Dýrt Ísland er gott Ísland

Ísland er dýrt ferðamannaland sökum þess að hér er velmegun. Krónan er sterk, sem auðveldar Íslendingum að ferðast til útlanda en er útlendingum dýr kostur.

Líklega er Ísland ekki nógu dýrt. Hér er þensla sem gæti reynst hættuleg þjóðarbúskapnum ef ekki tekst að tempra hana í tíma.

Það er hlutverk stjórnvalda og seðlabanka að sjá til þess að Ísland sé hæfilega dýrt. Það skapar mestu hagsældina.


mbl.is Ísland dýrast í Evrópu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Löðrungur vekur Palestínumenn

Stjórnvöld í Palestínu hafa í áratugi haft hag af því að semja ekki um frið við Ísrael. Ráðamenn í Palestínu lifa í vellystingum praktuglega á erlendri þróunaraðstoð samtímis sem þeir kynda undir hatri á nágrönnum sínum og efna til ofbeldisverka.

Ótal tilraunir til að skapa frið milli Ísraela og Palestínumanna renna út í sandinn vegna þess að ráðandi öfl í Palestínu græða á ófriði. Með því að Trump hvorttveggja í senn viðurkennir Jerúsalem sem höfuðborg Ísrael og hyggst afturkalla fjárveitingar til Palestínu rennur upp fyrir palestínskum yfirvöldum að núverandi ástand er ekki sjálfbært.

Palestínumenn hafa notið stuðnings trúbræðra sinna í ríkjum múslíma fyrir botni Miðjarðarhafs. Þessi ríki sýna sig eitt af öðru vera misheppnuð. Almenningur rís upp gegn valdhöfum, sem missa lögmæti sitt og völdin iðulega í kjölfarið. Veikari múslímaríki eru síður í stakk búin að veita Palestínumönnum aðstoð. Upplausnarástand múslímaríkja sýnir að valið stendur iðulega á milli veraldlegrar harðstjórnar eða trúarríkis. Ekki eykur það samúð með Palestínumönnum sem búa við trúarríki Hamas á Gasa-ströndinni en veraldlega harðstjórn á vesturbakkanum.

Palestínumenn hafa í áratugi komist upp með að neita tilvistarrétti Ísraelsríkis. Þar stendur hnífurinn í kúnni. Þegar Palestínumenn viðurkenna Ísrael sem lögmætt og fullvalda ríki er hægt að semja um landamæri. Fyrr ekki.


mbl.is Samningur Trumps „löðrungur aldarinnar“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bíllaus miðborg, höfum borgarlínuna þar

Ef miðborgin yrði bíllaus væri hægt að setja upp borgarlínu frá bílastæðum í jaðri miðborgarinnar, til dæmis Vatnsmýri og með landfyllingu austur af Hörpu eða vestur af Laugarnesi.

Ef vel tækist til yrði miðborgin það aðdráttarafl sem hún ekki er í dag, eins og Sigmundur Davíð bendir réttilega á.

Annar meginkostur við slíkt skipulag er að vinstrimenn fengju sína borgarlínu, þ.e. í miðborginni þar þeir eiga flestir heima, en hægrimenn í úthverfum og nágrannabyggðum héldu einkabílnum sínum.


mbl.is Sigmundur: Borgarlínan getur ekki gengið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Karlmennska og sjálfsvíg; umræða og þöggun

Karlamenning, bæði í íþróttum og á öðrum sviðum samfélagsins, er eflaust ein ástæða fyrir hegðun sumra karla gagnvart konum, sem er frá því að vera óviðeigandi yfir í að vera kynferðisbrot. Karlamenning kemur einnig við sögu í sjálfsvígum, þar eð körlum er hættara við þeim en konum.

Í fyrra tilvikinu, hegðun karla gagnvart konum, er umræða talin æskileg til að varpa ljósi á umfangið og finna leiðir til úrbóta. Í seinni tilvikinu, sjálfsvígum, einkum ungra karla, er umræða talin varhugaverð, hún geti beinlínis ýtt einhverjum fram af bjargbrúninni.

Karlmennska er sjaldnast í umræðunni nema þá í neikvæðu samhengi; um yfirgang karla, áhættusækni og skort á mannasiðum. Annað einkenni er að það eru fremur konur en karlar sem ræða karlmennskuna. Körlum er ekki tamt að ræða um sjálfa sig sem kyn en konur búa þar að hefð sem mæld er í áratugum.

Líklega erum við á þeim stað í umræðunni að það stendur yfir uppgjör gagnvart karlamenningu sem áður var viðtekin og almennt samþykkt en þykir núna úrelt og sætir fordæmingu. Ný karlamenning hefur ekki enn tekið á sig mynd. Karlar fóta sig illa í umræðunni, framlag þeirra er lítið og fálmkennt.

Konur tala sjaldan um kvenmennsku þótt karlmennsku beri oft á góma. Kannski er lausnin á vanda karlmennskunnar að fella talið um karlamenningu og ræða málin út frá mennsku. Bæði kynin eiga mennskuna sameiginlega. Eða ætti maður kannski að segja öll kynin?


mbl.is Arfleifð gamaldags karlmennskukúltúrs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Trúarstef í stjórnmálum: Trump og Oprah

Stór-Ameríka, sem Trump var kjörinn forseti út á fyrir ári er trúarstef. Stefið fær útlistun í mörgum ólíkum útgáfum, t.d. hjá Láru Ingraham þar sem hún situr í myndveri Fox og spyr hvít í bláu með gylltan kross á bringu: hvað er Ameríka?

Oprah Winfrey, sem gæti orðið forsetaframbjóðandi 2020, sveipar sig trúarstefjum. Kurt Andersen kennir trúarstef Oprah við hjávísindi og nýaldarspeki, sem boða að maður hugsi til sín frægð og frama. (Segir okkur í leiðinni að Trump og Oprah eru miklir hugsuðir, samanber frægð þeirra og frama.)

Trump og Oprah koma bæði úr bandarískum afþreyingariðnaði. Sá iðnaður býr til sögulega fortíð er hæfir samtímanum, segir Bretinn Simon Jenkins.

Trúarstef vísa í veruleika handan hversdagsins. Trump og Oprah eru í þeim skilningi spámenn almættisins. Og almenningur fylgir þeim enda hversdagsleikinn grár en almættið gyllt.

 


mbl.is Snjallt eða Oprahktískt?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flóttamenn og skítalönd

Trump hitti á taug þegar hann kallaði ónafngreind ríki ,,skítalönd". Þau ríki sem taka ummælin til sín eru flest upprunalönd milljóna flóttamanna sem flæða inn í Vestur-Evrópu og Bandaríkin og Kanada.

Umræðan næstu daga mun tengja saman þessi tvö atriði, flóttamenn og skítalönd. Spurt verður: hvað á að kalla þau þjóðríki sem búa þegnum sínum þær aðstæður að þeir kjósa að flýja land?

,,Skítaland" er tæplega prenthæft dólgsyrði og ekki nothæft. ,,Þriðji heimurinn" var notað í kalda stríðinu en það er sögulega úrelt hugtak. ,,Þróunarlönd" var í tísku um árabil en skaraðist við hugmyndina um ,,nýmarkaðsríki". Stundum er notað ,,fátæk ríki" en það á tæplega við olíuauðug lönd fyrir botni Miðjarðarhafs.

Ef samstaða næst um valkost við ,,skítalönd", en það er alls óvíst, þarf orðið að gefa til kynna hvers vegna þessi lönd virka ekki betur fyrir þegna sína en raun ber vitni.


mbl.is Krefja Trump um afsökunarbeiðni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samanburður á skítaþjóðum

Í Japan eru Bandaríkin heimili skítaþjóðar. Þaðan koma hermenn sem kunna ekki japanska háttvísi og bandarískar sendingar dagsettar 6. og 9. ágúst 1945 gleymast ekki. Í Póllandi er þýska þjóðin skítleg fyrir yfirgang ár og síð.

Í fáum orðum sagt eru allar þjóðir skítlegar í augum einhverra annarra. Það er ekkert nýtt.

Aftur er nýtt að orðfæri ættað úr frumhvötinni ,,við" og ,,þeir" er orðið að talsmáta þjóðarleiðtoga. Milliliðurinn, sem fleytir talsmáta frummannsins inn í samtímann, heitir samfélagsmiðlar.

En samfélagsmiðlar eiga að færa okkur nær hvert öðru, auka skilning og mynda tengsl.

Eitthvað fór verulega úrskeiðis. 


mbl.is „Þetta fólk frá þessum skítalöndum“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Arabíska vorið og takmörk lýðræðis

Túnis var upphaf og fyrirmynd arabíska vorsins 2011 þegar milljónir íbúa ríkja í Norður-Afríku og miðausturlöndum kröfðust breyttra stjórnarhátta. Í orði kveðnu var markmiðið að gera almenning sáttari við stjórnskipun ríkja sinna og skapa stöðugleika.

Í yfirliti Guardian um stöðu mála í þessum heimshluta kemur fram að arabíska vorið misheppnaðist alls staðar nema kannski í Túnis, þar sem úrslitin eru tvísýn í ljósi síðustu atburða.

Lýðræði var samnefnari arabíska vorsins. Í stað þess að verða sýnidæmi um kosti lýðræðisins umfram annað fyrirkomulag stjórnskipunar sýnir arabíska vorið takmarkanir þess. Það er ekki svo að lýðræðinu vegni betur í öðrum heimshlutum.

Í Austur-Evrópuríkjum eins og Póllandi og Ungverjalandi er ekki skriður á lýðræðinu. Nær væri að tala um hnignun þess. Í Vestur-Evrópu leiddi lýðræðið, Brexit-kosningarnar, beinlínis til þess að ríkjasamtök sem kenna sig við lýðræðislega stjórnskipum, þ.e. Evrópusambandið, eru komin í ógöngur. Jafnvel vagga lýðræðisins, Bandaríkin, sýnir einkenni upplausnar, með eftirmálum af kjöri Trump sem forseta.

Lýðræðið, eins og það hefur þróast í heiminum frá lokum seinni heimsstyrjaldar, virðist í hamskiptum. Fyrri einkenni þess, samfélagsfriður og efnahagslegur stöðugleiki, gefa eftir, einkum samfélagsfriðurinn, án þess að ný einkenni séu fyllilega búin að taka á sig mynd.


mbl.is Vaxandi spenna í Túnis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vantraustið er innan ASÍ

Verkalýðshreyfingin hefur aldrei verið valdameiri en hún er í dag. Ekki aðeins gerir hún valdatilkall á stjórnvöld og fær áheyrn heldur stjórnar verkalýðshreyfingin í gegnum lífeyrissjóði mörgum stærstu fyrirtækjum landsins.

Skyldi ætla að verkalýðshreyfingin væri nokkuð sátt við sinn hlut.

En það er öðru nær. Í verkalýðshreyfingunni er hver höndin upp á móti annarri. Formaður VR sakar forseta ASÍ um launráð og sjómenn og landverkafólk í Grindavík segja sig úr ASÍ á einu bretti.

Vantraustið innan ASÍ er vandamálið, ekki að það skorti á traust milli verkalýðshreyfingar og stjórnvalda.


mbl.is Mikið vantraust á milli aðila
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ofbeldi eykst með umfjöllun

Eftir því sem umfjöllun um ofbeldi verður meiri í opinberri umræðu eykst ofbeldið í samfélaginu. Tvær ástæður eru fyrir því. Í fyrsta lagi fjölgar þeim sem stíga fram og telja sig hafa orðið fyrir ofbeldi. (Gerendur koma nær aldrei fram að fyrra bragði).

Í öðru lagi verður fólk næmara á ofbeldi en áður, einfaldlega vegna þess að umræðan víkkar út skilgreininguna á ofbeldi sökum fyrirferðarinnar.

Ofbeldi sem hugtak er ekki meitlað í stein. Við skilgreinum það á annan veg í dag en við gerðum fyrir 15 árum. Og enginn býr yfir því kennivaldi í samfélaginu að geta lagt fram óvefengjanlega skilgreiningu á ofbeldi.

Mótsögnin sem við er að glíma er eftirfarandi. Umfjöllun um ofbeldi hjálpar fórnarlömbum að ná réttlæti og fá ofbeldið stöðvað. Það er jákvætt. Aftur er neikvætt að við förum að trúa því að ofbeldi þrífist í hverjum krók og kima; að við búum í ofbeldissamfélagi.

Því ef við trúum að samfélagið sé gegnsýrt ofbeldi verður það hversdags, hluti af mannlífinu. Og það viljum við ekki.


mbl.is Undir niðri býr fjöldi fólks við ofbeldi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband