Styrmir og kúgun þeirra umburðarlyndu

Sjálfskipaðir fulltrúar umburðarlyndis í Sjálfstæðisflokknum reyndu í áravís að kúga afgerandi meirihluta flokksmanna til að fallast á ESB-aðild Íslands. Þeir ,,umburðarlyndu" tóku hvern landsfundinn á fætur öðrum í gíslingu og kröfðust að meirihluti flokksins tæki tillit til sértrúarstefnunnar í ESB-málinu. Loks hrökkluðust þeir ,,umburðarlyndu" úr flokknum og stofnuðu Viðreisn.

Áslaug Friðriksdóttir borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins fékk ekki framgang á lista flokksins fyrir borgarstjórnarkosningarnar. Hún notar sömu rök og viðreisnarfólkið; það sé skortur á umburðarlyndi í Sjálfstæðisflokknum.

Styrmir Gunnarsson fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins fellur fyrir málflutningi Áslaugar í grein í dag. Málflutningur Áslaugar og Styrmis gengur út á að minnihlutasjónarmið eigi skilið að fulltrúa á fremsta bekk, þ.e. öruggt sæti á framboðslista - annað sé skortur á umburðarlyndi.

Þessi málflutningur stenst ekki skoðun. Minnihlutasjónarmið eiga ekki að fá ráðandi stöðu í nokkrum flokki, það brýtur þvert gegn þeirri meginreglu að meirihlutinn skuli ráða ferðinni. Minnihlutafólkið á vitanlega að hafa fullt málfrelsi og tillögurétt samkvæmt réttum og góðum félagsreglum en ekki fá forystuhlutverk vegna ,,umburðarlyndis."

Tilraunir minnihlutafólksins til að kúga meirihlutann er aðeins frekjukast klætt ásökunum um skort á ,,umburðarlyndi."


Fullveldisdagurinn mikilvægari en 17. júní

Fullveldið 1. desember 1918 er stærri áfangi í sjálfstæðisbaráttunni en lýðveldisstofnunin 17. júní 1944. Með fullveldinu náðust fram allar kröfur Jóns Sigurðssonar, sem hann setti fram í tímamótagrein, Hugvekja til Íslendinga árið 1848.

Með fullveldinu fékkst viðurkennt að Ísland væri aðeins í konungssambandi við Danmörku en ekki undirsett dönsku stjórnsýslunni.

Ísland fékk fullveldi, ekki vegna örlæti Dana, heldur af tveim ástæðum öðrum. Í fyrsta lagi stóð meginhluti þjóðarinnar fast á kröfunni um fullveldi í áratugi. Í öðru lagi sköpuðust þær aðstæður í lok fyrri heimsstyrjaldar að Danir töldu sig eiga réttmæta kröfu um að hirða lönd af Þjóðverjum sem þeir töpuðu í stríðinu 1864. Þessi lönd, Slésvík, voru byggð Dönum. Þjóðríkjareglan er Woodrow Wilson Bandaríkjaforseti setti fram í lok fyrra stríðs kvað á um að þjóðir ættu kröfu á ríki.

Danir ákváðu sumarið 1918 að veita Íslendingum fullveldi til að standa betur að víg í fyrirsjáanlegum friðarsamningum eftir lok fyrra stríðs. Það gekk eftir. Á grundvelli þjóðríkjareglunnar fékk Ísland fullveldi og Danir dönskumælandi Þjóðverja, ásamt nyrstu héruðum Slésvíkur.

(Innan sviga er þess að geta að þegar Danir töpuðu Slésvík í hendur Þjóðverja 1864 var uppi hugmynd í Kaupmannahöfn að bjóða Þjóðverjum Ísland en fá í staðinn Slésvíkurlönd. Segir okkur að ekki er trútt að láta öðrum fullveldi sitt).

Þegar Ísland stofnaði lýðveldi, í enn öðru stríði, heimsstríðinu seinna, var stofndagur fæðingardagur Jóns Sigurðssonar. En stærsti sigurinn vannst 1918. Við ættum að gera 1. desember að frídegi.


mbl.is Miðflokkurinn vill bæta við frídegi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bretar í vanda: engar sannanir fyrir rússneskt eiturtilræði

Bresk stjórnvöld hrundu af stað alþjóðlegum refsiaðgerðum gegn Rússlandi vegna banatilræðis í Sailsbury gegn landflótta rússneskum njósnara. Engar sannanir eru fyrir aðild rússneskra yfirvalda að tilræðinu.

Die Welt segir frá 27 spurningum sem Rússar beina að breskum stjórnvöldum vegna málsins. Spurningarnar lúta að tæknilegri útfærslu á tilræðinu og hvaða sannanir eru fyrir aðild rússneskra yfirvalda.

Ef Bretum mistekst að sýna fram á aðild Moskvu að tilræðinu verður tapa bresk stjórnvöld trúverðugleika, bæði innanlands og erlendis.


mbl.is Vísuðu 59 erindrekum 23 ríkja úr landi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Krossfestingin, sáluhjálp og skipulag

Fyrir tvö þúsund árum var maður krossfestur í Jerúsalem. Setulið Rómverja og íbúar, gyðingar, tóku höndum saman um koma fyrir kattarnef manni sem hvorki virti forræði heimsveldisins né heimamanna.

Helgisagnir spruttu af þeim krossfesta, sem hét Jesú og mun hafa verið söguleg persóna. Söfnuðinum er hélt helgisögunni á lofti óx ásmegin og fékk fylgjendur þvert á kynþætti og þjóðir. Þegar hallaði undan fæti fjölgyðisríkis Rómverja var kristni gerð að ríkistrú. Helstu talsmenn trúarinnar, biskupar, komu sér fyrir í miðlægum borgum eins og Róm, Miklagarði og Jerúsalem.

Sögulegt hlutverk kristni er tvíþætt. Í fyrsta lagi veitti trúin einstaklingum sáluhjálp. Sú útgáfa trúarinnar, sem fékk mesta útbreiðslu, kenndi að Jesú væri þríeinn guðssonur er dó fyrir syndir mannanna í fortíð og framtíð. Ennfremur að Jesú tæki við öllum í guðsríki á hinstu stund hafi þeir gert yfirbót. Maðurinn, jafn takmarkað eintak og hann er, þarf trú og sáluhjálp til að rata í veröldinni, gera líf sitt merkingarbært.

Í öðru lagi þjónaði kristni samfélagshlutverki. Eftir hrun Rómar var úti um Pax Romana, rómverskan frið, er hafði kennt keltum og germönum vestan Rínar siðmenningu. Hrun Rómar og þjóðflutningar germanskra þjóða vestur, til svæða sem nú eru kennd við Frakkland, Þýskaland, Spán og Bretland, var tími upplausnar í Evrópu.

Í miðaldaskipulaginu, sem reis úr rústum Rómarveldis, var kristni miðlæg. Kastalinn og kirkjan voru hornsteinar samfélagsins. Þegar miðöldum lauk og einvaldskonungar yfirtóku aðalsveldi, var það hásætið og altarið sem enn réðu ferðinni. Kristni sýndi sig búa yfir aðlögunarhæfni sem engin trúarbrögð önnur státa af. Frá því að vera trú uppreisnarmanns í gyðingalandi verður kristni besti vinur vestræns þjóðskipulags.

Jafnvel á Íslandi. Heiðnir menn, sem þekktu Hvíta-Krist mest í afspurn, skipulögðu goðaveldi fljótlega eftir landnám. Æsir og vættir léku þar hlutverk líkt og hjá öðrum germönskum þjóðum. Þegar Íslendingum stóð til boða að gerast kristnir, um árið 1000,að vísu með þrýstingi frá Noregskonungi, ræddu þeir málin á fundi alþingis. Niðurstaðan varð að landinn skyldi taka kristni að nafninu til, heiðnir máttu áfram blóta, stunda fóstureyðingar á sína vísu og eta hrossakjöt sem kristnum miðaldamönnum var bannað. Íslendingar tóku sér góðan tíma að verða kristnir, um hundrað ár eða svo, og allir voru sáttir.

Þegar útþenslutími Evrópu rann í garð á nýöld var kristni enn í veigamiklu hlutverki. Heiminum skyldi bjargað frá trúleysi og vantrú með kristnum gildum, vopnum og verslun.

En nú er hún Snorrabúð stekkur. Í 200 ár eða þar um bil er kristni víkjandi. Tilraunir á síðustu öld með veraldleg trúarbrögð, kommúnisma og nasisma, gáfust illa. Tilbeiðsla einstaklingsins og mannréttinda, sem vinsæl er í dag, skortir dulúð og kynngimögnun kristninnar. Aðrir trúarkostir, t.d. íslam, eru ekki raunhæfir og þarf ekki að fjölyrða um það.

Án sáluhjálpar og trúarlegrar undirstöðu samfélagsskipunar eru vesturlönd reikul eins og rótlaust þangið í ljóði Jóhanns Sigurjónssonar; ,,Bylgjan, sem bar það uppi, var blóðug um sólarlag."


Stór-Tyrkland, þjóðarmorð og Kúrdar

Erdogan Tyrklandsforseti stefnir ætlar sér að taka landssvæði í Sýrlandi og Írak sem byggð eru Kúrdum og innlima í Tyrkland. Verkefnið kallast Stór-Tyrkland. Tilgangurinn er að ganga á milli bols og höfuðs á sjálfstæðisbaráttu Kúrda, sem eru fjölmennir í austurhluta Tyrklands og landamærahéruðum Sýrlands og Írak.

Tyrkir eru vanir róttækum aðgerðum til að tryggja hagsmuni sína. Þeir efndu fyrir hundrað árum til þjóðarmorðs á Armenum.

Tyrkir eru Nató-ríki frá kalda stríðinu og njóta skjóls frá ráðamönnum í Bandaríkjunum og Evrópu. 


mbl.is Tyrkir hafna boði Macron
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

60% fylgi ríkisstjórnar, Framsókn - Miðflokkur sameinast

Ríkisstjórnin fær afgerandi fylgi þrátt fyrir að hart væri sótt að henni, m.a. með vantrausttillögu vinstriflokka á alþingi. Með 60 prósent fylgi er ríkisstjórninni allir vegir færir.

Annað í könnun Gallup fer nokkuð undir radarinn í umræðunni. Miðflokkur Sigmundar Davíðs er á pari við Framsóknarflokkinn, og er með yfirtökin í Reykjavík, samkvæmt annarri könnun. Þetta þýðir að Framsóknarflokkurinn getur ekki beðið og vonað að Miðflokkurinn koðni niður.

Fyrirsjáanleg er umræða um sameiningu Framsóknar og Miðflokks. Að upplagi eru aðstandendur flokkanna raunsæismenn í pólitík. Fyrir næstu þingkosningar verða þeir komnir í eina sæng. Vitið til. 


mbl.is Stuðningur við ríkisstjórnina minnkar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Katrín og miskunnarlausir fjölmiðlar

Á ráðstefnu OECD sagði Katrín Jakobsdóttir eftirfarandi um fjölmiðla:

Embættismenn og kjörnir fulltrúar verða að læra að lifa í umhverfi þar sem störf þeirra eru stöðugt undir eftirliti, þar sem gagnrýni, stundum ósanngjörn, á sér stað og þar sem fjölmiðlar eru miskunnarlausir. Það er meðal annars þess vegna sem ég tel ríkisrekna fjölmiðla svo mikilvæga í hverju lýðræðisríki.

Af orðum Katrínar að ráða eru aðrir fjölmiðlar en þeir ríkisreknu miskunnarlausir. Sennilega hlustar forsætisráðherra ekki mikið á RÚV.


mbl.is Katrín fundaði með framkvæmdastjórum OECD
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Miðaldra fólk stjórnar - sem betur fer

Miðaldra fólk stjórnar heiminum, oftast karlar en í vaxandi mæli konur. Og þannig á það að vera. Æskan getur ekki stjórnað. Ungt fólk á fullt í fangi með að stjórna sjálfu sér.

Líffræðilegt hlutverk ungs fólks er að fjölga sér. Hormónastarfsemin sem fylgir hlutverkinu hefur áhrif á dómgreindina, ungmenni hugsa um það sem því sjálfu er næst enda makaval næst mikilvægasta ákvörðun lífsins - á eftir fæðingunni.

Rómverjar hleyptu engum að í öldungaráðinu nema að hafa fyllt 40 ár og gengt herþjónustu í tíu ár. Öldungar stjórnuðu Spörtu og Karþagó.Í frumstæðum þjóðfélögum er leitað ráða hjá þeim eldri þegar stórákvarðanir eru teknar. Menningarþjóðir eins og Kína og Japan hleypa sjaldnast unglingum undir fertugt í valdastóla.

Óli Björn Kárason þingmaður vekur máls á fordómum gangvert þeim eldri og reyndari, einkum miðaldra hægrikörlum. Þessir fordómar vaða fram af minnsta tilefni, iðulega frá fólki sem stendur á jaðrinum, er ungt eða vitlaust, oft hvorttveggja.

Ungt fólk á að hlusta á þá eldri, skilja heiminn áður en það reynir að breyta honum, til að það öðlist hæfni að axla ábyrgð á öðru en sjálfu sér.  


Norður-Kórea er fullvalda, eða þannig

Í alþjóðasamfélaginu er ekkert ríki fullvalda í fyllstu merkingu orðsins. Ríki eru í margvíslegu samstarfi sín á milli, sem með einum eða öðrum hætti skerða fullveldi þeirra. Aðeins ríki sem kosta kapps að einangra sig frá umheiminum nálgast það að vera fullvalda í ströngum skilningi, t.d. Norður-Kórea.

Ísland er í Nató af sögulegum ástæðum. Hér var stofnað lýðveldi í lok seinna stríðs. Um leið og stríðinu lauk skiptist heimurinn upp í kommúnískt austur og vestrænt vestur. Ísland valdi vestur. Eðlilega.

Hlutverki Nató lauk með kalda stríðinu. Enginn óvinur í austri sat lengur um vestræn lýðræðisríki. Illu heilli var Nató ekki lagt niður eins og Varsjárbandalag kommúnistaríkja. Nató varð að verkfæri Bandaríkjanna, Breta og Evrópusambandsins til að þvinga fram pólitískar lausnir í Austur-Evrópu og miðausturlöndum sem höfðu ekkert með varðstöðu gegn ásælni kommúnisma að gera.

Engu að síður var rétt af Íslandi að halda áfram aðildinni að Nató. Ásamt varnarsamningi við Bandaríkin er Nató skásta tryggingin fyrir því að Ísland verði ekki leiksoppur stórvelda í viðsjárverðum heimi.

Aðild að Nató á þó ekki að þýða að Ísland verði hundur í bandi herskárra stríðsmangara í Washington, London eða Brussel. Það á ekki síst við þegar um samskipti við Rússland er að ræða. Rússland/Sovétríkin reyndust okkur vel þegar við glímdum við Nató-þjóðina Bretland um yfirráðin yfir fiskimiðum okkar. Það er geymt en ekki gleymt að Bretland sendi herskip á Íslandsmið til að koma í veg fyrir fullveldisrétt okkar.

Síðustu daga og vikur reyna ráðamenn í London að telja alþjóð trú um að rússnesk yfirvöld standi á bakvið banatilræði við rússnesk feðgin á breskri grundu. Faðirinn er fyrrum njósnari, sem dæmdur var í Rússlandi árið 2004 en fékk frelsi 2010 í fangaskiptum við Bretland. Ef njósnarinn var mikilvægur þjóðaröryggi Rússlands hefði honum aldrei verið hleypt úr fangelsi. Rússnesk yfirvöld er sek um eitt og annað en sjaldnast um frámunalega heimsku.

Engar sannanir eru fyrir aðild rússneskra yfirvalda að bandatilræðinu. Alls engar. Kringumstæðurök, að eitrið hafi verið framleitt í Rússlandi, eru veik. Hvers vegna lá svona mikið á að kenna yfirvöldum í Moskvu um tilræðið? Svarið liggur í breskum innanríkismálum. Stjórn Theresu May berst fyrir pólitísku lífi sínu vegna erfiðleika við að losna úr Evrópusambandinu, Brexit. Ekkert sameinar þjóðir betur en öflugur erlendur óvinur.

Þeir sem líta á banatilræðið í Sailsbury hlutlægum augum, t.d. Tom Switzer (sjá einnig hlekki í grein hans), sjá hve málatilbúnaður bresku ríkisstjórnarinnar er veikur.

Ríkisstjórn Íslands, og Guðlaugur Þórðarson utanríkisráðherra, tók skásta kostinn í ómögulegri stöðu. Við rákum enga Rússa úr landi en aflýstum fundum til að brjóta ekki vestræna samstöðu. Ef það er svo, sem ekki er vitað, að utanríkisráðherra hafi látið Breta vita að sönnunargögnin fyrir aðild Moskvu að tilræðinu haldi ekki vatni, yrði það góður plús.

Ísland er fullvalda, bara ekki eins fullvalda og Norður-Kórea. Enginn grætur þá staðreynd. 


mbl.is Segir Ísland ekki fullvalda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kalt stríð Nató og Rússlands - ný gögn

Rússum var talin trú um að Nató myndi ekki stækka í austur og ógna þar með landamærum Rússlands. Bandarískar og rússneskar heimildir, sem voru gerð opinberar fyrir tíu dögum, staðfesta að Nató-ríkin, með Bandaríkin í fararbroddi, gáfu vilyrði til Rússa um að þeir yrðu með í ráðum um öryggishagsmuni Mið- og Austur-Evrópu.

Vilyrðin voru gefin að loknu kalda stríðinu og sameiningu Þýskalands. Nató stóð ekki við orð sín. Útþensla Nató í austurátt hófst fyrir aldamót með viðtöku Tékklands, Póllands og Ungverjalands. Tíu árum áður voru þessi ríki í hernaðarbandalagi með Sovétríkjunum/Rússlandi.

Þrátt fyrir mótmæli Rússa hélt Nató áfram að vígvæðast í austurátt. Eystrasaltsríkin ásamt Rúmeníu, Búlgaríu, Slóvakíu og Slóveníu urðu Nató-þjóðir 2004.

Á nærfellt öllum vesturlandamærum Rússlands voru Nató-herir á fyrsta áratug aldarinnar. Þegar til stóð að innlima Úkraínu í Nató spyrntu Rússar við fæti. Afleiðingin var borgarastyrjöld sem enn stendur.

Bandaríkin og Nató-ríkin ætluðu sér að einangra Rússland eftir lok kalda stríðsins. Sá ásetningur er enn fyrir hendi, eins og nýleg dæmi sanna. 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband