Trump sýknaður af Rússasamsæri

Í tvö ár rannsakar sérstakur saksóknari, Robert Mueller, meinta aðkomu Rússa að kosningasigri Trump 2016. Ekkert bólar á niðurstöðu og engar sannanir eru fyrir samsæri milli kosningateymis Trump og Rússa að sækja sigur í forsetakosningunum með svindli.

Þeir fjölmiðlar sem hæst lét um meint rússnesk áhrif, t.d. New York Times, Washington Post og Guardian er þegar farnir að fela slóðina, samkvæmt ítarlegri úttekt Daniel Lazare.

Trump varð forseti á bandarískum forsendum. Hann sannfærði nógu marga kjósendur um að Hillary Clinton væri síðri kostur í embættið. Margt misjafnt má segja um bandarísk stjórnmál. En þau eru of margslungin til að það sé á færi Rússa, Kínverja eða annarra að kaupa tiltekna niðurstöðu.

Eftir því sem sýkna Trump verður skýrari eru andstæðingar hans með verri spil á hendi. Og það styttist í næstu forsetakosningar í Bandaríkjunum. 


Tvær þjóðir á Íslandi: framboðsþjóðin og sú áhugalausa

Almenningur sýnir minni pólitískan áhuga en áður en framboðin eru aldrei fleiri. Þessi mótsögn blasir við þegar fjórir dagar eru til kosninga. Hvað veldur?

Pólitískur áhugi er bundinn við fámennan hóp. Sá hópur er tvístraður í marga enn smærri hópa sem að hluta stundar sérviskupólitík kennda við kyn, aldurshóp eða aflóga tísku liðins tíma - sósíalisma.

Hræódýrt er að stofna til framboðs og reka kosningabaráttu. Blogg, samfélagsmiðar og netfjölmiðlar eru ókeypis og þeir pólitísku framleiða texta í hjáverkum með öðrum störfum. Textinn þarf ekki að vera frumsaminn, oft er nóg að afrita, breyta lítillega og birta.

Á yfirborðinu er lýðræðinu vel þjónað. Mörg framboð þýðir margir valkostir fyrir kjósendur. En þegar almenningur er áhugalaus veit það ekki á gott. Án almennrar þátttöku í umræðu og kosningum veikist lýðræðið, fólk lætur sér fátt um finnast. Eftir því sem framboðum fjölgar verður erfiðara að fá yfirsýn, valkostir verða óskýrari. Það leiðir til afskiptaleysis, minni kosningaþátttöku. 

Framboðsþjóðin ætti að hafa hugfast að stöðugt fleiri framboð grafa undan þeim verðmætum sem framboðin þykjast öll í orði kveðnu aðhyllast. Sem er einmitt lýðræðið.


68-kynslóðin og óreiðan

68-kynslóðin er fimmtug í ár. Réttara sagt er hugtakið fimmtugt, sjálf kynslóðin er komin á ellilífeyrisaldur. Með 68-kynslóðinni er átt við fólk sem fæddist í seinna stríði rétt þar á eftir. 

Kynslóðin er kennd við hippa, frið og öfgar. Sítt hár og eiturlyf, andóf gegn Víetnam-stríðinu og morðveislu Baader-Meinhof í Þýskalandi og Rauðu herdeildanna á Ítalíu.

Ef það er eitthvað eitt pólitískt hugtak sem 68-kynslóðin skilur eftir sig er það ekki sósíalismi, þótt margir hafi hallast þá átt, t.d. Tariq Ali, heldur frjálslyndi.

Ein besta bókin um viðhorf 68-fólksins er eftir Todd Gitlin: Ár vona, dagar reiði. Frjálslyndið hélst í hendur við sjálfhverfu. Gitlin segir frá kröfunni um að sérhver ætti að vera sinn eigin kenningarsmiður, leggja fram prívatanalísu á hnignun borgaralegs samfélags.

Hraðspólum söguna í 50 ár. 68-arfurinn, frjálslynd sjálfhverfa, er menninguna lifandi að drepa. Krafan um að hver og einn smíði sína kenningu um samfélagið leiðir til tómhyggju sjálfhverfustjórnmála. Sameiginleg gildi eru ekki lengur til né heldur sameiginlegur skilningur á hvernig samfélag skuli byggja. Allir eru spes og tefla fram eigin heimsmynd eftir naflaskoðun í 15 sekúndur. Ef allt er jafn rétt er ekkert rangt.

Vinsælasta sjálfshjálparbókin þessi misserin er 12 lífsreglur Jordan Peterson. Undirtitillinn er ,,móteitur gegn óreiðu." Þá óreiðu má rekja til 68-kynslóðarinnar.  


Evrópa gegn Trump, Pútín og Kína

Evrópusambandið er miður sín yfir þróun alþjóðamála síðustu missera. Á fundi leiðtoga ESB á Balkanskaga í vikunni kom fram það sjónarmið að Bandaríkin undir forystu Trump væru Evrópu jafn hættuleg og Rússland og Kína.

ESB telur sig standa fyrir alþjóðlegt frjálslyndi sem ættað er úr handbókum síðustu aldar. Trump starfar ekki samkvæmt áður viðurkenndum reglum. Hann velur sér skotmörk (Norður-Kóreu, Kína og núna síðast Íran) og þvingar fram niðurstöðu í þágu bandarískra hagsmuna. Evrópa valhoppar á eftir, meira af taugaveiklun en sannfæringu. 

Eina von Evrópu, segir New Republic, er að Trump sitji ekki nema eitt kjörtímabil. En allar líkur eru á að þau verði tvö. Evrópa, skrifar franskur ESB-sinni, á engan valkost við Bandaríkin og verður að láta sér lynda við Trump.

Gangi það eftir að Kína beygi sig undir vilja Trump eru engar líkur á að Íran standist áhlaupið í kjölfar uppsagnar Trump á kjarnorkuvopnasamningi sem Obama forveri hans gerði. Íran er þegar í vandræðum eftir að Írakar gáfu út skýra yfirlýsingu í nýafstöðnum kosningum um að landið ætlaði ekki að verða skjólstæðingur klerkanna í Teheran.

Evrópsk fyrirtæki munu ekki eiga viðskipti að óbreyttu við Íran af ótta við refsiaðgerðir Bandaríkjanna. Án viðskipta við evrópsk og bandarísk fyrirtæki blasir við stöðnun í Íran, sem gæti leitt til innanlandsófriðar.

Haldi Trump áfram að vinna pólitíska sigra með refsivönd viðskiptaþvingana að vopni verða til nýjar leikreglur í alþjóðamálum. Rússland og Kína gæta auðveldlega sætt sig við þær reglur en Evrópa hlekkjuð í ESB miklu síður.

 


mbl.is Ekkert verður af viðskiptastríði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjölskyldurnar 14, Sambandið og nýríkir nonnar

Fjölskyldurnar 14 er hugtak um valdaelítuna sem var sögð eiga Ísland á síðustu öld. Hugtakið er villandi, engar 14 fjölskyldur áttu Ísland. Engu að síður má nota hugtakið til að lýsa í grófum dráttum þróun atvinnulífsins á síðustu öld.

Um aldamótin 1900 voru Íslendingar komnir með yfirráðin yfir verslun og viðskiptum þar sem áður réðu Danir. Næstu áratugi urðu til stórfyrirtæki á íslenskan mælikvarða, sem oft voru fjölskyldurekin. Til hliðar og meðfram var kaupfélagaveldi, Sambandið. En þar fyrir utan var efnafólk, t.d. í útgerð, lyfsölu, iðnaðarframleiðslu.

Í skjóli haftabúskapar um miðja öldina festist í sessi atvinnulíf sem hafði einkenni lénsskipulags. Fyrirtæki ,,áttu" tiltekin svið. Það kom þó ekki í veg fyrir að nýir aðilar kæmu á vettvang. BYKO, til dæmis, var smáfyrirtæki um 1970.

Á síðasta fimmtungi aldarinnar komst los á atvinnulífið. Gömlu fyrirtækin (fjölskyldurnar 14) gáfu eftir og Sambandið sprakk með látum. Þegar leið nær aldamótum komu til sögunnar einstaklingar og fyrirtæki sem kunnu sér ekki hóf í útþenslu.

Kvótaauður og framsæknir menn í smásöluverslun (Baugsfeðgar) urðu á fáum árum giska frekir til fjörsins. Sambandsklíkan, forstjórar gjaldþrota viðskiptaveldis, var ekki dauð úr öllum æðum, kom sér fyrir í skipaflutningum og vátryggingum.

Við þessar kringumstæður, um aldamótin síðustu, var bankakerfið einkavætt á örfáum árum. Nýríku nonnarnir og erfingjar Sambandsins náðu forræði yfir Landsbanka, Íslandsbanka og Kaupþingi á örfáum misserum

Í krafti nýfengins auðs keyptu þeir nýríku meðreiðarsveina í fjölmiðlum og sérfræðinga, einkum í lögum, ásamt heila og hálfa stjórnmálaflokka.

En nýríku nonnarnir áttu ekki, og gátu ekki keypt, verðmæti sem eru forsenda fyrir fyrirtækjarekstri og þó miklu heldur fyrir bankaviðskiptum. Innsæi í gangverk samfélagsins segir mönnum í valdastöðum, hvort heldur í atvinnulífi eða stjórnmálum, að traust er lykilforsenda velgengni. 

Traust fæst ekki keypt, það verður til yfir tíma. Gamla atvinnulífið, þetta sem kennt er við 14 fjölskyldur, byggði á trausti. Nýríku nonnarnir nutu einskins trausts enda höfðu þeir ekki unnið fyrir því.


mbl.is Létu bankana snúast um sjálfa sig
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Uppgjör araba og gyðinga 1948 og stofnun Ísraels

Ísraelsríki var stofnað í Palestínu fyrir 70 árum. Landið var nýlenda Tyrkja til 1918 og Breta þar eftir þangað til 1948 er Ísraelsríki var stofnað. Sögulegar heimildir eru um gyðingaríki til forna en engar heimildir eru um ríki Palestínuaraba.

Ástæðan fyrir því að gyðingar stofnuðu Ísraelsríki en arabar ekki Palestínuríki liggur í sögu áratuganna á undan. Til að átta sig á þeirri sögu þarf hlutlægar heimildir. Þær eru ekki margar þar sem sagan er eitt helsta vopnið í pólitískri baráttu araba og gyðinga.

Ein af fáum bókum sem skrifaðar eru sameiginlega af fræðimönnum úr röðum gyðinga og araba er Haifa Before and After 1948. Þar er uppgjörinu 1948 lýst út frá stöðu mála í verslunar- og iðnaðarborginni Haifa í norðurhluta Ísrael. 

Seint á 19. öld óx Haifa sem stjórnsýslumiðstöð Tyrkja auk þess sem verslun og iðnaður tóku fjörkipp, ekki síst með lagningu járnbrautar laust eftir aldamótin. Gyðingar komu frá Evrópu, burtreknir baháar frá Íran og arabar frá aðliggjandi svæðum. Árið 1918 bjuggu 22 þúsund manns í borginni, þar af um 3000 gyðingar. 1931 var íbúatalan orðin 50 þúsund og gyðingar um þriðjungur.

Aðflutningur fólks, bæði gyðinga og annarra, var löglegur og með velvilja nýlenduherranna, fyrst Tyrkja og síðar Breta. Fjöldi araba í Haifa 1931 var 34 þúsund og þeir voru 50 þúsund 1938. En einmitt á þeim áratug stóðu yfir gyðingaofsóknir í Evrópu og fjöldinn allur flutti til Palestínu. Í Haifa voru gyðingarnir orðnir álíka margir og arabar við stofnun Ísraelsríkis.

Í bókinni Haifa Before and After 1948 er dregin upp mynd af samskiptum gyðinga og araba áratugina fyrir stofnun Ísraelsríkis. Samneyti milli trúarhópanna var ekki mikið. Gyðingar spiluðu fótbolta sín á milli og arabar voru með eigin deild. Helst var að efnaðir arabar ættu samlyndi með gyðingum.

Í kafla um iðnvæðinguna koma áhrif trúarmenningar gyðinga annars vegar og hins vegar múslíma/araba. Gyðingarnir fluttu með sér vestræna framleiðsluhætti á meðan arabar studdust við fjölskylduna/ættina sem undirstöðu framleiðslu og viðskipta. 

Á fjórða áratug síðustu aldar töpuðu arabar stöðu sinni sem meirihluti í Haifa. Vaxandi óánægja araba með sífellt betri stöðu gyðinga í Palestínu leiddi til uppreisnar 1936 sem stóð yfir í þrjú ár. Arabíska uppreisnin beindist gegn Bretum og gyðingum. Morð og eyðilegging voru daglegt brauð. Bændur og fátækir arabískir innflytjendur voru meginhluti uppreisnarliðsins. Efnaðir arabar voru einnig skotspónn uppreisnarmanna.

Endalok arabísku uppreisnarinnar 1936-1939 voru ,,siðferðilegur og pólitískur ósigur arabísks samfélags í heild sinni," segir í bókinni, sameiginlegu höfundarverki gyðinga og araba.

Uppreisnin gerði út um þær vonir að arabar og gyðingar gætu lifað í sátt og samlyndi í einu ríki. Breska nýlenduveldið setti saman tillögur um skiptingu Palestínu. Seinna stríð skaut loku fyrir frekari umræðu. Að loknu stríði var Ísraelsríki gyðinga stofnað í Palestínu um leið og nýlenduveldinu lauk. Arabaþjóðir svöruðu með árásarstríði og hótuðu útrýmingu gyðinga. Í stríðinu og öðru 1967 tóku landamærin breytingum.

Gyðingar settu saman lífvænlegt samfélag mannréttinda, nútímahagkerfis og borgaralegs lýðræðis. Arabar, hvort heldur á Gaza, Vesturbakkanum, Sýrlandi, Egyptalandi eða Írak geta ekki búið í lýðræðislegu samfélagi þar sem mannréttindi eru virt. Ýmist eru það hryðjuverkamenn eða herforingjar sem stjórna þessum ríkjum. Sádí-Arabía og Íran eru trúarríki sem virða mannréttindi að vettugi.

Múslímsk trúarmenning frá miðöldum stendur aröbum (og Persum í Íran) fyrir þrifum. Í stað þess að reita hár sitt og kenna öðrum um eymdina ættu múslímar að horfa gagnrýnum augum á siðagildi sín og lífshætti.

Þótt Ísrael sé að stofni reist á gyðingdómi, og í þeim skilningi trúarríki, eru vestrænar meginreglur um trúfrelsi viðurkenndar og þar með talinn réttur minnihlutahópa. Um 20 prósent af íbúum Ísrael eru arabar.


Ítalir ógna evrunni - og múslímum

Ný ríkisstjórn Ítalíu, samsett úr lýðflokknum til hægri og vinstri, gerir líklega atlögu að evrunni, sameiginlegri mynt 19 ESB-ríkja. Þýska útgáfan Die Welt segir nýju ríkisstjórnina tilbúna með tillögu um lögeyri er verði notaður til hliðar við evruna.

Ítalía er hvað skuldugast evru-ríkja. Nýja lögeyrinum er ætlað að komast hjá stífum reglum seðlabanka Evrópu um skuldsetningu. Evru-ríkjum er bannað að leyfa annan lögeyri en evruna. Ítalir eru þekktir fyrir skapandi aðferðir í fjármálagjörningum og gætu ef til vill skáldað sig frá ríkjandi reglum.

Múslímar eru einnig uggandi um sinn hag, verði ríkisstjórn lýðflokkanna að veruleika. Nýja ríkisstjórnin hyggst taka upp skráningu á trúarleiðtogum í moskum og loka þeim sem ekki fá opinbert leyfi, segir í Guardian.


Brúðkaup, sagan og samfélagið

Fyrr á tíð var stofnað til konunglegra brúðkaupa í þágu valdahagsmuna. Konungshjónum var ætlað að tryggja ríkiserfðirnar og treysta pólitískt vald. Stundum gat þetta orðið flókið, samanber Hinrik 8. sem vann sig í gegnum sex eiginkonur og klauf kirkjuna til að verja konungdóminn.

Á 19. öld er breska konungsveldið takmarkað við að gefa lýðræðislega kjörnum stjórnvöldum ráðgjöf. Konungdæmið breska verður sameiningartákn, fyrst heimsveldisins en síðar bresku þjóðarinnar - og samveldisins í minna mæli.

Konunglegt brúðkaup er helgiathöfn í þágu samfélagsins. Lýðveldissinnar í Bretlandi kaupa skoðanakannanir til að sýna fram á minni vinsældir konungdómsins. Enginn pólitískur valkostur er þó við konungdæmið, sem mun lifa svo lengi sem Bretar eru um það bil sáttir við ríkjandi samfélagsskipun.

 


mbl.is Þau eru gift!
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kaþólska stendur nærri heiðni, lútherstrú einveldinu

Íslendingar gerðust kristnir á friðsömum fundi á alþingi árið 1000. Ólíkt flestum þjóðum tóku þeir sér langan tíma að kristnast, skiptu ekki um samfélagsgerð og leyfðu rótgróna heiðna siði eins og að bera út börn, hrossakjötsát og blót, sem þó skyldi fara fram í laumi. Umburðarlyndi í trúmálum er arfur okkar. 

Kristnin var kaþólsk. Rómverjar, á deyjandi dögum heimsveldisins, gerðu kaþólska kristni að ríkistrú og aðlöguðu hana að fjölgyðistrú, samanber átrúnað á dýrlinga. Kaþólskan vann sig í gegnum Evrópu á hálfu árþúsundi eða svo. Jaðarþjóðir, Íslendingar og Ungverjar, veittu fagnaðarerindinu viðtöku við þúsaldarskiptin. Enn liðu 500 ár og kristni tók hamskiptum í Norður-Evrópu, m.a. fyrir forgöngu Marteins Lúthers sem fann páfavaldinu það til foráttu að mergsjúga alþýðu og aðal með fjárplógsstarfsemi kenndri við aflátsbréf. 

Íslendingar veittu lútherstrú mótspyrnu. Síðasti kaþólski biskupinn, Jón Arason á Hólum, tvinnaði saman trú og þjóðernishyggju í andstöðu við siðaboðskap einveldisins. Hann og tveir synir hans voru líflátnir í Skálholti án dóms og laga 7. nóvember 1550. Í hönd fór tímabil sem ýmist er kallað danska öldin eða myrkar aldir og einkenndist af dönsku einveldi og almennri eymd. Eitt vald og ein trú er óheppilegt fyrirkomulag, eins og dæmin sanna.

Upplýsingar um kaþólsku tveggja guðfræðiprófessora við þjóðarháskólann sýna að lengi lifir í pápískunni en þó fyrst og fremst að við búum við trúfrelsi þar sem trúarsannfæringin er einkamál hvers og eins. 

 

 


mbl.is Tveir guðfræðiprófessorar kaþólskir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Grunnskólakennarar gefast upp

Valdabarátta innan raða grunnskólakennara olli því að ítrekað voru samningar forystu kennara við sveitarfélög felldir. Byltingarliðið, Ragnar Þór Pétursson formaður KÍ í fararbroddi, telur sig hafa náð þeim árangri sem næst í þessari umferð og er tilbúið að slíðra sverðin.

Núverandi forysta Félags grunnskólakennara nær ekki neinu fram sem sú fyrri náði ekki. Laun grunnskólakennara í Reykjavík eru nú þegar hærri en annarra háskólamenntaðra.

Hávaðinn og lætin í byltingarliðinu gæti leitt það eitt af sér að grunnskólinn yrði styttur, efsti bekkur yrði færður upp í framhaldsskóla. 

 


mbl.is Vilja þjóðarsátt um hækkun launa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband