Ítalir ógna evrunni - og múslímum

Ný ríkisstjórn Ítalíu, samsett úr lýðflokknum til hægri og vinstri, gerir líklega atlögu að evrunni, sameiginlegri mynt 19 ESB-ríkja. Þýska útgáfan Die Welt segir nýju ríkisstjórnina tilbúna með tillögu um lögeyri er verði notaður til hliðar við evruna.

Ítalía er hvað skuldugast evru-ríkja. Nýja lögeyrinum er ætlað að komast hjá stífum reglum seðlabanka Evrópu um skuldsetningu. Evru-ríkjum er bannað að leyfa annan lögeyri en evruna. Ítalir eru þekktir fyrir skapandi aðferðir í fjármálagjörningum og gætu ef til vill skáldað sig frá ríkjandi reglum.

Múslímar eru einnig uggandi um sinn hag, verði ríkisstjórn lýðflokkanna að veruleika. Nýja ríkisstjórnin hyggst taka upp skráningu á trúarleiðtogum í moskum og loka þeim sem ekki fá opinbert leyfi, segir í Guardian.


Brúðkaup, sagan og samfélagið

Fyrr á tíð var stofnað til konunglegra brúðkaupa í þágu valdahagsmuna. Konungshjónum var ætlað að tryggja ríkiserfðirnar og treysta pólitískt vald. Stundum gat þetta orðið flókið, samanber Hinrik 8. sem vann sig í gegnum sex eiginkonur og klauf kirkjuna til að verja konungdóminn.

Á 19. öld er breska konungsveldið takmarkað við að gefa lýðræðislega kjörnum stjórnvöldum ráðgjöf. Konungdæmið breska verður sameiningartákn, fyrst heimsveldisins en síðar bresku þjóðarinnar - og samveldisins í minna mæli.

Konunglegt brúðkaup er helgiathöfn í þágu samfélagsins. Lýðveldissinnar í Bretlandi kaupa skoðanakannanir til að sýna fram á minni vinsældir konungdómsins. Enginn pólitískur valkostur er þó við konungdæmið, sem mun lifa svo lengi sem Bretar eru um það bil sáttir við ríkjandi samfélagsskipun.

 


mbl.is Þau eru gift!
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kaþólska stendur nærri heiðni, lútherstrú einveldinu

Íslendingar gerðust kristnir á friðsömum fundi á alþingi árið 1000. Ólíkt flestum þjóðum tóku þeir sér langan tíma að kristnast, skiptu ekki um samfélagsgerð og leyfðu rótgróna heiðna siði eins og að bera út börn, hrossakjötsát og blót, sem þó skyldi fara fram í laumi. Umburðarlyndi í trúmálum er arfur okkar. 

Kristnin var kaþólsk. Rómverjar, á deyjandi dögum heimsveldisins, gerðu kaþólska kristni að ríkistrú og aðlöguðu hana að fjölgyðistrú, samanber átrúnað á dýrlinga. Kaþólskan vann sig í gegnum Evrópu á hálfu árþúsundi eða svo. Jaðarþjóðir, Íslendingar og Ungverjar, veittu fagnaðarerindinu viðtöku við þúsaldarskiptin. Enn liðu 500 ár og kristni tók hamskiptum í Norður-Evrópu, m.a. fyrir forgöngu Marteins Lúthers sem fann páfavaldinu það til foráttu að mergsjúga alþýðu og aðal með fjárplógsstarfsemi kenndri við aflátsbréf. 

Íslendingar veittu lútherstrú mótspyrnu. Síðasti kaþólski biskupinn, Jón Arason á Hólum, tvinnaði saman trú og þjóðernishyggju í andstöðu við siðaboðskap einveldisins. Hann og tveir synir hans voru líflátnir í Skálholti án dóms og laga 7. nóvember 1550. Í hönd fór tímabil sem ýmist er kallað danska öldin eða myrkar aldir og einkenndist af dönsku einveldi og almennri eymd. Eitt vald og ein trú er óheppilegt fyrirkomulag, eins og dæmin sanna.

Upplýsingar um kaþólsku tveggja guðfræðiprófessora við þjóðarháskólann sýna að lengi lifir í pápískunni en þó fyrst og fremst að við búum við trúfrelsi þar sem trúarsannfæringin er einkamál hvers og eins. 

 

 


mbl.is Tveir guðfræðiprófessorar kaþólskir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 19. maí 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband