Fyrirspurnarlýðræði í þágu samfélagsmiðla

Stjórnarandstaðan spyr ríkisstjórnina um alla mögulega og ómögulega hluti í þeirri von að fá einhverja mola til að deila á samfélagsmiðlum og bæta við svei attan. Ef vel tekst til taka fjölmiðlar upp molann og viðkomandi þingmaður fær sína 15 sekúndna frægð.

Fyrirspurnarlýðræðið er ekki til að upplýsa eða móta pólitíska stefnu heldur til að fjargviðrast.

Þingmenn þykjast hneykslaðir á slæmu orðspori alþingis og minni kosningaþátttöku almennings. En upphlaupsmál þingmanna gera ekki annað en að veikja alþingi.


mbl.is „Komið út í tóma þvælu“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Miðjan gefst upp á lýðræðinu - Reykjavík sem dæmi

Öfgamenn til hægri og vinstri vantreysta ekki lýðræðinu í jafn ríkum mæli og þeir sem skilgreina sig sem miðjumenn, segir í nýrri rannsókn sem birtist í New York Times.

Ef aðferðafræðin, til að komast að niðurstöðunni, heldur vatni er ástæða til að staldra við og spyrja hvers vegna miðjufólkið, sem við kennum við meðalhófið, sé orðið vantrúa á lýðræðið.

Nærtæk skýring er að lýðræðið þjónar ekki lengur meðalhófinu, heldur öfgasjónarmiðum.

Nýafstaðnar borgarstjórnarkosningar í Reykjavík eru talandi dæmi. Sextán framboð skráðu sig til leiks. Fjöldi framboða er eitt og sér einkenni öfga. Lýðræði er ferli málamiðlana og sjónarmið framboðanna 16 ættu undir venjulegum kringumstæðum að finna sér farveg í færri flokkum.

Til að undirstrika öfgarnar stóðu kjörnir borgarfulltrúar, sem rétt slefuðu inn í borgarstjórn með 6% fylgi, og tilkynntu hróðugir að þeir vildu ekki starfa með Sjálfstæðisflokknum með 30 prósent fylgi.

Þegar miðjufólkið horfir upp á öfgahópa gera sig breiða í nafni lýðræðis missir það trúna á lýðræðinu. Eðlilega.

 


Ítalir vilja losna við evruna

Ný ríkisstjórn Ítalíu lítur á evruna sem kúgunartæki Þjóðverja og Frakka í Evrópusambandinu. Tillögur nýju stjórnarinnar um hliðargjaldmiðil eru taldar fyrsta skrefið í átt að afnámi evrunnar sem lögeyris á Ítalíu. 

Neyðarástand skapast í höfuðborgum Evrópusambandsins í kjölfar frétta frá Róm um atlöguna að evrunni.

Ítalía er eitt af stofnríkjum Evrópusambandsins. Þegar niðurstaða lýðræðislegra kosninga leiða til tillagna um að afturkalla þátttöku Ítala í gjaldmiðlasamstarfinu, sem er hornsteinn sambandsins, er morgunljóst að undirstöður ESB eru feysknar. Svo vægt sé til orða tekið.


mbl.is Ekki þrælar Þjóðverja eða Frakka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rétt hjá Vigdísi, Viðreisn á ekki framtíð sem vinstriflokkur

Viðreisn getur ekki orðið fimmta hjólið undir vagni vinstrimeirihluta í Reykjavík. Fimmta hjólið er varadekk og að Viðreisn verði varaskeifa fyrir fallinn meirihluta kemur flokknum í koll í næstu þingkosningum.

Til að Viðreisn eigi sér framhaldslíf yrði versti kostur flokksins að festast í smáflokkakraðakinu á vinstri vængnum.

Vigdís Hauksdóttir sér fram á að Sjálfstæðisflokkur, Viðreisn, Miðflokkur og Flokkur fólksins myndi meirihluta. Það væri í anda megin niðurstöðu kosninganna þar sem kjósendur höfnuðu vinstrimeirihlutanum.


mbl.is Vigdís sér fyrir sér meirihluta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vinstrisamkeppni í öfgum - 5 flokka meirihluti

Eina útgáfa vinstrimeirihluta í Reykjavik er fimm flokka og með Viðreisn, sem er hægriflokkur. Ráðsettir vinstriflokkar, Samfylking og Vinstri grænir, eru í samkeppni um að þjóna öfgum, sem birtust sem Píratar í síðustu kosningum og Sósíalistaflokkurinn núna.

Öfgarnar ganga út á að útmála Sjálfstæðisflokkinn sem ótækan í samstarf. Samfylkingin var á góðu skriði í höfuðborginni þangað til að áróðurinn um að flokkurinn tæki að sér hlutverk Vinstri grænna í ríkisstjórn - þ.e. samstarf við Sjálfstæðisflokkinn - fór að bíta. Tilhugsunin um meirihlutasamstarf Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks var óreiðufólkinu á vinstri vængnum ofviða og það kaus Sósíalistaflokkinn.

Fimm flokka vinstrimeirihluti í Reykjavík yrði gagngert settur saman til að útiloka Sjálfstæðisflokkinn, sem 30 prósent Reykvíkinga kusu. Ekki beinlínis lýðræðislegt. Enda eru öfgastjórnmál aldrei lýðræðisleg.

Samfylkingin á völina og kvölina í Reykjavík, líkt og Vinstri grænir eftir síðustu þingkosningar. En ólíkt Vinstri grænum í landsstjórninni getur Samfylkingin ekki gert tilkall um stöðu oddvita í Reykjavík. 

Lýðræðisleg niðurstaða kosninganna í Reykjavík er að Eyþór verði borgarstjóri.


mbl.is Sjálfstæðisflokkurinn stærstur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjálfstæðisflokkur og Miðflokkur sigurvegarar

Sjálfstæðisflokkurinn fellir vinstrimeirihlutann í höfuðborginni, Miðflokkurinn verður pólitískt afl á sveitarstjórnarstigi. Þetta eru helstu pólitísku tíðindi kjördagsins 2018.

Vinstrióreiðan fer vaxandi, öfgaframboð sósíalista heggur skarð í raðir ráðsettra vinstriflokka í Reykjavík. Það eru tíðindi númer tvö.

Tíðindi þrjú eru að klofningsframboð sjálfstæðismanna fara flatt, samanber Seltjarnarnes.

Samantekið: skynsemin er til hægri, óreiðan til vinstri.


mbl.is Meirihlutinn fallinn í Reykjavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gunnar Smári virkjar bróður sinn

Foringi Sósíalistaflokksins Gunnar Smári Egilsson virkjar bróður sinn í þágu öreigaframboðsins. Bróðirinn, Sigurjón M. Egilsson, sme, stendur fyrir bloggútgáfunni Miðjunni.

Sósíalistaflokkurinn er í harðri baraáttu við Pírata um skringilegustu vinstrimennina, sem hvorki finna sig í Sammfó né Vg. Miðjan hans sme skaut á Pírata fyrir að vera ekki jafn óspilltir og þeir vilja vera láta.

Eftir að þáttastjórnandi RÚV þýfgaði frambjóðanda Sósíalistaflokksins um fjármálaóreiðu Gunnars Smára fór sme-Miðjan í yfirgír, kallaði spyril RÚV klámkarl og sakaði RÚV um að hylma yfir með formanni Miðflokksins. Nokkuð hraustlegt í eyrum þeirra sem eru læsir og vita að RÚV stóð fyrir samfelldum árásum á Sigmund Davíð í áravís.

Sme er gömul hönd í pólitískum skrifum og jafnan í þágu þeirra sem borga best hverju sinni, hvort heldur kaupandinn sé Jón Ásgeir eða Benni á Hringbrautarviðreisn. Líklega skrifar hann fyrir bróa og sósíalista upp á hlut í almannafé nái framboðið manni inn í borgarstjórn.


CNN ekki besta heimildin um Trump

CNN og bandalag frjálslyndra fjölmiðla (Washington Post og New York Times) eru ekki bestu heimildirnar um hvað vakir fyrir Trump forseta. Frjálslyndu fjölmiðlarnir halda fram þeirri heimsmynd að einn óvinur stjórni fláræði heimsins, þ.e. Rússland undir Pútín.

Stephen F. Cohen kann samskipti Bandaríkjanna og Rússlands/Sovétríkjanna afturábak og áfram frá lokum seinna stríðs. Hann er ekki í vafa um hvernig frjálslyndu fjölmiðlarnir haga sér, og er Cohen þó enginn aðdáandi Trump.

Trump vill segja skilið við gamla kalda stríðið og hætta að líta á Rússland sem vöggu illskunnar. Frjálslynda bandalagið fyrirgefur það ekki.


mbl.is Kemur fram við bandamenn sem óvini
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Róttækir kennarar gáfust upp

Grunnskólakennarar sömdu við sveitarfélögin daginn fyrir kjördag. Áður höfðu róttækir kennarar fellt ,,feitt", eins og það var kallað, fyrirliggjandi samning.

Samningurinn sem undirritaður var í gær bindur hendur kennara til sumarsins 2019, í reynd til 2020/2021 þar sem kennarar fara aldrei í verkfall að sumri til.

Engar líkur eru á að nýgerður kjarasamningur sé betri en sá fyrri. Samninganefnd sveitarfélaga fær ekki umboð á síðasta degi kjörtímabilsins að bjóða betur.

Hvers vegna þessi umskipti hjá kennurum? Jú, róttæka fólkið er komið í forystu; nýr formaður KÍ og nýr formaður félags grunnskólakennara, FG. Það vill ekki rugga bátnum enda komið með þægilega innivinnu - á kostnað kennara.


mbl.is Grunnskólakennarar undirrita kjarasamning
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sextán framboð en tveir kostir: óreiða eða kjölfesta

Þrátt fyrir sextán framboð í Reykjavík eru kostirnir í reynd aðeins tveir, vinstrióreiða eða kjölfesta með Sjálfstæðisflokkinn sem sterkasta aflið.

Kjósendur átta sig á ábyrgð sinni á kjördegi.

Og hafna óreiðunni.


mbl.is Sjálfstæðisflokkurinn stærstur í borginni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband