Íran hótar Evrópu: viðskipti annars kjarnorkuvopn

Íran hótar að hefja þróun kjarnorkuvopna að nýju nema Evrópa kaupi af Íran olíu og stundi viðskipti við ríkið. Telegraph segir frá hótuninni.

Trump Bandaríkjaforseti hætti stuðningi við samkomulag um kjarnorkuafvopnun Íran. Evrópsk fyrirtæki geta ekki stundað viðskipti við Íran án þess að skaða hagsmuni sína í Bandaríkjunum.

Hótun Írana gegn Evrópu því sem næst útilokar að ráðamenn í álfunni taki höndum saman gegn viðskiptaþvingunum ríkisstjórnar Trump. Hótun Írana er hrein og bein fjárkúgun.


Lausafjárkreppa - raðgjaldþrot yfirvofandi

Í landinu er lausafjárkreppa sem stafar af offjárfestingum í fasteignum, en þær hafa  gefið bestu ávöxtunina á síðustu árum. Fasteignakaupendur, og þar eru margir spákaupmenn, hafa sogað til sín fjármagn frá lánastofnunum og myndað ósjálfbæra eignabólu.

Á meðan fasteignaverð hækkaði jafnt og þétt voru allir sáttir, nema leigjendur og ungt fólk að kaupa sínu fyrstu fasteign. Eigendur fasteigna högnuðust og bankar þöndu út lánabækurnar.

Komið er að skuldadögum. Fasteignaverð hækkar ekki lengur, heldur stendur í stað og gæti lækkað. Ofurskuldsettir kaupendur verða að losa um eignir. Sumir geta það ekki í tæka tíð - verða gjaldþrota.

Til að mæta lausafjárkreppunni krefjast stórneytendur lána vaxtalækkunar, samanber viðtengda frétt og leiðara Fréttablaðsins í dag. Engin hagfræðileg rök eru fyrir vaxtalækkun - við erum á þenslutíma - og þá er krafan að bankaskattar verði aflagðir og ,,séríslenskar reglur".

Síðast kröfðust bankarnir afnáms ,,séríslenskra reglna" skömmu fyrir hrun. Við vitum hvernig fór um þá sjóferð.

Fyrirsjáanlegt raðgjaldþrot stórtækra ofurskuldsettra fasteignakaupenda er gott mál. Bankar eiga ekki að fjármagna fasteignabólur, markaðurinn þarf leiðréttingu. Ef leiðréttingin kemur í tíma verður ekki hrun. En áhættufíklarnir brenna sig. Þannig á það að vera.


mbl.is Séríslenskar reglur hækka kostnað neytenda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fullur sigur Sigríðar

Hæstiréttur staðfesti að Sigríður Á Andersen dómsmálaráðherra skipaði dómara í landsrétt sem að fullu eru hæfir til starfsins. 

Pólitískur hávaði um að aðrir umsækjendur ættu tilkall til að fá skipun í millidómsstigið er aukaatriði í málinu.

Enn ómerkilegri er sá hávaði að valnefnd út í bæ standi ofar í stjórnskipun landsins en stjórnarráðið og alþingi.

Til hamingju, Sigríður.


mbl.is Vísað til Mannréttindadómstólsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vinstrimaður til varnar Jordan Peterson

Jordan Peterson er stærsta umbreytingaraflið í vestrænni pólitískri umræðu um þessar mundir. Kanadíski prófessorinn fyllir fyrirlestrasali austan hafs og vestan og tók Ástralíu með trompi.

Peterson skorar á hólm viðteknar hugmyndir síðustu áratuga um að samfélag manna sé félagsleg hönnun sem má fara með að vild. Rök Peterson eru að þótt samfélagið taki breytingum með pólitískum ákvörðunum og sögulegri þróun takmarka undirliggjandi þættir, t.d. líffræði, hversu langt er hægt að ganga ef ekki á illa að fara.

Í grunninn talar Peterson fyrir íhaldssemi og varkárni í tilraunum til að bæta samfélagið með róttækum hætti. Íslenska orðtakið ,,betri er krókur en kelda" á vel við sjónarmið hans.

Vinstrimenn útmála Peterson með hala, horn og klaufar. Í þeirra augum er Peterson þjófur í Paradís þess albúinn að ræna okkur draumnum um fyrirmyndarríkið.

Sumir vinstrimenn, t.d. Carol Horton, gefa sér tíma til að gaumgæfa hvað Peterson segir og komast að þeirri niðurstöðu að Kanadamaðurinn gæti jafnvel hjálpað vinstrimönnum að hugsa sína pólitík upp á nýtt. Og veitir ekki af. Vinstripólitík síðustu ára er kviksyndi ruglanda, upphrópana og geðillsku.


Laun hækka án samninga - óþörf verkalýðshreyfing

Engir kjarasamningar gefa 7,3 prósent hækkun laun á liðnu ári. Hvers vegna í ósköpunum hækka launin?

Jú, launin hækka vegna þess að atvinnurekendur hækka laun starfsmanna til að halda í þá. Þetta gildir um almenna vinnumarkaðinn en síður um þann opinbara.

Það er sáralítið atvinnuleysi, þökk sé krónunni, og samkeppni um vinnuafl.

Verkalýðshreyfingin semur um lágmarkslaun, sem fáir fara eftir. Þegar markaðslaun eru almennt hærri en taxtar verkalýðsfélaga má velta fyrir hvort verkalýðshreyfingin sé ekki afæta launafólks, hirðir af þeim félagsgjöld en gerir fátt annað en að leika sér í pólitík.


mbl.is Laun hafa hækkað um 7,3%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ESB yfirtekur Ísland í gegnum bakdyrnar

Evrópusambandið sækir að fullveldi Íslands með einhliða ákvörðunum um að EES-samningurinn gildi ekki um samskipti þjóðanna heldur lúti Ísland boðvaldi Evrópusambandsins.

Ísland á aðild að EES-samningnum ásamt Noregi og Liechten­stein. Samningurinn kveður á um að sameiginlegur leysi úr ágreiningsmálum. Evrópusambandið vinnu skipulega að því að færa ákvörðunarvaldið frá sameiginlegum vettvangi færa til stofnana sem alfarið eru á forræði sambandsins.

Síðasta dæmið er persónuverndarlöggjöf ESB. Löngu tímabært er að Ísland segi sig frá EES-samningnum.


mbl.is Falið vald yfir íslenskum málum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Spilling á lágu stigi

Vinstrimenn, t.d. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir og Jón Ólafsson, telja Landsréttarmálið dæmi um spillingu. Jón segir spillinguna reyndir á ,,lágu stigi".

Í hnotskurn er Landsréttarmálið þannig vaxið að valnefnd leit framhjá viðurkenndum jafnréttissjónarmiðum og lagði til karlavæðingu dómstólsins. Dómsmálaráðherra jafnaði hlut kynjanna, eftir að hafa fengið þau skilaboð úr alþingi að listi valnefndar yrði ekki samþykktur.

Alþingi samþykkti lista ráðherra en var þó í lófa lagið að neita, ef þinginu bauð svo við að horfa. Þetta var öll spillingin og þarf fjöruga ímyndun að gefa dómaraskipuninni þá nafngift. Jafnvel þótt ,,á lágu stigi" sé hnýtt við.


mbl.is Sagði Landsréttarmálið dæmi um spillingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Assad er skásti kosturinn í Sýrlandi

Vesturlönd eru ábyrg fyrir dauða allt að 9600 óbreyttra borgara í Írak og Sýrlandi frá árinu 2014, segir í nýrri skýrslu. Í Írak og norðurhluta Sýrlands stríddu vestræn ríki, einkum Bandaríkin og Bretland, við Ríki íslams.

Í meginhluta Sýrland var Assad forseti og ríkisstjórn hans aðalóvinur vestrænna ríkja. Assad var útmálaður sem harðstjóri og ótækur þjóðarhöfðingi. En Assad, með stuðningi frá Rússum og Írönum, er um það bil að sigra uppreisnarhópa er nutu stuðnings vesturveldanna.

Í tímariti bandarískra íhaldsmanna, National Interest, er farið yfir stöðuna í Sýrlandi. Niðurstaðan er skýr og ótvíræð. Ef vesturveldin vilja í raun stöðva blóðsúthellingar í Sýrlandi verða þau að styðja Assad forseta. Hann er sá eini sem getur komið á friði í landinu.

Obama fráfarandi forseti Bandaríkjanna og utanríkisráðherra hans, Hillary Clinton, hófu herferðina gegn Assad. Sitjandi forseti, Trump, vill fyrir alla muni hverfa af vettvangi Sýrlandsstríðsins.


mbl.is Með full yfirráð yfir Damaskus
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samfylking og Sjálfstæðisflokkur í meirihluta

Ef 8 framboð fá fulltrúa í borgarstjórn Reykjavíkur er fátt um fína drætti við myndun trausts meirihluta - nema tvö stærstu framboðin, Sjálfstæðisflokkur og Samfylking, ákveði að vinna saman.

Samfylkingin þarf á því að halda að skera sig úr smáflokkakraðakinu á vinstri væng stjórnmálanna. Sjálfstæðisflokkur væri sáttur með þá stöðu að vinna með einum vinstriflokki í borginni og  öðrum í ríkisstjórn.

Óvænt niðurstaða í kosningunum á laugardag gæti leitt til enn óvæntari meirihluta.


mbl.is Fulltrúar 8 framboða ná kjöri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Trú, konur og dauðarefsing

Ungar stúlkur frá vesturlöndum, t.d. Englandi og Frakklandi, fluttu í hundraðavís til Ríkis íslams meðan það var og hét í Sýrlandi og Írak. Trúarsannfæring rak konurnar í faðm stríðsmanna íslams og gjarnan áttu þær með þeim börn. Dómstólar í Írak dæma þessar konur til dauða, segir í Guardian.

Vestræn ríki virðast þvo hendur sínar af stúlkunum og láta íranska dómskerfið um þær.

Málsmeðferðin vekur upp siðferðilegar, trúarlegar og réttarfarslegar spurningar. Almennt gildir trúfrelsi á vesturlöndum og enginn er sekur um glæp sem hann ekki hefur framið.

Líkleg ástæða fyrir athöfnum stúlknanna er trúarsannfæring í bland við rómantík. Ef það er tilfellið að vesturlönd almennt og yfirleitt telja dauðsök að fólk eigi saman að sælda við einstaklinga í yfirlýstum hryðjuverkasamtökum eru viðurkenndar réttarfarsreglur orðnar nokkuð aðrar en þeir voru fyrir fáum árum. Og það án ýkja mikillar umræðu.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband