Opinber persóna á opinberum vettvangi er opinbert mál

Reglan í fyrirsögninni gildir almennt. Almennir launþegar eru ekki opinberar persónur og því eru laun þeirra ekki opinbert mál. Þingmenn eru opinberar persónur og laun þeirra eru opinbert mál.

Að þessu sögðu er klént hjá Helga Hrafni að hafa ekki skoðun á launakjörum þingmanna. Ef hann getur ekki haft skoðun á þeim getur þingmaðurinn ekki haft skoðun á launakjörum almennt. En laun eru aðalumræðuefni stjórnmálanna.

Annað tveggja ætti Helgi Hrafn að skipta um skoðun eða hætta á þingi.


mbl.is „Langar ekki að svara þessum spurningum“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Endalok þjóðarflokka? Ekki á Íslandi

Í flestum vestrænum ríkjum voru til skamms tíma 1 - 2 þjóðarflokkar sem réðu ferðinni í stjórnmálum viðkomandi ríkja. Á Norðurlöndum voru það verkamannaflokkar en í Þýskalandi sósíaldemókratar og kristilegir demókratar.

Þýsku þjóðarflokkarnir, SPD og CDU, láta á sjá á meðan smáflokkum vex fylgi, eru mð 8 til 15 prósent. Í Die Welt er þetta útskýrt því að gömul hugmyndafræði, oft kennd við vinstri og hægri, sé úrelt.

Á Íslandi var aðeins einn þjóðarflokkur, Sjálfstæðisflokkurinn. Þótt fylgið hafi minnkað á þessari öld verður tæplega sagt að flokkurinn hafi misst stöðu sína sem leiðandi stjórnmálafl.

Þá eru hugtökin vinstri og hægri enn vel nýtileg í íslenskri stjórnmálaumræðu. Merking hugtakanna breytist. Hægripólitík þýddi t.d. frjálshyggja um aldamótin og ekki er langt síðan að vinstristefna var annað orð yfir ríkisforsjá. En þegar vinstri grænn forsætisráðherra boðar einkavæðingu ríkisbanka verður hann ekki sakaður um ríkisforsjá, svo dæmi sé tekið. Og frjálshyggja er ekki ráðandi stefna Sjálfstæðisflokksins.

Ríkisstjórn Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokks mun breyta stjórnmálaumræðunni hér á landi. Ef til vill verða Vinstri grænir hinn þjóðarflokkurinn, sem ásamt Sjálfstæðisflokknum ræður ferðinni í stjórnmálum á Fróni.


Trump hrósar sigri

Sérstakur saksóknari, Robert Mu­ell­er, rannsakaði meint samsæri Trump og/eða aðstoðarmanna hans um að fá Rússa til að tryggja Trump forsetaembætti.

Niðurstaðan er að 13 Rússar eru ákærðir en enginn í Trumpliðinu. Ákærur á hendur Rússa er mest til að sýnast.

Bandaríkin skipta sér reglulega af kosningum í öðrum ríkjum. Að ákæra einhverja Rússa um að setja upp vefsíður til að koma pólitískum skilaboðum á framfæri er hjákátlegt.

Trump hrósar sigri vegna þess að engin innistæða var fyrir rannsókninni.


mbl.is „Ekkert leynimakk!“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Menntun, einstaklingur og atvinna

Um langan aldur menntaði fólk sig til starfa. Eftirspurn var eftir háskólamenntuðu fólki, ekki síst hjá hinu opinbera. Þeir sem gengu menntaveginn gátu vænst starfa við hæfi. Sú tíð er liðin.

Tvær breytur skýra að stórum hluta atvinnuleysi háskólamenntaðra. Í fyrsta lagi er framboðið meira en eftirspurn. Í öðru lagi er þróun atvinnulífsins, opinberi geirinn meðtalin, ófyrirséðari en áður.

Eftir því sem aðskilnaðurinn milli skólagöngu og atvinnu verður skýrari verður brýnna en áður að skilja menntun þannig hún er ekki í þágu atvinnulífsins heldur einstaklingsins. Samfélagið býður ungu fólki upp á menntun til að það fái tækifæri til að þroska sig en ekki verða tannhjól í gangverki atvinnulífsins.


mbl.is BHM lengi bent á tölur um atvinnuleysi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Börn, smálán og kosningaréttur

Við viljum vernda börnin fyrir freistingum smálána. Ríkið skal setja reglur um ungmenni ánetjist ekki okurlánum - er krafan. Samtímis er vilji til að 16 ára ungmenni fái kosningarétt.

Hér verður ekki bæði sleppt og haldið. Ef 16 ára einstaklingur er nógu fullorðinn til að njóta kosningaréttar er viðkomandi fullfær um að taka sjálfstæðar ákvarðanir um fjármál sín.

Einstaklingar eiga að verða sjálfráða samkvæmt lögum þegar þeir ná tilteknum aldri, 16, 17 eða 18 ára. Ríkið á ekki að senda tvöföld skilaboð til borgaranna um hvenær sjálfræðisaldri er náð.


mbl.is Endurskoða lögin nái þau ekki tilgangi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gervigrasrót fjölmiðla og samfélagsmiðla

Gervigrasrót er það kallað þegar fjölmiðlar í slagtogi með samfélagsmiðlum draga upp þá mynd að almenningur, grasrótin, sé fylgjandi eða mótfallin einhverju dægurmáli. Orðfærið ,,bloggheimar loga" er gjarnan notað þegar vel tekst til með hönnun gervigrasrótar.

Hönnun gervigrasrótar er heimilisiðnaður vinstrimanna á Íslandi. Fjölmiðlar á þeirra vegum, t.d. Stundin, RÚV og Kjarninn fleyta málum inn í umræðuna, vinstrigrasrótin á bloggi og samfélagsmiðlum tekur við og magnar upp málið. Fjölmiðlar taka við boltanum og greina frá: bloggheimar loga.

Í Bandaríkjunum er hönnun gervigrasrótar stóriðnaður og er þar kölluð ,,astroturf." Sharyl Attkisson blaðamaður gerir grein fyrir helstu vinnubrögðunum við hönnunina. Lýsingar hennar ríma prýðilega við vinnubrögð vinstrimanna á Fróni.


Andrés Ingi gerir Steingrími J. grikk

Yngsti þingmaður Vinstri grænna, Andrés Ingi Jónsson, stekkur á vinsældahraðlestina sem fordæmir starfskjör þingmanna og birtir endurgreiðslurnar sem hann þáði fyrsta þingárið sitt.

Andrés Ingi dregur þar með athyglina að elsta þingmanni Vinstri grænna, Steingrími J. Sigfússyni, sem setið hefur á þingi í heil 35 ár.

Uppreiknaður kostnaður þjóðarinnar vegna þingsetu Steingríms J. er myndarleg fjárhæð. Jafnvel þótt Icesave yrði ekki talið með.


mbl.is Forsætisnefnd fundar um starfskjör
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stundarhroki - fjölmiðlar eru ekki lýðræðið

Stundin og Reykjavík Media telja sig handhafa lýðræðisins á Íslandi. Það er misskilningur. Lýðræðið er tvennt. Í fyrsta lagi virðing fyrir meginreglum, s.s. mannréttindum og tjáningarfrelsi. Í öðru lagi er lýðræðið stjórnskipun, formreglur um valdaskiptingu og hvernig deilumál skuli útkljáð.

Í deilu Stundarinnar/Reykjavík Media við þrotabú Glitnis er tekist á um mörk mannréttinda (persónuverndar) og tjáningarfrelsis. Dómstólar úrskurða um deiluefnið.

Í nafni tjáningarfrelsis ráðast Reykjavík Media, þá í samstarfi við RÚV, á æru manna, t.d. Kára Arnór Árnason, án þess að hafa nokkur gögn í höndunum sem styðja ásakanir. Ef við látum fjölmiðla um að ákveða hvað skuli birt og hvað ekki er hætt við að mannréttindi eins og persónuvernd færu fyrir lítið.

Deila Stundarinnar/Reykjavík Media við þrotabú Glitnis snýst um bankaupplýsingar mörg hundruð Íslendinga.

Upplýsingarnar varða bankaviðskipti fyrir meira en tíu árum. Stundin/Reykjavík Media láta eins og himinn og jörð farist ef þessar upplýsingar birtist ekki strax. Tíu ára gömul frétt er úldin og skemmist ekki meira við þann tíma sem tekur dómstóla að finna úrlausn á deiluefninu.


mbl.is „Óboðlegt íslensku lýðræði“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tvö mál sýna íslensk stjórnmál eðlileg á ný

Brottvísun Eyþórs Arnalds úr Höfða annars vegar og hins vegar ökustyrkir Ásmundar Friðrikssonar sýna að eðlilegt ástand stjórnmála er óðum að myndast á ný.

Eftir hrun var tekist á um meginmál, ESB-aðild og stjórnarskrá. Í meginmálum verða menn hatrammir, framtíð lýðveldisins er í húfi.

Núna rífumst við um tittlingaskít, hver situr hvar og hvað á að rukka fyrir akstur þingmanns. Þessi þróun er jákvæð. Hún sýnir að meginmál samfélagsins eru í lagi. Þjarkið er um smámuni.


mbl.is Sætaskipan var ekki niðurnjörvuð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eigendur Arion leysa til sín milljarða

Lækkun eiginfjárhlutfalls er gerð með því að greiða eigendum hlutafjár reiðufé. Á viðskiptamáli er stundum talað um ,,offjármögnun" til að útskýra og réttlæta slíkar greiðslur til hluthafa.

Núverandi eigendur Arion kaupa hlut ríkisins í bankanum áður en eiginfjárhlutfallið er lækkað með greiðslu peninga til hluthafa.

Kaupverðið, sem ríkið fékk í sinn hlut, endurspeglaði vonandi að Arion er offjármagnaður, þ.e. getur greitt hluthöfum sínum milljarða út í hönd.


mbl.is Vilja lækka eiginfjárhlutfallið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband