Karlmennska og sjálfsvíg; umræða og þöggun

Karlamenning, bæði í íþróttum og á öðrum sviðum samfélagsins, er eflaust ein ástæða fyrir hegðun sumra karla gagnvart konum, sem er frá því að vera óviðeigandi yfir í að vera kynferðisbrot. Karlamenning kemur einnig við sögu í sjálfsvígum, þar eð körlum er hættara við þeim en konum.

Í fyrra tilvikinu, hegðun karla gagnvart konum, er umræða talin æskileg til að varpa ljósi á umfangið og finna leiðir til úrbóta. Í seinni tilvikinu, sjálfsvígum, einkum ungra karla, er umræða talin varhugaverð, hún geti beinlínis ýtt einhverjum fram af bjargbrúninni.

Karlmennska er sjaldnast í umræðunni nema þá í neikvæðu samhengi; um yfirgang karla, áhættusækni og skort á mannasiðum. Annað einkenni er að það eru fremur konur en karlar sem ræða karlmennskuna. Körlum er ekki tamt að ræða um sjálfa sig sem kyn en konur búa þar að hefð sem mæld er í áratugum.

Líklega erum við á þeim stað í umræðunni að það stendur yfir uppgjör gagnvart karlamenningu sem áður var viðtekin og almennt samþykkt en þykir núna úrelt og sætir fordæmingu. Ný karlamenning hefur ekki enn tekið á sig mynd. Karlar fóta sig illa í umræðunni, framlag þeirra er lítið og fálmkennt.

Konur tala sjaldan um kvenmennsku þótt karlmennsku beri oft á góma. Kannski er lausnin á vanda karlmennskunnar að fella talið um karlamenningu og ræða málin út frá mennsku. Bæði kynin eiga mennskuna sameiginlega. Eða ætti maður kannski að segja öll kynin?


mbl.is Arfleifð gamaldags karlmennskukúltúrs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband