Trumpsósíalismi

Ítarleg úttekt bandarísku vinstriútgáfunnar The Nation á sigri sósíalistans Alexandriu Ocasio-Cortez í forkosningum demókrata í New York minnist ekki einu orði á að frambjóðandinn taki afstöðu gegn stefnu Trump forseta.

Allt púðrið fer í að útskýra að sigurinn sé á kostnað valdaelítunnar í Demókrataflokknum. Ocasio-Cortez var stuðningsmaður Bernie Sanders sem keppti við Hillary Clinton um að verða forsetaframbjóðandi Demókrataflokksins.

Ocasio-Cortez sækir fylgi til sömu kjósendahópa og Trump, láglaunafólks og lægri millistéttanna. Menntun og heilbrigðisþjónusta eru ær og kýr Ocasio-Cortez, samkvæmt fréttaskýringu The Nation.

Donald Trump verður seint kenndur við sósíalisma. En hann bæði höfðar til og ræktar sambandið við lágtekjufólk. Tollastríð Trump við Kína og Evrópu er háð í þágu almennra launaþega sem munu njóta minna atvinnuleysis og hærri tekna - það er a.m.k. kenningin.

Frá vinstri setur fólk eins og Bernie Sanders og núna Ocasio-Cortez kröfur á oddinn um betra aðgengi lágtekjuhópa að menntun og heilbrigðisþjónustu. Bandarísku sósíalistarnir nota ekki slagaorð Trump, ,,Make America Great Again", en skjólstæðingarnir eru þeir sömu.

Það er helst í málefnum innflytjenda sem skerst í odda með bandarískum sósíalistum og Trump. Ocasio-Cortez vill afnema ICE, ríkisstofnun á sviði innflytjendamála. En hún mun seint boða óheftan innflytjendastraum til Bandaríkjanna. Það kæmi niður á hagsmunum skjólstæðinganna, sem keppa við innflytjendur um atvinnu og húsnæði.

Trumpsósíalismi er blanda af íhaldssemi og framsækni í þágu milli- og lágtekjuhópa. Stefna af þessu tagi gæti gefið tóninn í bandarískri pólitík næstu árin. Vel að merkja undir öðru nafni. Verði barn í brók fær það kannski heitið ameríkusósíalismi.  


mbl.is Nýliðinn sigraði reynsluboltann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samfélagsfjölmiðlar í eineltisham

Fjölmiðlar taka æ oftar mið af samfélagsmiðlum þar sem fyrst er skotið en síðan spurt. Samfélagsfjölmiðlar sem nota fyrirsagnir eins og ,,Íbúð í Hlíðunum var útbúin til nauðgana“ og ,,Tveir karlar, grunaðir um hrottaleg kynferðisbrot, ganga lausir" stunda einelti en ekki blaðamennsku.

365-miðlar fóru langt yfir strikið í umfjöllun um nauðgunarkærur sem rannsókn leiddi í ljós að væru tilhæfulausar.

Dómur hæstaréttar er ekki atlaga að fjölmiðlafrelsi heldur áminning um að samfélagsfjölmiðlar komast ekki refsilaust að upp með að hirða æruna af fólki með ásökunum um alvarlega glæpi.


mbl.is „Enn ein atlagan að fjölmiðlafrelsi“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 27. júní 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband