Gulli, Jens og vestræna uppgjörið

Guðlaugur Þór utanríkis og Jens Stoltenberg aðalritari Nató (skemmtilegt kommúnískt starfsheiti) eru báðir með böggum hildar vega uppgjörs Bandaríkjanna og Evrópusambandsins.

Skiljanlega. Bandaríkin halla sér að raunsærri íhaldsstefnu í málefnum flóttafólks, loftslags og öryggis. Evrópusambandið, þ.e. embættismannaveldið í Brussel, er á kafi í frjálslyndri fjölmenningu sem almenningur í Evrópuríkjum vill ekkert með hafa, samanber Brexit og þingkosningar í Þýskalandi, Austurríki og Ítalíu síðustu misseri.

Frjálslynda fjölmenning ESB er komin á endastöð og þótt fyrr hefði verið. Hún byggir á mótsögnum annars vegar (um að múslímamenning geti þrifist í vestrænum ríkjum) og hins vegar Rússafóbíu um að Pútín sé þess albúinn að leggja undir sig Evrópu.

Raunsæ íhaldsstefna er rétta svarið við frjálslyndri fjölmenningu. En það tekur tíma að fólk átti sig á pólitískum veðrabrigðum. Sá tími kallast uppgjör. 

 


mbl.is Forðast viðskiptahindranir vegna Brexit
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ESB bútar niður fullveldi Íslands

Evrópusambandið tekur einhliða ákvarðanir um að innanríkismálefni EFTA-ríkjanna, þar sem Ísland er með Noregi og Liechtenstein, skuli færð undir sambandið. Persónuverndarlöggjöfin er aðeins eitt dæmi, annað er málefni raforkumála.

Á meðan Ísland er selt undir EES-samninginn mun Evrópusambandið halda áfram að sækja sér valdheimildir um íslensk innanríkismál. Það er beinlínis hluti af stjórnsýslu sambandsins að auka valdheimildir sínar á kostnað þjóðríkja. Þetta gerist bæði innan ESB og enn frekar gagnvart EFTA-ríkjunum.

Ísland verður að móta sér stefnu um að ganga úr EES-samstarfinu. Annars mun Evrópusambandið ganga að fullveldinu dauðu - með því að skera það niður í litla búta og hirða þá til sín einn í einu.


mbl.is „Þetta skapar afleitt fordæmi“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

mbl.is viðkvæmt fyrir svartsýni vinstrimanna

Í frétt mbl.is af bjartsýni-svartsýni eftir stjórnmálaskoðunum eru ekkert sagt af svartsýni vinstrimanna. Á Eyjunni segir aftur

Svartsýnastir eru stuðningsmenn Pírata, en 49% þeirra telja að Ísland komist ekki upp úr riðlinum. Það sama segja 48% þeirra sem kusu Samfylkinguna.

Óþarfi er af mbl.is að ritskoða svartsýni vinstrimanna. Hún er alþekkt.


mbl.is Íslendingar nokkuð bjartsýnir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ísland og Bretland eftir Brexit

Íslendingar  og Bretar eiga sameiginlega hagsmuni á sviði stjórnmála, viðskipta, öryggismála og ekki síst menningarmála, eins og sendiherra Breta hér á landi rekur í Morgunblaðsgrein.

Bretland er á leið úr Evrópusambandinu, eftir þjóðaratkvæðagreiðslu, Brexit. Bretar ætla ekki að gangast undir EES-samninginn, sem kveður á um samskipti okkar og Norðmanna við Evrópusambandið.

EES-samningurinn er fyrir þjóðir á leið inn í Evrópusambandið. Ísland er ekki á þeirri vegferð. Af því leiðir ættum við að segja upp aðild okkar að EES-samningnum.


Höfðingjadirfska þjóðarsálarinnar

Ekki er sjálfsagt að Ísland spili á heimsmeistaramóti vinsælustu íþróttar veraldar. Enn síður að þjóðarliðið nái árangri á þeim vettvangi. Stigið á móti Argentínu var árangur, þótt flestum þætti klént ef þau verða ekki fleiri.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra nefndi einn þátt þjóðarsálarinnar sem án efa er hluti skýringarinnar á árangri landsliðsins. ,,Höfðingjadirfska" er samtímalýsing á Elku Björnsdóttur alþýðukonu sem skrifaði dagbókarfærslu fyrir hundrað árum og Katrín gerði að umtalsefni í lýðveldisávarpinu.  

Höfðingjadirfska er að Ísland geri sig gildandi á sama vettvangi og Ronaldo, Messi og félagar. Þessi þáttur þjóðarsálarinnar skilar okkur árangri sem samkvæmt tölfræði ætti ekki að vera mögulegur.

Höfðingjadirfska er vandmeðfarinn eiginleiki. Hún getur á augabragði breyst í hjárænulega afdalamennsku ef ekki fylgir henni innistæða raunsæis, vinnusemi og þrautseigju. Við sáum það þegar Ísland ætlaði sér sæti í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna og einnig þegar glæpavæddir bankamenn töldu stjórnvöldum trú um að landið gæti orðið alþjóðleg fjármálamiðstöð.

Höfðingjadirfska og oflátungsháttur eru hvort tveggja drættir í þjóðarsálinni og eiga það til að víxlast.


mbl.is Góð áhrif á þjóðarsálina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Smána yfirvaldið en krefjast fullrar þjónustu

Anarkistahópur vanvirðir og smánar lögmæt yfirvöld með táknrænum hætti á alþingi og við stjórnarráðið. Einn úr hópnum fer á framandi vígaslóðir og tekur upp vopn í þjóðastríði Kúrda og Tyrkja. Engar staðfestar fréttir eru af afdrifum unga mannsins, Hauks Hilmarssonar. 

Anarkistahópur Hauks heldur áfram að smána og vanvirða yfirvöld um leið og hópurinn krefst fullrar þjónustu sömu yfirvalda að hafa upp á Hauki og fá staðfestingu hvort hann sé lífs eða liðinn.

Réttur Hauks, rétt eins og allra lögráða Íslendinga, er að gera það úr lífi sínu sem hugurinn stendur til. Á Íslandi gilda lög og reglur sem þegnar landsins eru skyldir að fara eftir. Á ófriðarslóðum gilda aðrar reglur, stundum engar. Þar eru menn mönnum úlfar, drepa og eru drepnir.

Vonandi kemur á daginn að Haukur sé heill á húfi. Hafi hann fallið í stríðsátökum væri mannúð að gefa ættingjum og ástvinum Hauks upplýsingar um hvernig dauða hans bar að garði og afhenda jarðneskar leifar hans.

Mannúð er sjálfsögð á Íslandi. Víða um lönd er hún það ekki. Anarkistar mættu hafa það í huga næst þegar þeir efna til aðgerða gegn táknum lýðveldisins.


mbl.is Handtekinn á þaki Stjórnarráðsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jón og hversdagsfullveldið

Ein 65 ár voru frá andláti Jóns Sigurðssonar (1811-1879) þegar ákveðið var að fæðingardagur hans skyldi verða þjóðhátíðardagur Íslands, frá og með lýðveldisstofnun 1944. Ástæða vegsemdar Jóns er að finna í grein sem hann skrifaði nær hundrað árum áður, Hugvekja til Íslendinga, og birtist í Nýjum félagsritum 1848.

Í Hugvekjunni lagði Jón grunninn að fullveldisbaráttunni. Í meginatriðum voru sjónarmið Jóns þríþætt. Í fyrsta lagi að Íslendingar væru sérstök þjóð, aðgreind með búsetu, tungumáli og sögu frá Norðmönnum og Dönum.

Í öðru lagi að Íslendingar hefðu hvorki fallist á að Ísland yrði hluti af þjóðríki Noregs með Gamla sáttmála 1262/1264 né þjóðríki Danmerkur með konungshyllingunni 1662. Í báðum yfirlýsingunum, sagði Jón, var aðeins um það að ræða að Íslendingar féllust konungdóm norska konungsins og síðar þess danska.

Þriðja meginröksemd Jóns var að Íslandi yrði aldrei stjórnað, svo vel færi, með því að æðsta yfirvaldið í málefnum þjóðarinnar væri í Kaupmannahöfn. Í Hugvekjunni tilfærir Jón nokkur dæmi um hve ónýtt fyrirkomulagið er og segir síðan

það mætti vera þegar fullsannað, að það er verður ómögulegt að stjórna Íslandi frá Kaupmannahöfn, á sama hátt og hingað til, nema svo sé, að skjóta eigi loku fyrir alla framför landsins framar enn nú er.

Jón talar hér fyrir hversdagsfullveldinu sem við dags daglega göngum að vísu; að ákvarðanir um íslensk málefni séu teknar á Íslandi.

Án hversdagsfullveldisins væri ekki búandi á Íslandi. Jón og kynslóðirnar sem komu á eftir áttuðu sig á þessum hversdagssannindum. Nema kannski fáeinir kratar.


Eiffel-turninn víggirtur gegn fjölmenningu

Eiffel-turninn í París stóð keikur af sér tvær heimsstyrjaldir en verður núna víggirtur vegna ágangs hryðjuverkahópa sem skáka í skjóli fjölmenningar.

Eiffe-turninn er tákn franskrar menningar og þess vegna skotmark.

Um 240 manns hafa fallið í Frakklandi fyrir hryðjuverkamönnum síðustu þrjú ár.

Hryðjuverkamennirnir voru frönskumælandi en hötuðust við Frakkland og allt sem frönsk og vestræn menning stendur fyrir. Fjölmenningin er eins og kommúnisminn; falleg orð fela morðhneigð.


mbl.is Víggirtur Eiffel-turn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samfylkingin, lýðveldið og hrunið

Samfylkingin hindraði uppgjörið við hrunið öðrum flokkum fremur. Bankahrunið 2008 kallaði á pólitískt uppgjör við efnahagsstefnu liðinna ára og sérstaklega einkavæðingu bankanna.

Samfylkingin kaus að gera upp við lýðveldið og hélt fram þeirri söguskoðun að stjórnarskráin væri orsök hrunsins og að fullveldi þjóðarinnar væri best geymt í Brussel.

Icesave-málið notaði Samfylkingin til að hræða þjóðina til fylgis við ESB-aðild. Herfræði Samfylkingar var að samþykkja að þjóðin bæri ábyrgð á skuldum einkabanka og knýja þannig fram siðferðilegt gjaldþrot ofan á efnahagslegt þrot.

En þjóðin stóð í ístaðinu, hafnaði Icesave-lögum ríkisstjórnar Jóhönnu Sig. í tvígang. Eftir það var ESB-umsóknin dauð og uppstokkun stjórnskipunar sömuleiðis.

Ónýta Ísland var óopinbert slagorð Samfylkingar eftir hrun. Herfræði Samfylkingar mistókst. Þjóðin hafði meiri trú á sjálfri sér en svo að láta pólitíska lukkuriddara segja sér fyrir verkum.


Merkel tapar Þýskalandi

Þýskaland var ekki tilbúið fyrir frjálslynda flóttamannastefnu Angelu Merkel  kanslara. Andstæðingum opingáttarstefnunnar fjölgar í takt við fréttir af vandræðum sem flóttamannastraumurinn veldur þýsku samfélagi.

Frávísun skilríkjalausra flóttamanna á landamærunum yrði rothögg á stefnu Merkel. 

Merkel hefur þegar tapað stuðningi almennings. Valið er Merkel stendur frammi fyrir er hvort hún fórnar ríkisstjórninni til að halda andlitinu eða viðurkennir nýjan pólitískan veruleika og fellst á strangari flóttamannastefnu. 


mbl.is Deila um málefni hælisleitenda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband