valið sig frá því að styðja RÚV. Við erum ekki með greiðsluskyldu að neinu nema kirkjugarðsgjaldi og RÚV. Allir deyja einn góðan veðurdag. En lifandi eigum við ekki að búa ævina langa við skattgjald Gróu á Efstaleiti.


mbl.is Ákvörðunin í skásta falli heimskuleg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aftaka í London

Hnífamaðurinn í London var tekinn af lífi af lögreglu eftir að hafa verið afvopnaður af almenningi. Myndskeið staðfesta aftökuna á vopnlausum liggjandi manni.

Lundúnalögreglan tók 3 hnífamenn af lífi á sama vettvangi fyrir tveim árum og annan til í Westminster-hverfinu.

Fjölmenningin í Lundúnum er komin á það stig að þungvopnaðar opinberar aftökusveitir eru reiðubúnar alla daga ársins til að eiga orð við þá sem svala trúarþörfinni með blóði almennra borgara.


mbl.is Einar sá fólk flýja frá London Bridge
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Andri Snær boðar þöggun í nafni vísinda

Richard Lindzen, Judith Curry og Roy Spencer eru vísindamenn með langan og traustan feril á sviði loftslagsvísinda. Þau kaupa ekki rök Al Gore, Grétu Thunberg og Andra Snæs Magnasonar um að heimurinn sé að farast vegna hlýnunar af mannavöldum.

700 vísindamenn og sérfræðingar skrifuðu undir yfirlýsingu þar sem áróðri Gore, Thunberg og Andra Snæs er mótmælt.

Andri Snær vill þagga niður í öllum sem ekki skrifa upp á hamfaratrú. Eiginlega er krafa rithöfundarins of fáránleg til að eyða orðum á. Samt, þegar Gorar, Grétur og Andrar eru umræðustjórar er voðinn vís. Það er ekki veðrið sem mun leiða yfir okkur hamfarir heldur vitleysan.

 


mbl.is Óboðleg umræða afneitunarsinnna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

RÚV játar: umræðan er okkar fag, ekki fréttir

Í gærkvöld birtir RÚV yfirlýsingu. Þar segir m.a.:

Ásak­an­ir Sam­herja í garð frétta­manns­ins um ósann­indi eru frá­leit­ar. Virðast í raun snú­ast um til­raun fyr­ir­tæk­is­ins til að af­vega­leiða umræðuna...

Það var og, ,,afvegaleiða umræðuna".

Umræða er skoðanir og ályktanir. Fréttir eru allt annað. Þær segja frá staðreyndum. 

Einn af samstarfsmönnum RÚV í Samherjamálinu, Kristinn Hrafnsson ritstjóri Wikileaks, útskýrir hvernig staðið er að ,,umræðu" af þessu tagi:

 Ég held líka al­mennt séð að þessi birt­ing og þessi um­fjöll­un sé ákveðinn próf­steinn og prófraun á ís­lenskt sam­fé­lag, og einnig á ís­lenska fjöl­miðla, hvernig þeir mat­reiða og verka þessi mál, sér­stak­lega með til­liti til þess hvernig eign­ar­haldið er þar víða.

Það á sem sagt að ,,matreiða og verka" málsatvik til að þau falli að fyrirframgefinni niðurstöðu. Allir fjölmiðlar verða að taka þátt - ,,matreiða og verka" - til að umræðan nái tilgangi sínum: að sanna sekt Samherja. Sem var fyrirfram ákveðin.

Á Efstaleiti er orðið ,,umræða" notað um þá sannfæringu að ásökun jafngildi sekt.

RÚV snýr meginreglu réttarríkisins á hvolf. Nú skal sá ákærði sanna sakleysi sitt. Gildir um alla. Nema RÚV, auðvitað. 


mbl.is Fráleitar ásakanir Samherja um ósannindi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Örvænting á RÚV: óspilltur Namibíumaður til hjálpar

RÚV er með fastagest frá Namibíu í fréttatímum. Sá heitir  Paulus Noa og er yfirmaður ACC, spillingarlögreglu Namibíu. Í fréttatíma kvöldsins spyr Paulus Noa fyrir hönd RÚV: ,,Ef ég mætti spyrja ykkur, Íslendinga; hvað eruð þið að gera í rannsókn á ykkar fólki?"

Paulus Noa var í gærkvöld í fréttum RÚV og sagði Samherjarannsóknina hafa staðið yfir í eitt ár. Fyrirsögnin var krassandi: ,,Spillingin drepur blátt áfram fólk."

Paulus Noa er ekki pottþéttur með dagsetningar, ekki frekar en RÚV með heimildir og ásakanir. Noa segir í RÚV fyrir hálfum mánuði, 13. nóvember, að múturannsóknin hafi staðið yfir frá 2014. En einmitt á þeim tíma kastaðist í kekki milli Samherja og viðskiptafélaga í Namibíu er leiddi síðar til málaferla þar syðra.

En hvað skiptir það máli hvort rannsóknin hafi byrjað fyrir fimm árum eða einu, aðalatriðið er að negla Samherja, bæði sunnan og norðan miðbaugs.

Í frétt sem skrifuð er laust fyrir miðnætti í gærkvöldi á RÚV, jú menn leggja á sig yfirvinnu í þágu málstaðarins, segir að Samherjamenn séu nafngreindir í ákæru - jú, hvers annars en Paulus Noa. Eini maðurinn sem ekki er nafngreindur er Jóhannes Stefánsson, fyrrverandi verkefnisstjóri Samherja í Namibíu, sem játað hefur að hafa greitt mútur.

Jóhannes er uppljóstrari Paulus Noa og nýtur friðhelgi. Báðir eru algjörlega óspilltir, það vita bæði guð og RÚV. 


mbl.is Á ekki og hefur aldrei átt Cape Cod FS
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Formaður Viðreisnar: bæjarútgerðir, já takk

Þorgerður Katrín formaður Viðreisnar er þá sósíalisti inn við beinið. Hún vill nota stjórnarskrá lýðveldisins til að koma málum svo fyrir að eingöngu opinberar útgerðir dragi fisk á Íslandsmiðum.

Í orði kveðnu þykist Viðreisn frjálslyndur hægriflokkur. Tillögur flokksins ganga þó oftar en ekki út á aukin ríkisafskipti.

Viðreisn sósíalískra bæjarútgerða toppar þó flest annað frá flokki ESB-sinna.


mbl.is Tryggja varanlegt eignarhald þjóðarinnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Helgi Seljan styður arfleifð apartheit

Suður-Afríka lagði undir sig Namibíu í fyrra stríði og innleiddi apartheit-stefnu þar sem hvít yfirstétt arðrændi þeldökkan almúga. Helgi Seljan tekur málstað fyrirtækja gamla nýlenduveldisins til að koma höggi á útgerð Samherja í Namibíu.

Namibía fékk sjálfstæði 1990 og freistar þess að losa um tök suður-afrískra fyrirtækja sem ráða lögum og lofum í landinu frá tímum apartheit-stefnunnar.

Helgi Seljan og RÚV eru orðnir bandamenn fyrirtækja gamla nýlenduveldisins í baráttu um að halda stöðu sinni í Namibíu.

Svo bregðast krosstré sem önnur tré.

 


mbl.is Segja Helga Seljan ítreka ósannindi um Samherja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jóhannes leki verður Jóhannes fjármálaskýrari

Þegar Jóhannes Stefánsson kynnti sig fyrir alþjóð, í alræmdum Kveiks-þætti, sagðist hann vera sjómaður og hafa síðar unnið sig upp í Samherja. Að lokum komist Jóhannes í þá stöðu að borga mútur, að eigin sögn, til namibískra stjórnmálamanna fyrir veiðiheimildir.

Allt gott um það að segja, nema auðvitað, fyrir þá sem eru Samherjamegin í tilverunni.

En Jóhannes leki virðist líka vera kunnáttumaður um alþjóðleg bankaviðskipti. Jóhannes furðar sig á að Den Norske Bank, DNB, ,,hafi ekki spurt fleiri spurn­inga. „Því að þetta eru svo mikl­ir fjár­mun­ir,“ seg­ir Jó­hann­es."

Ha? Miklir peningar? Einhverjir tugir eða hundruð milljónir íslenskra króna eru kannski miklir peningar íslensks sjómanns en tæplega stórfúlgur í alþjóðabanka. Frekar skiptimynt.

Jóhannes leki er trúverðugur um þau málefni sem hann ætti að vera í aðstöðu til að þekkja. Ef hann segir ekki ósatt. Þegar sjómaður og samherjastrákur þykist vita hvernig alþjóðlegir bankar haga sér skortir trúverðugleika.

En, hey, RÚV-drengirnir eru orðnir sérfræðingar um namibísk stjórnmál eftir tvær heimsóknir til landsins. Auðvitað getur Jóhanns orðið sérfræðingur í bankastarfsemi eftir fáeinar millifærslur.


mbl.is Engin tilviljun að Samherji valdi DNB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

RÚV týnir 4 ára spillingarrannsókn í Namibíu - viljandi

Í gær segir RÚV að múturannsókn á Samherja í Namibíu hafi staðið yfir ,,í rúmt ár" eða frá árinu 2018. Fyrir tveim vikum birti RÚV frétt með þessari fyrirsögn: ,,Mútumálið hefur verið til rannsóknar frá 2014".

Þarna á milli eru 4 ár. Í upphafi atlögunnar að Samherja fyrir tveim vikum þótti henta að namibísk stjórnvöld hefðu verið með Samherja til rannsóknar í fimm ár, frá 2014. Það þurfti að búa til þá ímynd að hér væri alvörumál á ferðinni en ekki fréttahönnun á Efstaleiti.

Tveim vikum síðar þykir hagfelldara að namibíska rannsóknin sé á frumstigi. RÚV er komið í kjörstöðu þar sem fólk keypti upphaflega tilbúninginn. Næsta stig er að sækja að þeim sem eru viðkvæmari fyrir árásum en forsvarsmenn Samherja. RÚV ætlar að liggja utan í embættismönnum og ráðherrum á Íslandi og spyrja kvölds og morgna: draga íslensk yfirvöld lappirnar við að hjálpa Namibíumönnum að afhjúpa Samherjaspillinguna? Kveiksþátturinn í gærkvöldi lagði grunninn. Myndefnið var sveltandi börn í Afríku. Skilaboðin þau að Bjarni, Katrín og Kristján beri ábyrgð.

RÚV veit sem er að þegar tekst að gera íslenska ráðherra og embættismenn að skotmarki er sigur í sjónmáli. Þeir ekki tala við RÚV, af því þeir vilja ekki svara röngum ásökunum, fá reglulega frétt um sig að neita að svara skilaboðum fréttamanna. Þannig eru ráðamenn sýndir á flótta frá handhafa almenningsálitsins, sem auðvitað er sjálft RÚV. Á Efstaleiti kunna menn fréttaeinelti - stundum kallað ,,að taka menn niður."

RÚV er komið á gamalkunnugt stig í ásakanablaðamennsku. Staðreyndir eru búnar til eftir því sem ,,umræðan" krefst á hverjum tíma og fréttamenn hundelta sérvalin fórnarlömb. 

Ein tegund spillingar er falskar ásakanir. Spilling af þessu tagi er því verri sem ásetningurinn er staðfastari.

Brotavilji RÚV er einbeittur. Valdið er á Efstaleiti og þar sæta menn aldei ábyrgð.

 


mbl.is Segja fullyrðingar Helga „gróf ósannindi“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband