ASÍ missir kjölfestuna - verkó sundrast

Forseti ASÍ er flæmdur úr embætti af herskáum félögum sem berjast undir rauðum fána sósíalisma. Gylfi Arnbjörnsson er í áratug búinn að vera kjölfesta ASÍ og tók verkalýðshreyfinguna í gegnum brimskafl hrunsins.

Herskáu sósíalistarnir njóta einskins trúnaðar úti í samfélaginu og lítils í verkalýðshreyfingunni sjálfri. Þeir komust til valda vegna sinnuleysis almennra félagsmanna að kjósa sér forystu.

Brotthvarf Gylfa er fyrsta áþreifanlega merkið um sundrungu verkalýðshreyfingarinnar. Heildarsamtökin missa kröftugan og raunsæjan talsmann sem fipaðist aðeins í einu máli, sem þó var verulega stórt; afstöðunni til ESB.


mbl.is Gylfi ekki áfram forseti ASÍ
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Krónan gerir vaxtabreytingar óþarfar

Dollarinn kostaði undir 100 krónum fyrir ári. Í dag er hann tíu krónum dýrari. Útflutningsgreinar fá í kringum tíu prósent afkomubata og það dregur úr kaupum á erlendri vöru og þjónustu.

Aðlögun krónunnar að breyttum efnahagsaðstæðum, minni aukningu ferðamanna, gerir vaxtalækkun óþarfa. 

Vaxtalækkun kæmi aðeins til greina ef yfirstandandi þensla snýst í samdrátt. Ef atvinnuleysi fer yfir 5 prósent í einhver misseri mætti athuga vaxtalækkun.

Vextir eru það lágir núna að almennir bankavextir halda ekki í verðbólgu, sem þó er lág.

Látum krónuna, næst mikilvægustu stofnun landsins á eftir lýðveldinu, finna jafnvægið í efnahagslífinu.


mbl.is Lán til heimila í erlendum myntum nær engin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Landamæri og hópsálin

Hvert okkar óttast snertingu ókunnugra. Maðurinn þarf mörk milli sín og annarra. Ósjálfráð viðbrögð, þegar við óvart rekumst á annað fólk, er að biðjast afsökunar. Það er aðeins þegar múgur myndast að við afklæðumst óttanum enda erum við orðin hluti af hópsál.

Á þessa leið skrifar nóbelsverðlaunahöfundurinn Elias Canetti í bókinni Múgur og máttur

Umræðan um öryggi landamæra, bæði í Bandaríkjunum og í Evrópu, snertir andstæðurnar í greiningu Canetti. Í einn stað viljum við mörk milli okkar og annarra en í annan stað verður reglulega til múgur sem andmælir þeirri sérvisku.

Múgur samtímans, hópsálin, verður til á samfélagsmiðlum. Eitt einkenni múgsins, sagði Canetti fyrir bráðum 60 árum, er hvatvísi. En mikilvægasta einkennið, það sem skilgreinir múginn, er útrásin. Við útrásina fær hópsálin afl til að láta til sín taka.

Í nettengdum heimi er hópsálin sjálfri sér lík, hvort heldur í Washington eða Reykjavík. 


mbl.is Herra forseti átt þú ekki börn?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 20. júní 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband