Rangt skipulag felldi okkur

Íslenska liðið spilaði Nígeríuleikinn eins og þann á móti Argentínu. Þeir gáfu andstæðingnum 2/3 hluta vallarins og treystu á langspyrnur og löng innköst.

Nígeríski þjálfarinn var búinn að sjá þetta fyrir, sagði sínum mönnum að sækja hratt í seinni hálfleik og hafði verðskuldaðan sigur.

En, sem sagt, lífið er meira en fótbolti.

 


mbl.is Erfið staða eftir ósigur í Volgograd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dagur úti, Guðni heima

Borgarstjóri fer til Rússlands að horfa á landslið Íslands, og væntanlega styðja það, en forsetinn situr heima.

Hvað veldur?


mbl.is Dagur mættur til Volgograd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eiginkonan, jakkinn og endurkjörið

Tilfinningar eru stór hluti stjórnmála. Upplýsingar og rök eru tjáðar með tölum og orðum en tilfinningatjáning nýtir breiðari boðskipti, svo sem myndmál af ýmsu tagi (broskalla, reiðimerki og svo framvegis). Tilfinningar eru margræðari en upplýsingar og rök. 

Jakkinn sem forsetafrú Bandaríkjanna klæddist fyrsta áfangann á leið sinni í heimsókn í búðir ólöglegra innflytjenda var myndmál með setningunni „Mér er alveg sama, hvað með þig?“

Samfélags- og fjölmiðlar hrukku í yfirgír að túlka skilaboðin. Sjálfgefið þótti að jakkinn geymdi pólitísk skilaboð. Í ógrynni af tístum, bloggfærslum og fréttum er rætt um hver skilaboðin eru og hverjum þau eru ætluð.

Jakkinn kostar 30 dollara, um 3000 kr., í tískuverslun. Forseti sem á eiginkonu sem þarf ekki annað en að kaupa sér ódýran jakka til að tröllríða öllum boðskiptakerfum þarf ekki að hafa áhyggjur af endurkjöri. Trumphjónin eru einfaldlega of yfirþyrmandi til að nokkur komist með tærnar þar sem þau hafa hælana - ég meina jakkann.

 

 


mbl.is „Mér er alveg sama, hvað með þig?“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tveir gildisdómar í þágu tjáningarfrelsis

Jón Steinar Gunnlaugsson viðhafði gildisdóm í umræðu um dómsniðurstöðu hæstaréttar, þar sem m.a. orðið ,,dómsmorð" kom fyrir, segir í sýknu héraðsdóms. Í öðru meiðyrðamáli sem hæstiréttur úrskurðaði i dag var ítrekað að gildisdómar skulu refsilausir.

Báðir dómarnir staðfesta dómafordæmi seinni ára um að tjáningarfrelsið nýtur meiri verndar en æra manna þegar gildisdómar eru annars vegar.

Æra manna er vernduð gagnvart ásökunum um glæpi, það telst staðhæfing um staðreynd og er refsiverð.

Dómstólar eru á réttu róli í meiðyrðadómum síðustu ár. Það var heldur klént hér áður þegar menn voru dæmdir vegna þess að einhver móðgaðist og fór í mál.


mbl.is Jón Steinar sýknaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jens til í Trump-Pútín fund

Nató er hlynnt fundi forseta Bandaríkjanna og Rússlands, segir aðalritari hernaðarbandalagsins, Jens Stoltenberg. Þetta er stefnubreyting. Tilvist Nató, sem er hernaðarbandalag úr kalda stríðinu, byggir á að gera sem mest úr hættunni af rússneskri hernaðarógn.

Trump hefur lýst yfir áhuga að hitta starfsbróðir sinn í Moskvu en herskáir frjálslyndir, bæði í Bandaríkjunum og Evrópu, lagst gegn þíðu í samskiptum stórveldanna.

Afstaða Stoltenberg er vísbending um að Nató vilji þóknast Trump, sem hefur verið allt annað en vinsamlegur gagnvart hernaðarbandalaginu og sagt það lifa sníkjulífi á hernaðarmætti Bandaríkjanna.


Trump og Evrópa gegn Merkel

Evrópa er á móti stefnu Merkel í málefnum flóttamanna, segir aðalstjórnmálaskýrandi þýsku útgáfunnar Die Welt. Merkel kanslari er holdgervingur frjálslyndrar flóttamannastefnu. Handan Atlantsála gagnrýnir Trump forseti opingáttarstefnu þýska kanslarans.

Austur-Evrópa, nánast í heild, er móti Merkel. Í Vestur-Evrópu eru á síðustu misserum komnir til valda andstæðingar frjálslyndrar flóttamannastefnu, t.d. í Austurríki og Ítalíu.

Frjálslynd stefna í málefnum flóttamanna skapar fleiri vandamál en hún leysir. Almenningur kýs að verja landamæri þjóðríkja sinna gegn ásókn framandi menningar sem reynslan sýnir að aðlagast illa eða alls ekki vestrænni menningu. 


mbl.is Ræða flóttamannavanda á óformlegum fundi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ASÍ missir kjölfestuna - verkó sundrast

Forseti ASÍ er flæmdur úr embætti af herskáum félögum sem berjast undir rauðum fána sósíalisma. Gylfi Arnbjörnsson er í áratug búinn að vera kjölfesta ASÍ og tók verkalýðshreyfinguna í gegnum brimskafl hrunsins.

Herskáu sósíalistarnir njóta einskins trúnaðar úti í samfélaginu og lítils í verkalýðshreyfingunni sjálfri. Þeir komust til valda vegna sinnuleysis almennra félagsmanna að kjósa sér forystu.

Brotthvarf Gylfa er fyrsta áþreifanlega merkið um sundrungu verkalýðshreyfingarinnar. Heildarsamtökin missa kröftugan og raunsæjan talsmann sem fipaðist aðeins í einu máli, sem þó var verulega stórt; afstöðunni til ESB.


mbl.is Gylfi ekki áfram forseti ASÍ
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Krónan gerir vaxtabreytingar óþarfar

Dollarinn kostaði undir 100 krónum fyrir ári. Í dag er hann tíu krónum dýrari. Útflutningsgreinar fá í kringum tíu prósent afkomubata og það dregur úr kaupum á erlendri vöru og þjónustu.

Aðlögun krónunnar að breyttum efnahagsaðstæðum, minni aukningu ferðamanna, gerir vaxtalækkun óþarfa. 

Vaxtalækkun kæmi aðeins til greina ef yfirstandandi þensla snýst í samdrátt. Ef atvinnuleysi fer yfir 5 prósent í einhver misseri mætti athuga vaxtalækkun.

Vextir eru það lágir núna að almennir bankavextir halda ekki í verðbólgu, sem þó er lág.

Látum krónuna, næst mikilvægustu stofnun landsins á eftir lýðveldinu, finna jafnvægið í efnahagslífinu.


mbl.is Lán til heimila í erlendum myntum nær engin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Landamæri og hópsálin

Hvert okkar óttast snertingu ókunnugra. Maðurinn þarf mörk milli sín og annarra. Ósjálfráð viðbrögð, þegar við óvart rekumst á annað fólk, er að biðjast afsökunar. Það er aðeins þegar múgur myndast að við afklæðumst óttanum enda erum við orðin hluti af hópsál.

Á þessa leið skrifar nóbelsverðlaunahöfundurinn Elias Canetti í bókinni Múgur og máttur

Umræðan um öryggi landamæra, bæði í Bandaríkjunum og í Evrópu, snertir andstæðurnar í greiningu Canetti. Í einn stað viljum við mörk milli okkar og annarra en í annan stað verður reglulega til múgur sem andmælir þeirri sérvisku.

Múgur samtímans, hópsálin, verður til á samfélagsmiðlum. Eitt einkenni múgsins, sagði Canetti fyrir bráðum 60 árum, er hvatvísi. En mikilvægasta einkennið, það sem skilgreinir múginn, er útrásin. Við útrásina fær hópsálin afl til að láta til sín taka.

Í nettengdum heimi er hópsálin sjálfri sér lík, hvort heldur í Washington eða Reykjavík. 


mbl.is Herra forseti átt þú ekki börn?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Trump-Hitler umræðan

Sú hefð að aðskilja foreldra og börn ólöglegra innflytjenda í Bandaríkjunum hófst fyrir forsetatíð Trump. Hugsunin að baki var að börn ættu ekki heima í varðhaldi líkt og fullorðnir. Á samfélagsmiðlum og í fjölmiðlum er þessu fyrirkomulagi líkt við fangabúðir nasista. Hugrenningatengslin eru þau að Trump sé nýr Hitler.

Þegar ýkjur og stríðsyfirlýsingar af þessu tagi eru daglegur fréttamatur er hætt við að fólk fái sérkennilegar hugmyndir, t.d. að Hitler hafi ekki verið annað en miður geðþekkur stjórnmálamaður og Auschwitz tiltölulega saklaust varðhald.

Umræða á þessum nótum þjónar þeim eina tilgangi að lýsa hneykslun (reiði, andstyggð) en stóryrðin og samlíkingarnar er svo yfirgengilegar að fólk nennir ekki að hneykslast, reiðast eða fyllast andstyggð. Fólk afgreiðir umræðuna sem merkingarlausan hávaða.


mbl.is „Ekkert líkt útrýmingarbúðum nasista“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband