68-kynslóðin og óreiðan

68-kynslóðin er fimmtug í ár. Réttara sagt er hugtakið fimmtugt, sjálf kynslóðin er komin á ellilífeyrisaldur. Með 68-kynslóðinni er átt við fólk sem fæddist í seinna stríði rétt þar á eftir. 

Kynslóðin er kennd við hippa, frið og öfgar. Sítt hár og eiturlyf, andóf gegn Víetnam-stríðinu og morðveislu Baader-Meinhof í Þýskalandi og Rauðu herdeildanna á Ítalíu.

Ef það er eitthvað eitt pólitískt hugtak sem 68-kynslóðin skilur eftir sig er það ekki sósíalismi, þótt margir hafi hallast þá átt, t.d. Tariq Ali, heldur frjálslyndi.

Ein besta bókin um viðhorf 68-fólksins er eftir Todd Gitlin: Ár vona, dagar reiði. Frjálslyndið hélst í hendur við sjálfhverfu. Gitlin segir frá kröfunni um að sérhver ætti að vera sinn eigin kenningarsmiður, leggja fram prívatanalísu á hnignun borgaralegs samfélags.

Hraðspólum söguna í 50 ár. 68-arfurinn, frjálslynd sjálfhverfa, er menninguna lifandi að drepa. Krafan um að hver og einn smíði sína kenningu um samfélagið leiðir til tómhyggju sjálfhverfustjórnmála. Sameiginleg gildi eru ekki lengur til né heldur sameiginlegur skilningur á hvernig samfélag skuli byggja. Allir eru spes og tefla fram eigin heimsmynd eftir naflaskoðun í 15 sekúndur. Ef allt er jafn rétt er ekkert rangt.

Vinsælasta sjálfshjálparbókin þessi misserin er 12 lífsreglur Jordan Peterson. Undirtitillinn er ,,móteitur gegn óreiðu." Þá óreiðu má rekja til 68-kynslóðarinnar.  


Evrópa gegn Trump, Pútín og Kína

Evrópusambandið er miður sín yfir þróun alþjóðamála síðustu missera. Á fundi leiðtoga ESB á Balkanskaga í vikunni kom fram það sjónarmið að Bandaríkin undir forystu Trump væru Evrópu jafn hættuleg og Rússland og Kína.

ESB telur sig standa fyrir alþjóðlegt frjálslyndi sem ættað er úr handbókum síðustu aldar. Trump starfar ekki samkvæmt áður viðurkenndum reglum. Hann velur sér skotmörk (Norður-Kóreu, Kína og núna síðast Íran) og þvingar fram niðurstöðu í þágu bandarískra hagsmuna. Evrópa valhoppar á eftir, meira af taugaveiklun en sannfæringu. 

Eina von Evrópu, segir New Republic, er að Trump sitji ekki nema eitt kjörtímabil. En allar líkur eru á að þau verði tvö. Evrópa, skrifar franskur ESB-sinni, á engan valkost við Bandaríkin og verður að láta sér lynda við Trump.

Gangi það eftir að Kína beygi sig undir vilja Trump eru engar líkur á að Íran standist áhlaupið í kjölfar uppsagnar Trump á kjarnorkuvopnasamningi sem Obama forveri hans gerði. Íran er þegar í vandræðum eftir að Írakar gáfu út skýra yfirlýsingu í nýafstöðnum kosningum um að landið ætlaði ekki að verða skjólstæðingur klerkanna í Teheran.

Evrópsk fyrirtæki munu ekki eiga viðskipti að óbreyttu við Íran af ótta við refsiaðgerðir Bandaríkjanna. Án viðskipta við evrópsk og bandarísk fyrirtæki blasir við stöðnun í Íran, sem gæti leitt til innanlandsófriðar.

Haldi Trump áfram að vinna pólitíska sigra með refsivönd viðskiptaþvingana að vopni verða til nýjar leikreglur í alþjóðamálum. Rússland og Kína gæta auðveldlega sætt sig við þær reglur en Evrópa hlekkjuð í ESB miklu síður.

 


mbl.is Ekkert verður af viðskiptastríði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 21. maí 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband