Samfélagsmiðlar, samjöfnuður og óeirðir

Andóf og óeirðir hrjá lönd og þjóðir í meira mæli en oftast áður, segir i frétt Guardian um stofnun sem heldur bókhald um samfélagsfrið um veröld víða. Ástæður uppþota eru margvíslegar og einatt staðbundnar. 

Þó eru samnefnarar: stöðnun í tekjum, ójöfnuður, vantraust á ráðandi öflum, spilling og hnignun borgaralegra og pólitískra réttinda.

Samfélög hafa alltaf glímt við einn eða fleiri þessara þátta án stórkostlegra vandræða. Hvað er öðruvísi nú en áður?

Líkleg skýring, sem ekki er nefnd í fréttinni, er samfélagsmiðlar og samjöfnuðurinn sem þessi nýmiðlun gefur færi á. Áður fyrr gegndu hefðbundnir fjölmiðlar lykilhlutverki í samheldni samfélaga. Þeir bundnu saman þegna og yfirvöld, héldu að almenning viðurkenndri heimsmynd um að svona væru hlutirnir og ættu að vera. Fjölmiðlar voru einnig vettvangur gagnrýni - innan lögmætra marka. Ekki síst stýrðu fjölmiðlar samjöfnuði milli hópa innan samfélags og á milli samfélaga, t.d. nágrannaríkja.

Eðli samfélagsmiðla gagnólíkt fjölmiðlum. Þeir eru í senn vettvangur lítilla hópa, t.d. fjölskyldu sem ræðir málin á feisbókarsíðu, og alþjóðlegur miðill sem flytur fréttir, umræðu og sjónarmið heimshorna á milli.

Samjöfnuður samfélagsmiðla kemur í stað kjölfestu gömlu fjölmiðlanna. Fólk sem trúir að það hafa þokkalega afkomu og búi í sæmilegu samfélagi er ekki líklegt til að hópast á götur og torg að stunda óeirðir. Að sama skapi er óánægja hvati til uppþota.

Rómverski heimspekikeisarinn Markús Árelíus vissi sitthvað um völd og sannfæringu. ,,Lífið er skoðun," sagði hann upp á latínu. Æ fleirum finnst nú á dögum lífið skítt og vilja breytingar. Bara einhverjar. Viðhorf sem leiðir fólk oft úr öskunni í eldinn. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband