Spanó dæmir aftur, Sigríður útilokuð

Róbert Spanó dæmdi í Mannréttindadómstól Evrópu fyrir æskuvin sinn Vilhjálm H. Vilhjálmsson í máli gegn íslenska ríkinu. Málið snerist um vinnulag dómsmálaráðherra Sigríðar Á. Andersen og alþingis við skipan dómara við landsrétt. 

Nú fer málið fyrir yfirrétt Mannréttindadómstólsins og aftur er Spanó mættur í dómarasætið en vitnisburður Sigríðar afþakkaður.

Hvað yrði sagt ef dómari í landsrétti fylgdi dómsmáli yfir í hæstarétt og dæmdi aftur í sama máli? Jú, það yrði kallað réttafarshneyksli, dómsmorð, enda útilokað að viðkomandi dómari væri óvilhallur. Dómur felur í sér afstöðu dómara, annars væri enginn dómur. Dómari sem fylgir máli frá einu dómsstigi yfir á annað er í raun að endurskoða sjálfan sig.

Einu sinni trúði Evrópa á guðlegt einveldi. Núna á guðlega dómara. Séð frá Íslandi er hvorttveggja brandari. 

 


mbl.is Sigríður fær ekki að svara fyrir sig
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ragnhildur Kolka

þar sem Ísland er ekki bundið af niðurstöðu dómstólsins hefði aldrei átt að vísa þessu máli til yfirréttar. Menn áttu einfaldlega að segja takk og halda svo áfram lífinu. 

Ragnhildur Kolka, 18.1.2020 kl. 11:54

2 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Það er misskilningur að Ísland sé ekki bundið af niðurstöðum Mannréttindadómstólsins. Þvert á móti er það bundið í íslensk lög nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu sem veit ákvæðum sáttmálans lagagildi. Þar segir t.d. í 34. gr. um kærur einstaklinga:

"Dómstólnum er heimilt að taka við kærum frá hvaða einstaklingi sem er, samtökum eða hópi einstaklinga sem halda því fram að samningsaðili hafi brotið á þeim réttindi þau sem lýst er í samningnum og samningsviðaukum við hann. Samningsaðilar skuldbinda sig til að hindra ekki á nokkurn hátt raunhæfa beitingu þessa réttar."

Þetta er semsagt hluti af íslenskum lögum.

Guðmundur Ásgeirsson, 18.1.2020 kl. 15:38

3 Smámynd: Ragnhildur Kolka

Guðmundur, Erum við að lesa sama lagabálkinn?

2.gr segir: Úrlausnir mannréttindanefndar Evrópu, mannréttindadómstóls Evrópu og ráðherranefndar Evrópuráðsins eru ekki bindandi að íslenskum landsrétti.

Ísland getur semsagt látið kyrrt liggja ef það kýs svo.

Ragnhildur Kolka, 18.1.2020 kl. 17:53

4 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Nei, en þetta er einmitt rót misskilningsins.

Þó að úrlausnir dómstólsins séu ekki bindandi að íslenskum landsrétti (þ.e. fyrir lögskipti einstaklinga og lögaðila hér á landi) eru þær engu að síður bindandi að þjóðarétti (þ.e. fyrir íslenska ríkið sjálft).

Misskilningurinn stafar af því þegar ólöglærðir einstaklingar skilja ekki muninn á landsrétti annars vegar og þjóðarétti hins vegar og gera þess vegna ekki greinarmun á milli þessara ólíku réttarkerfa.

Íslenskur landsréttur gildir "inn á við" um samskipti milli einstaklinga og lögaðila innan íslenskrar lögsögu. Þjóðaréttur gildir hins vegar "út á við" um samskipti Íslands við önnur ríki.

Undirritun Mannréttindasáttmála Evrópu fyrir hönd Íslands felur í sér loforð íslenska ríkisins við hin 46 aðildarríki sáttmálans um að virða þær reglur sem í hann eru bundnar, þar á meðal um dómstólinn. Komist dómstólinn að þeirri niðurstöðu að Ísland hafi brotið þetta loforð er slík niðurstaða jafn bindandi gagnvart hinum aðildarríkjunum eins og ef t.d. EFTA dómstóllinn kemst að þeirri niðurstöðu að Ísland hafi brotið gegn EES samningnum, eins og mörg dæmi eru til um.

Guðmundur Ásgeirsson, 18.1.2020 kl. 19:59

5 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Hvers konar dómstóll er það sem skipar dómara til að dæma um eigin sök eða sakleysi? Niðurstaðan hlýtur að vera augljós.

Það er orðin spurning, sama hvort Ísland þurfi að hlíta þessum dómstól eða ekki, um hvort aðild að þessum dómstól sé verjandi.

Gunnar Heiðarsson, 19.1.2020 kl. 08:02

6 Smámynd: Kjartan Sigurgeirsson

Hef ekki trú á að þetta vinnulag tíðkist víða í veröldinni að dómari í undirrétti fylgi niðurstöðu sinni upp í yfirrétt sé efast um réttmæti dóms sem hann hefur kveðið upp. Til hvers að áfrýja máli til yfirréttar ef málflutningur undirréttar fylgir upp.  Er dómstóll með þessa siðferðiskennd til eftirbreytni? 

Kjartan Sigurgeirsson, 19.1.2020 kl. 11:22

7 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Gunnar Heiðarsson.

Þetta mál snýst ekki um sök eða sakleysi dómara, heldur hvort löglega hafi verið staðið að því að skipa dómara við Landsrétt.

Aðild að Mannréttindadómstól Evrópu er hluti af Mannréttindasáttmálanum og þar af leiðandi lögbundin samkvæmt íslenskum lögum.

Ef þú er andvígur aðild að Mannréttindasáttmálanum ættirðu kannski að berjast fyrir því að lög nr. 62/1994 verði felld úr gildi, aðild Ísland að Evrópuráðinu verði sagt upp og þar með skipum við okkur í hóp með Hvíta Rússlandi og Kasakstan, einu Evrópuríkjunum sem standa utan Evrópuráðsins. Þér er auðvitað frjálst að hafa þá afstöðu ef þú vilt.

Guðmundur Ásgeirsson, 19.1.2020 kl. 14:53

8 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Kjartan Sigurgeirsson.

Þetta er hvorki vinnulag né spurning um siðferðiskennd, heldur er einfaldlega kveðið á um þetta fyrirkomulag í 4. mgr. 26. Mannréttindasáttmála Evrópu, en þar segir:

"Sjálfskipaður í deildina og yfirdeildina er dómari sá sem er kosinn af hálfu þess samningsaðila sem er málsaðili. Fyrirfinnist enginn slíkur eða geti sá dómari ekki tekið þátt í meðferð málsins tilnefnir forseti dómstólsins dómara af lista sem fyrrnefndur samningsaðili hefur þegar lagt fram."

Áður en hægt er að svara því hvort slíkt fyrirkomulag tíðkist víðar í veröldinni, þarf fyrst að svara þeirri spurningu hvort einhverstaðar fyrirfinnist sambærilegur dómstóll sem einstaklingar geta leitað til vegna brota gegn þjóðréttarlegum mannréttindaskuldbindingum og starfar í tveimur deildum þar sem hægt er að skjóta niðurstöðu til yfirdeildar í því skyni að fá hana endurskoðaða? Mér er ekki kunnugt um neinn annan dómstól í veröldinni sem þetta á við um.

Ef við berum þetta saman við annan dómstól sem Ísland á aðild að, EFTA dómstólinn, þá er hann líka skipaður dómurum frá aðildarríkjum, en forseti hans um þessar mundir er Páll Hreinsson. Þar er aðeins eitt dómstig og engin yfirdeild, þannig að málsaðilar geta ekki leitað neinnar endurskoðunar á úrlausnum dómsins. Það hlýtur því að þurfa að spyrja sig, hvort það sé ekki betur til þess fallið að tryggja réttláta úrlausn ef hægt er að leita endurskoðunar hennar, heldur en ef það er ekki hægt. Sé sú mælistika notuð kemur Mannréttindadómstóllinn vel úr þeim samanburði.

Beiðni um að fá úrlausn MDE endurskoðaða af yfirdeild felur ekki í sér áfrýjun samkvæmt formlegri skilgreiningu hugtaksins, heldur kæru. Enn fremur er ekki um undirrétt og yfirrétt að ræða heldur eru þetta tvær deilir innan sama dómstóls.

Til hvers að áfrýja máli til yfirréttar ef málflutningur undirréttar fylgir upp? Svarið við því er einfalt: yfirrétturinn þarf eðli máls samkvæmt að fá málatilbúnað fyrir undirrétti í sínar hendur til þess að geta endurskoðað hann, annars væri ekkert til að endurskoða. Þetta gildir um allar áfrýjanir eða málskot til æðri dómstóla, hvort sem um er að að ræða innlenda málsmeðferð fyrir íslenskum dómstólum, eða fyrir þeim fjölþjóðlegum dómstólum sem Ísland á aðild að svo sem MDE og EFTA dómstólnum.

Guðmundur Ásgeirsson, 19.1.2020 kl. 15:29

9 Smámynd: Kjartan Sigurgeirsson

Ég minnist þess ekki að íslenskur héraðsdómari hafi fylgt máli sem hann dæmdi í upp í Hæstarétt, vera má að ég hafi ekki fylgst nógu vel með dómsmálum hér á landi til að geta verið alveg viss um að aldrei hafi verið undantekningar þar á. 

Ég skil ekki af hverju Róbert Spaná sat í dómi með öll þau tengsl sem hann hefur inn í íslenskt réttarkerfi, hvað þá heldur að hann skuli hanga í dómarasæti eins og hundur á roði.

Það skiptir í raun engu máli hvort þetta er samkvæmt mannréttindasáttmál Evrópu eða öðrum reglum, þetta fyrirkomulag er ógeðfellt og ber vott um spillingu.

Kjartan Sigurgeirsson, 19.1.2020 kl. 16:16

10 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Kjartan.

Þú verður að gera greinarmun á annars vegar innlendum dómstólum sem leysa úr málum samkvæmt reglum landsréttar og hinsvegar fjölþjóðlegum dómstólum sem leysa úr málum á grundvelli þjóðaréttar. Þetta eru tvö ólík fyrirbæri og þess vegna geta reglurnar verið mismunandi að ýmsu leyti.

Það er mjög auðvelt að skilja hvers vegna Róbert Spanó sat í dómi og mun sitja í yfirdeild þegar málið verður flutt þar. Það er einfaldlega vegna þess að ákvæði Mannréttindasáttmála mæla fyrir um það og honum er skylt að fylgja með þeim, hefur hreinlega ekki annarra kosta völ. Sú ályktun þín að það sé vegna þess að hann "hangi eins og hundur á roði" á sér enga stoð í raunveruleikanum og er aðeins þín eigin hugmynd.

Þér er frjálst að hafa þá skoðun að þetta fyrirkomulag sé ógeðfellt, en ef þú vilt halda því fram að það beri vott um spillingu ertu með því að gefa í skyn að öll 47 ríki Evrópuráðsins sem hafa komið sér saman um og samþykkt þessar reglur, séu spillt. Það er brött fullyrðing.

Hvaða skoðun sem maður vill hafa á hlutunum er að minnsta kosti alltaf betra ef sú afstaða byggist á staðreyndum, en svo að það sé hægt verður maður að vita hverjar staðreyndirnar eru. Annars er hætt við að ályktanir séu dregnar af ranghugmyndum, sem er sjaldnast gott.

Guðmundur Ásgeirsson, 19.1.2020 kl. 17:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband