Trump sigrar Íran, eins og Norður-Kóreu

Trúarríkið Íran mun lúta í gras fyrir Trump Bandaríkjaforseta, eins og kommúnistaríkið Norður-Kórea. Leiðtogarnir í þessum tveim ríkjum átta sig á að þeir dagar eru liðnir að Bandaríkin verði höfð að leiksoppi lævísra harðstjóra.

Trump er hvorki háttvís né hlédrægur heldur frekur og hvass. Gagnvart öfgatrúarfólki, hvort heldur múslímsku eða kommúnísku, er hann rétta svarið.

Jú, ætli hvíthærði kallinn í samlita húsinu við Pensilvanínubreiðgötuna fái ekki nóbelinn að lokum.


mbl.is „Ekki treysta Bandaríkjunum“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Byltingaröflin kljúfa verkalýðshreyfinguna

Almenna verkalýðshreyfingin er sterk þegar hún stendur saman. Byltingaröflin, sem náð hafa undir sig nokkrum stórum verkalýðsfélögum, boða hatrömm verkföll. Afleiðingin verður klofningur.

Í einu af róttæku félögunum, VR, eru meðallaun grunnlauna 622 þús. kr. á mánuði en heildarlaun 668 þús. kr. að meðaltali. Þetta eru hærri laun en kennarar í grunn- og framhaldsskólum eru með. Byltingaröflin geta vælt út í eitt en tilfellið er að laun alls þorra almennings eru vel frambærileg upp í það að vera góð.

Byltingarfélögin munu klofna. Spurningin er hvort þau verði áður búin að kljúfa verkalýðshreyfinguna. Allir tapa, líka byltingarmennirnir, en þeim er hjartanlega sama. 


mbl.is Framsýn fordæmir myndband ASÍ
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Logi: Ísland ónýtt án ESB

Logi Einarsson formaður Samfylkingar klappar enn þann kratastein að Ísland eigi enga framtíð án Evrópusambandsins. Formaðurinn skrifar Moggagrein í dag og segir nánast ólíft á Íslandi án EES-samningsins, sem er aukaaðild að Evrópusambandinu, og beri að verja af ,,öllu afli."

EES-samningurinn var gerður fyrir þjóðir á leið inn í Evrópusambandið. Ísland er ekki á þeirri vegferð. Þjóðríki á leið úr Evrópusambandinu, Bretland, ætlar ekki að ganga inn í EES-samstarfið. Hvers vegna? Jú, vegna þess að í gegnum EES flæða reglugerðir og tilskipanir sem eru inngrip í fullveldi þjóða.

Við höfum slæma reynslu af EES-samningnum. Í skjóli EES gátu íslensku bankarnir stundað bankaviðskipti í Hollandi og Bretlandi og bakað okkur Icesave-vandræðin.

Við eigum að segja upp EES-samningnum til að hamla frekari vandræðum. Brennt barn forðast eldinn. Nema að barnið heiti Logi.

 


Bloggfærslur 9. maí 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband