Trú, konur og dauðarefsing

Ungar stúlkur frá vesturlöndum, t.d. Englandi og Frakklandi, fluttu í hundraðavís til Ríkis íslams meðan það var og hét í Sýrlandi og Írak. Trúarsannfæring rak konurnar í faðm stríðsmanna íslams og gjarnan áttu þær með þeim börn. Dómstólar í Írak dæma þessar konur til dauða, segir í Guardian.

Vestræn ríki virðast þvo hendur sínar af stúlkunum og láta íranska dómskerfið um þær.

Málsmeðferðin vekur upp siðferðilegar, trúarlegar og réttarfarslegar spurningar. Almennt gildir trúfrelsi á vesturlöndum og enginn er sekur um glæp sem hann ekki hefur framið.

Líkleg ástæða fyrir athöfnum stúlknanna er trúarsannfæring í bland við rómantík. Ef það er tilfellið að vesturlönd almennt og yfirleitt telja dauðsök að fólk eigi saman að sælda við einstaklinga í yfirlýstum hryðjuverkasamtökum eru viðurkenndar réttarfarsreglur orðnar nokkuð aðrar en þeir voru fyrir fáum árum. Og það án ýkja mikillar umræðu.


Trump sýknaður af Rússasamsæri

Í tvö ár rannsakar sérstakur saksóknari, Robert Mueller, meinta aðkomu Rússa að kosningasigri Trump 2016. Ekkert bólar á niðurstöðu og engar sannanir eru fyrir samsæri milli kosningateymis Trump og Rússa að sækja sigur í forsetakosningunum með svindli.

Þeir fjölmiðlar sem hæst lét um meint rússnesk áhrif, t.d. New York Times, Washington Post og Guardian er þegar farnir að fela slóðina, samkvæmt ítarlegri úttekt Daniel Lazare.

Trump varð forseti á bandarískum forsendum. Hann sannfærði nógu marga kjósendur um að Hillary Clinton væri síðri kostur í embættið. Margt misjafnt má segja um bandarísk stjórnmál. En þau eru of margslungin til að það sé á færi Rússa, Kínverja eða annarra að kaupa tiltekna niðurstöðu.

Eftir því sem sýkna Trump verður skýrari eru andstæðingar hans með verri spil á hendi. Og það styttist í næstu forsetakosningar í Bandaríkjunum. 


Tvær þjóðir á Íslandi: framboðsþjóðin og sú áhugalausa

Almenningur sýnir minni pólitískan áhuga en áður en framboðin eru aldrei fleiri. Þessi mótsögn blasir við þegar fjórir dagar eru til kosninga. Hvað veldur?

Pólitískur áhugi er bundinn við fámennan hóp. Sá hópur er tvístraður í marga enn smærri hópa sem að hluta stundar sérviskupólitík kennda við kyn, aldurshóp eða aflóga tísku liðins tíma - sósíalisma.

Hræódýrt er að stofna til framboðs og reka kosningabaráttu. Blogg, samfélagsmiðar og netfjölmiðlar eru ókeypis og þeir pólitísku framleiða texta í hjáverkum með öðrum störfum. Textinn þarf ekki að vera frumsaminn, oft er nóg að afrita, breyta lítillega og birta.

Á yfirborðinu er lýðræðinu vel þjónað. Mörg framboð þýðir margir valkostir fyrir kjósendur. En þegar almenningur er áhugalaus veit það ekki á gott. Án almennrar þátttöku í umræðu og kosningum veikist lýðræðið, fólk lætur sér fátt um finnast. Eftir því sem framboðum fjölgar verður erfiðara að fá yfirsýn, valkostir verða óskýrari. Það leiðir til afskiptaleysis, minni kosningaþátttöku. 

Framboðsþjóðin ætti að hafa hugfast að stöðugt fleiri framboð grafa undan þeim verðmætum sem framboðin þykjast öll í orði kveðnu aðhyllast. Sem er einmitt lýðræðið.


Bloggfærslur 22. maí 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband