Átök, sjálfhverfa; íslensk stjórnmál á 21stu öld

Skýringin á átakastjórnmálum er einföld. Hrunið ól af sér tortryggni, sem aftur leiddi til pólitískrar lausungar er birtist í fylgissveiflum, vinstristjórn 2009-2013 yfir í hægristjórn 2013-2016 og loks stjórnarkreppustjórn 2016-2017, og fjölgun flokka - þeir eru sjö á alþingi núna.

Flóknari skýring er að uppstokkun á vinstri væng stjórnmálanna, stofnun Samfylkingar og Vinstri grænna um aldamótin, var ekki búin að finna sér farveg þegar erlendir straumar sjálfhverfustjórnmála (ídentití-pólitík) brutust inn á sviðið. Skilgetin afkvæmi sjálfhverfustjórnmála eru Píratar og Björt framtíð vinstra megin en Viðreisn og Flokkur fólksins hægra megin. Sjálfhverfustjórnmál eru í eðli sínu sundrungarafl.

Þriðji þátturinn er tröllsleg fyrirferð Evrópuumræðunnar tímabilið 2005 til 2013 sem t.d. gerði Samfylkingu og Sjálfstæðisflokk að svörnum óvinum. Þessir flokkar voru í langan tíma á lýðveldisárunum í pólitísku vinfengi, sbr. viðreisnarárin.

Loks er það fjórði liðurinn sem er að öfgalausi og rótfasti miðjuflokkur stjórnmálanna, Framsóknarflokkurinn, fór nokkur pólitísk heljarstökk á fáum árum. ESB-sinnaður undir Halldóri Ásgrímssyni, smælki í höndum Guðna Ágústssonar en varð stærsti flokkur landsins með Sigmund Davíð sem formann og þar að auki eindreginn andstæðingur ESB-aðilar. Sigurður Ingi, sveitungi Guðna, stýrir Framsókn frá 2017 og, tja, tryggði flokknum setu í stjórnarráðinu.

Hver einstakur af þeim fjórum þáttum sem hér eru nefndir gæti leitt til átakastjórnmála, þar sem menn veifa fremur röngu tré en öngvu. Í ljósi hamfaranna er mesta furða að hér ríki ekki borgarastyrjöld.


mbl.is „Gagnrýni á gagnrýni um gagnrýni“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Markaðir falla, launþegar græða

Hluti af skýringunni á falli verðbréfa er að launþegar í Bandaríkjunum fá hærra kaup, vegna þess að atvinnuleysi er í sögulegu lágmarki. Hærra kaupgjald leiðir til hagvaxtar og verðbólgu, sem aftur leiðir til hærri vaxta.

New York Times skýrir verðfall á hlutabréfamörkuðum út frá þessari forsendu og Guardian er á sömu slóðum.

Verðfallið er í raun leiðrétting á verðbréfabólu sem myndaðist vegna þess að peningar voru um hríð ókeypis - án vaxta. Sú tíð er liðin.


mbl.is Misjafnar skoðanir á orsökum lækkunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Litli stóri vinstriflokkurinn - til hamingju með afmælið

Vinstri grænir voru stofnaðir upp úr þeim hluta Alþýðubandalagsins sem ekki taldi æskilegt að ganga í Samfylkinguna um aldamótin. Margir í Samfylkingunni, Össur Skarphéðinsson, fyrrum alþýðubandalagsmaður þar fremstur meðal jafninga, vildu alls ekki Steingrím J., Ögmund, Hjörleif Gutt., Ragnar Arnalds og þá félaga inn í Samfó.

Í huga samfylkingarmanna áttu Vinstri grænir að vera smáflokkur með tíu prósent fylgi. Samfylking skyldi verða 30 prósent flokkur - ,,hinn turninn" í íslenskum stjórnmálum.

Vinstri grænir tóku stjórnmál alvarlega, líkt og Alþýðubandalagið forðum daga. Samfylkingin varð aftur pólitískur glaumgosaflokkur sem ók seglum eftir vindi. Og hann blés frá Brussel.

Á 20 ára afmæli eru Vinstri grænir traust stjórnmálaafl sem jafnt og þétt treystir stöðu sína sem kjölfesta íslenskra vinstristjórnmála. 

Til hamingju með afmælið, Vinstrihreyfingin - grænt framboð. Lifið heil.


mbl.is Hefur söguritun fyrir 20 ára afmæli VG
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Trump og Silja Dögg

Þingmaður Framsóknarflokksins, Silja Dögg Gunnarsdóttir, fékk á sig gagnrýni frá trúarleiðtogum gyðinga í Evrópu fyrir að leggja fram frumvarp um bann á umskurði drengja. Frumvarpið er vitanlega íslenskt innanríkismál, en gyðingar í Evrópu óttast að samþykkt þess hafi áhrif víða um heim.

Trump var kjörinn forseti Bandaríkjanna á bandarískum forsendum. Hann bauð sig fram gegn þarlendri stjórnmálastétt og fékk sigur. En kjör Trump boðaði gríðarlegar breytingar í alþjóðastjórnmálum.

Frumvarp Silju Daggar og forsetakjör Trump sýna frá gagnólíkum forsendum að lítilfjörleg innanríkismál (1-2 umskurðir drengja á Ísland á ári) og stórmál eins og forsetakjör í Bandaríkjunum eru alþjóðlegir atburðir.

Pútín Rússlandsforseti gerði ekki útslagið í bandarísku forsetakosningunum í nóvember 2016, ekki frekar en að frumvarp Silju Daggar sé norrænt samsæri gegn gyðingum og múslímum. En vegna þess að við búum í nettengdu heimsþorpi er fólk tilbúið að trúa hverskyns tröllasögum um að útlend grýla sitji um velferð blessaðra barnanna.


mbl.is Telja FBI grafa undan Trump
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 6. febrúar 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband