Trump og þolmörk lýðræðisins

Andstæðingar Trump á Bandaríkjaþingi reyna meira á þolmörk lýðræðisins en forsetinn sjálfur. Eftir að Trump náði kjöri 2016 var rannsakað hvort Pútín Rússlandsforseti hefði ráðið úrslitum og tryggt sigur Trump á Hillary Clinton.

Ekkert kom út úr Pútín-rannsókninni. Atlagan sem nú stendur yfir snýst um hvort Trump hafi með ólögmætum hætti krafist rannsóknar úkraínskra yfirvalda á fjármálavafstri Hunter Biden, sonar Joe Biden sem keppir um forsetaútnefningu Demókrataflokksins.

Lýðræði hvílir á þeirri meginreglu að vilji kjósenda sé virtur. Ef þeirri meginreglu er fórnað verður lítið eftir af lýðræðinu.  


mbl.is „Hættuleg árás á rétt bandarísku þjóðarinnar“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verður NATO að NATOME? Ísland í stríð við Íran?

Trump Bandaríkjaforseta datt í hug að breyta Norður-Atlantshafsbandalaginu, NATO, í bandalag er næði til Miðjarðarhafs og yrði kallað NATOME. Slíka hrifningu vakti hugdettan að utanríkisráðuneytið í Washington lét óðara þau boð út ganga að hér væru komin drög að stefnubreytingu, segir í National Interest, en útgáfan helgar sig umræðu um bandarísk utanríkismál.

Svarnir andstæðingar Trump, frjálslyndir og vinstrimenn, eru vísir að stökkva á hugmyndina. Meðal þeirra er ósvikinn áhugi á herskárri stefnu, samanber Úkraínu, Líbýu og Sýrland, og vilji til að breyta heiminum með hernaðarmætti.

Ísland er í NATO og gæti orðið aðili að NATOME með stuttum fyrirvara. Fyrsta verkefni útvíkkaðs hernaðarbandalags er mögulega Íran. Íslendingar eiga þó ekkert sökótt við Persa.


Spanó dæmir aftur, Sigríður útilokuð

Róbert Spanó dæmdi í Mannréttindadómstól Evrópu fyrir æskuvin sinn Vilhjálm H. Vilhjálmsson í máli gegn íslenska ríkinu. Málið snerist um vinnulag dómsmálaráðherra Sigríðar Á. Andersen og alþingis við skipan dómara við landsrétt. 

Nú fer málið fyrir yfirrétt Mannréttindadómstólsins og aftur er Spanó mættur í dómarasætið en vitnisburður Sigríðar afþakkaður.

Hvað yrði sagt ef dómari í landsrétti fylgdi dómsmáli yfir í hæstarétt og dæmdi aftur í sama máli? Jú, það yrði kallað réttafarshneyksli, dómsmorð, enda útilokað að viðkomandi dómari væri óvilhallur. Dómur felur í sér afstöðu dómara, annars væri enginn dómur. Dómari sem fylgir máli frá einu dómsstigi yfir á annað er í raun að endurskoða sjálfan sig.

Einu sinni trúði Evrópa á guðlegt einveldi. Núna á guðlega dómara. Séð frá Íslandi er hvorttveggja brandari. 

 


mbl.is Sigríður fær ekki að svara fyrir sig
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nató stækkar, Trump veit ekki af því

Þrettánda ríkið sem gengur í Nató verður Norður-Makedónía. Lítið er fjallað um viðbótina og er af sem áður var þegar stækkun Nató þótti stórfrétt. Trump Bandaríkjaforseti veit líklega ekki af viðbótinni, segir í New Republic.

Nató er jafngamalt kalda stríðinu sem hófst eftir sigur Bandaríkjanna og Sovétríkjanna á Hitlers-Þýskalandi. Bandaríkin og fylgiríki stofnuðu Nató en Sovétríkin og undirsátar Varsjárbandalagið. Fyrir 30 árum féll Berlínarmúrinn, Sovétríkin leystust upp og Varsjárbandalagið var aflagt. Nató hélt velli.

Samtrygging er kjarninn í Nató-samstarfinu. Árás á eitt Nató-ríki jafngilti  árás á þau öll. Útrás Nató í austur og útþenslustefna sumra Nató ríkja, Tyrklands sérstaklega, þynnir út samtrygginguna og veikir þar með bandalagið.

Aðild að Nató er hornsteinn í utanríkispólitík Íslands nánast alla lýðveldissöguna. Sá hornsteinn er við það að molna í sundur. Þeim sem treyst er fyrir utanríkismálum þjóðarinnar ættu að hafa varann á.


XD nýr miðjuflokkur

Sjálfstæðisflokkurinn festist í hlutverki miðjuflokks. Fylgi Miðflokksins annars vegar og hins vegar Samfylkingar ræður því hvort mynduð verði landsstjórn til hægri eða vinstri.

Sjálfstæðisflokkurinn var einu sinni borgaralegur hægriflokkur. Núna er hann valdaflokkur á miðjunni. Nauðsynlegur sem slíkur en fáum kær. Flokkurinn er aðeins stór í samanburði aðra, sem liggja við 15 prósent fylgi á meðan móðurflokkurinn gælir við fimmtung atkvæða.

Er nær dregur kosningum versnar vígstaða Sjálfstæðisflokksins. Miðjuflokkar eru sjálfkrafa í aukahlutverki. Spyrjið framsóknarmenn.


mbl.is Fylgi Sjálfstæðisflokksins nær óbreytt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samfélagsmiðlar, samjöfnuður og óeirðir

Andóf og óeirðir hrjá lönd og þjóðir í meira mæli en oftast áður, segir i frétt Guardian um stofnun sem heldur bókhald um samfélagsfrið um veröld víða. Ástæður uppþota eru margvíslegar og einatt staðbundnar. 

Þó eru samnefnarar: stöðnun í tekjum, ójöfnuður, vantraust á ráðandi öflum, spilling og hnignun borgaralegra og pólitískra réttinda.

Samfélög hafa alltaf glímt við einn eða fleiri þessara þátta án stórkostlegra vandræða. Hvað er öðruvísi nú en áður?

Líkleg skýring, sem ekki er nefnd í fréttinni, er samfélagsmiðlar og samjöfnuðurinn sem þessi nýmiðlun gefur færi á. Áður fyrr gegndu hefðbundnir fjölmiðlar lykilhlutverki í samheldni samfélaga. Þeir bundnu saman þegna og yfirvöld, héldu að almenning viðurkenndri heimsmynd um að svona væru hlutirnir og ættu að vera. Fjölmiðlar voru einnig vettvangur gagnrýni - innan lögmætra marka. Ekki síst stýrðu fjölmiðlar samjöfnuði milli hópa innan samfélags og á milli samfélaga, t.d. nágrannaríkja.

Eðli samfélagsmiðla gagnólíkt fjölmiðlum. Þeir eru í senn vettvangur lítilla hópa, t.d. fjölskyldu sem ræðir málin á feisbókarsíðu, og alþjóðlegur miðill sem flytur fréttir, umræðu og sjónarmið heimshorna á milli.

Samjöfnuður samfélagsmiðla kemur í stað kjölfestu gömlu fjölmiðlanna. Fólk sem trúir að það hafa þokkalega afkomu og búi í sæmilegu samfélagi er ekki líklegt til að hópast á götur og torg að stunda óeirðir. Að sama skapi er óánægja hvati til uppþota.

Rómverski heimspekikeisarinn Markús Árelíus vissi sitthvað um völd og sannfæringu. ,,Lífið er skoðun," sagði hann upp á latínu. Æ fleirum finnst nú á dögum lífið skítt og vilja breytingar. Bara einhverjar. Viðhorf sem leiðir fólk oft úr öskunni í eldinn. 


Heimspeki í heimi óreiðu, Forn-Grikkir og samtíminn

BBC segir heimspekibækur njóta vaxandi hylli og spyr um ástæður. Eitt svar er að vestræn menning standi á flekaskilum líkt og sú forn-gríska á fjórðu öld fyrir Krist.

Ekki gott ef satt er. Aþena fórnaði sínum besta manni, heimspekingnum Sókratesi, og dæmdu hann til dauða. Lærisveinninn Platón varð afhuga lýðræði og boðaði sérfræðingaveldi heimspekinga.

Nemi Platóns, Aristóteles, varð kennari Alexanders sonar Filipusar af Makedóníu en þeir feðgar gengu af grísku borgríkjunum dauðum.

En kannski er öllu óhætt. Á sjóndeildarhring vestrænnar menningar samtímans eru ekki Sókrates, Platón eða Aristoteles heldur Tunberg, Kardashian auk Mehgan og Harry.


Björn Leví fær hrós

Ástæða er til að hrósa Birni Leví þingmanni Pírata fyrir að vekja máls á samskiptum þingmanna og hagaðila, sem oft eru kallaðir lobbíistar, og ganga erinda sérhagsmuna.

Þingmenn eiga að tileinka sér varkárni í samskiptum við hagaðila. 

Fyrir utan þingmennsku eru þingmenn æ oftar málshefjendur í opinberri umræðu, t.d. með virkni á samfélagsmiðlum. Það er því tvöföld ábyrgð á þingmönnum; þeir setja lög og fara með dagskrárvald í opinberri umræðu.


Læknar hóta, Helga Vala boðar stórslys

Helbrigðisstarfsfólk hótar reglulega lífi og limum almennings ef ekki verður farið að kröfum þeirra um hærra kaup og betri aðstöðu. Hótanir bíta enda fólki fremur annt um heilsuna.

Helga Vala þingmaður Samfylkingar bætir um betur og leggur drög að mannskæðu rútuslysi. Vinstrimenn þurfa alltaf að toppa umræðuna, eins manns dauði verður fjöldamorð í vinstriumræðunni.

Móðursýki er ekki heilbrigði heldur sjúklegt ástand vegna skerts veruleikaskyns.

Belging í heilbrigðisstéttum og dómgreindarlausum Helgum Völum á að láta sem vind um eyru þjóta. Ýkjurnar eru blöff til að krækja í fyrirsagnir og herja á ríkissjóð. Ef svo illa vildi til að það yrði mannskætt rútuslys myndi Helga Vala hreykja sér á skítahaug Samfylkingar. Eðlið segir til sín.  


mbl.is Segir Svandísi hóta starfsfólki Landspítalans
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Krónan hæðist að Samfylkingu og Viðreisn

Krónan er traustur bakhjarl efnahagslegs fullveldis þjóðarinnar. Þegar á bjátar, fall WOW og færri ferðamenn, gefur hún eftir í anda jafnaðarmennsku og dreifir byrðinni á alla þjóðina. Þegar vel árar styrkist krónan og allir njóta meiri kaupmáttar.

Samfylking og Viðreisn vilja skipta út krónu fyrir evru. Það er eins og að skipta út réttlæti fyrir óréttlæti, hagfræði fyrir stjörnuspeki.

Eins lengi og evru-krötunum í Samfylkingu og Viðreisn er haldið utan landsstjórnarinnar er krónunni óhætt. Og jöfnuði, réttlæti og skynsamlegri hagstjórn.


mbl.is Gengi krónunnar lækkaði um 3,1%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband