Óreiðufólkið segir skilið við samfélagið

Stjórnarskráin kveður á um ,,friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu." Óreiðufólkið sem undanfarið gerir hávaða á Austurvelli hyggst efna til mótmæla við heimili fjármálaráðherra. Í anda hryðjuverkasamtaka hótar óreiðufólkið aðför að heimilum annarra ráðherra. Samkvæmt Eyjunni

Kröfurnar eru þær að ríkisstjórnin segi af sér og mynduð verði utanþingsstjórn. Þá verði sett dagsetning á kosningar, ekki síðar en 10. september. Verði ríkisstjórnin ekki við þessum körfum verði mótmælt við heimili Bjarna klukkan 19 þann 1. maí næstkomandi.

Liðsmenn óreiðufólksins eru klofnir í afstöðunni til mótmælanna. Meðal þeirra sem andæfa þeim eru formaður Samfylkingar og Guðmundur Andri Thorsson. Aðrir taka undir.

Óreiðufólkið er ekki einn heilsteyptur hópur manna. Trúlega köstuðu hvorki Árni Páll né Guðmundur Andri eggjum á alþingishúsið fyrr í mánuðinum, þegar mótmælahrinan hófst. En eins og jafnan í pólitískri upplausn ráða þeir ferðinni sem ,,er mest vilja í gegn gangast", svo notað sé orðfæri Þorgeirs Ljósvetningagoða fyrir þúsund árum.

Aðför að heimilum fólks er aðför að samfélagi okkar.


Óttar gleymdi Garðari

Svíar ollu Íslendingum löngum búsifjum og gera enn, eins og Óttar Guðmundsson rekur í pistli. Fjandskapur Svía byrjar fyrir landnám. Útsendari þeirra reyndi að festa landinu lítilmótlegt nafn sem engin ærleg þjóð gæti kennt sig við. Samkvæmt Landnámu

Maður hét Garðar Svavarsson, sænskur að ætt; hann fór að leita Snælands að tilvísan móður sinnar framsýnnar. Hann kom að landi fyrir austan Horn hið eystra; þar var þá höfn. Garðar sigldi umhverfis landið og vissi, að það var eyland.[...] Eftir það var landið kallað Garðarshólmur...

Svíar reyndu í öndverðu að gera úr okkur Garðarshólmara. Svei þeim.

 

 


Katrín og frekjuvandi vinstrimanna

Katrín Jakobsdóttir krossleggur hendur með mæðusvip á ljósmyndinni af fundi stjórnarandstöðunnar með leiðtogum stjórnarflokkanna í stjórnarráðinu. Formaður Vinstri grænna gaf frá sér forsetaframboð, ekki síst vegna áskoranna vinstrimanna um að þá vantaði leiðtoga á alþingi.

Kosningar í október útiloka að vinstrimenn nái saman um eitt framboð. Sáralitlar líkur eru á kosningabandalagi með Pírötum sem fiska á sömu grunnmiðum og vinstriflokkarnir. Alþýðuflokkurinn, afsakið, Samfylkingin, heldur landsfund í sumar til að velja formann sem mun ráða því hvoru megin við tíu prósentin fylgið verður í haust. Björt framtíð berst fyrir lífi sínu og nær tæplega fimm prósent.

Allt frá lýðveldisstofnun berjast vinstrimenn við frekjuvanda, sem lýsir sér í því að meginfylkingar þeirra ala með sér andstyggð hvor á hinni. Ómar Ragnarsson rifjar upp litla dæmisögu frá áttunda áratugnum þegar Gvendur jaki gat ekki fagnað kosningasigri Alþýðubandalagsins vegna þess að 'kratahelvítin' fengu jafnmarga þingmenn.

Á bakvið frekjuvandann er pólitískur veruleiki. Sósíalistar á Íslandi eru að upplagi róttækir framsóknarmenn. Við lýðveldisstofnun voru Einar Olgeirsson og félagar harðir þjóðernissinnar á meðan Alþýðuflokkurinn vildi ekki skera á tengslin við Danmörku. Kratar lufsuðust til að stofna lýðveldi þvert gegn sannfærinu sinni. Alveg eins og Vinstri grænir samþykktu þvert gegn vilja sínum að sækja um aðild að Evrópusambandinu 2009.

Umsókn Samfylkingar um ESB-aðild er óuppgerð. Samfylkingin neitar að læra af þeim mistökum, það hyggi of nærri kratahjartanu.

Eini möguleiki vinstriflokkanna á árangri er að stjórnarflokkarnir klúðri málum hressilega. Sjálfstæðisflokkurinn gaf færi á stórsigri vinstriflokkanna 1979 með frjálshyggjutilraun ,,leiftursókn gegn lífskjörum." Önnur tilraun með frjálshyggju endaði með hruninu 2008 og skóp ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttir árið eftir.

Trúlausir vinstrimenn leggjast á bæn og biðja þess að ríkisstjórn Sigurðar Inga Jóhannssonar verði á stórkosleg handvömm. Mæðusvipurinn á Katrínu Jakobsdóttur vekur ekki vonir um bjarta tíð vinstrimanna.


mbl.is Kosningar í október
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óttar og fallin sjálfsábyrgð

Óttar Guðmundsson geðlæknir gagnrýndi í viðtali sjúkdómavæðinguna, einkum þann hluta sem snýr að andlegu heilbrigði. Skilaboð samfélagsins, í fjölmiðlum og á fésbókum, er að við eigum öll að eiga hamingjuríkt líf með endalausum skemmtilegum atvikum og miðla með sjálfsmyndum á fésinu.

Þeir sem eiga misjafna daga eru með böggum hildar og finnst samfélagið skulda sér hamingju. Ef ekki vill betur er hægt að ýkja vansældina og fá fjölmiðil að taka við sig viðtal og fá þannig frægð í einn dag eða yfir helgl. Frægð er þrátt fyrir allt ein tegund hamingju.

Niðurbrot á veggnum sem aðskilur einkalíf frá opinberum vettvangi fóstrar þá hugmynd að maður sjálfur ber ekki ábyrgð á eigin lífi heldur samfélagið. Niðurfelling sjálfsábyrgðar ýtir undir þann skilning að aðrir en maður sjálfur gefi lífinu tilgang. Og þá er illt í efni. Einstaklingur sem fær lífshamingjuna frá hinu opinbera er ekki lengur sjálfráða.

 


Hugsjón ekki í forgang er merkingarleysa

Áfengisfrumvarp, sem myndi færa áfengi inn í matvöruverslanir, er ,,ekki forgangsmál heldur hugsjónamál," segir þingmaðurinn að baki frumvarpinu.

Hugsjón í stjórnmálum er sannfæring um hvernig samfélagsmálum skuli skipað. Af sjálfu leiðir eru hugsjónamál í forgangi.

Að segja áfengisfrumvarp hugsjón án forgangs er merkingarleysa. Áfengisfrumvarpið er í raun sérviska - og ætti ekki undir nokkrum kringumstæðum að ná fram að ganga.  


mbl.is Óvíst með áfengisfrumvarp
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Góðlátlegt hatur Vilhjálms á Framsókn

Framsóknarflokkurinn var sigurvegarinn í Icesave-málinu og líklegri til að ná árangri í samskiptum við erlenda kröfuhafa en Sjálfstæðisflokkurinn. Það er meginskýring kosningasigurs Framsóknarflokksins 2013.

Formaður og varaformaður Sjálfstæðisflokksins útilokuðu að flokkurinn fengi forsætisráðuneytið í hallarbyltingu RÚV í byrjun apríl. Hallarbyltingunni var stefnt gegn aflandseyingum og þar voru Engeyingar og Nordalar.

Góðlátlegt hatur Vilhjálms Bjarnasonar á Framsóknarflokknum verður að skýra með hvernig komið er fyrir jaðarhópi innan Sjálfstæðisflokksins, sem Vilhjálmur tilheyrir, og heitir samfylkingardeildin.


mbl.is „Smáflokkur með mikilmennskubrjálæði“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Krónan er alvöru gjaldmiðill, evran ekki

Kreppan í Evrópu er svo djúp og víðtæk að seðlabanki evrunnar íhugar að breyta gjaldmiðlinum í spilapeninga sem dreift verður til almennings með þyrlu. Þjóðverjar kalla fyrirbærið ,,Helikopter-Kapialismus" sem muni breyta leikreglum efnahagslífsins.

Ókeypis peningar af himnum ofan leiða vitanlega til þess að meginhvati efnahagskerfisins hættir að virka. Enginn veit hverjar afleiðingarnar verða en nú þegar er bólumyndun á fasteignamarkaði og í verðbréfum. 

Íslenska krónan, á hinn bóginn, er alvöru gjaldmiðill sem ber vexti og þjónar tilgangi sínum, sem er að endurspegla efnahagsleg verðmæti.


mbl.is Undirstöður stöðugleika styrkjast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þrjú fjölmiðlaframboð til forseta

Guðni Th. Jóhannesson var búinn til sem forsetaframbjóðandi af RÚV í byrjun mánaðar. Framboðið er aukaafurð aðfararinnar að forsætisráðherra.

Ólafur Ragnar Grímsson er með 365 miðla á bakvið sig allt frá 2004 þegar hann bjargaði fyrirtækinu frá fjölmiðlalögum.

Inn í þessa jöfnu vantar framboð Morgunblaðsins.

 


mbl.is Guðni Th.: Fyrsta sem ég sá var Ólafur Ragnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Góðæri í landinu, hallæri í pólitík

Fræg setning úr bandarískum stjórnmálum ,,it is the economy, stupid" á ekki við um Ísland þessi misserin. Efnahagur þjóðarinnar batnar jafnt og þétt allt kjörtímabilið en samt ríkir hallæri í pólitíkinni.

Án stórbreytinga í stjórnmálum fyrir næstu þingkosningar er hætt við að pólitísk óreiða leiði okkur í efnahagslegt öngþveiti. Vandinn er að góðærið, sem nú ríkir, á sér engin pólitískan bakhjarl.

Undir eðlilegum kringumstæðum nyti sitjandi ríkisstjórn góðærisins. Ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks ætti að fá byr í seglin en sætir andstreymi. Erfiðleikar ríkisstjórnarinnar að njóta sannmælis stafa af almennu vantrausti í garð stjórnmála.

Traust í stjórnmálum vex best næst botni. Það sást greinilega á mótmælum á Austurvelli i byrjun mánaðar. Vantraust á forsætisráðherra og ríkisstjórninni skaut Ólafi Ragnari upp á stjörnuhimininn í mælingu á trausti. Forsetinn nýtti sér aðstæður og ákvað að bjóða sig fram til endurkjörs.

Þjóðin stendur frammi fyrir tvennum kosningum næstu misserin. Í sumar verður kosinn forseti og í síðasta lagi vorið 2017 fara fram þingkosningar. Leið stjórnarflokkanna að árangri í þingkosningunum liggur í gegnum forsetakosningarnar.

Eftir því sem forsetakosningarnar verða pólitískari verður meiri eftirspurn eftir stöðugleika í þingkosningunum. Stjórnarflokkarnir eru framboð stöðugleika, eðli málsins samkvæmt.

Við tökum litla áhættu með pólitískum forsetakosningum. Bessastaðir stjórna ekki efnahagskerfinu.


mbl.is Besta staða frá stríðslokum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Forsetaframboð Davíðs - þingkosningar 2017

Ef Davíð Oddsson gæfi kost á sér sem forseta, og ynni, yrðu ekki þingkosningar fyrr en vorið 2017. Sjálfkrafa myndu þær forsetakosningar snúast um hvort Ólafur Ragnar Grímsson breytti rétt þegar Sigmundur Davíð Gunnlaugsson varð að segja af sér embætti forsætisráðherra.

Davíð færi fram undir þeim formerkjum að forsetaembættið hefði verið misnotað í þágu forsetans, sem gerði sér mat úr aðför RÚV að forsætisráðherra. Ákvörðun Ólafs Ragnars að neita Sigmundi Davíð um þingrofsheimild gekk þvert á viðtekna venju um að heimild til þingrofs væri í hendi forsætisráðherra. Með því að Ólafur Ragnar ákvað eftir stjórnarkreppuna að bjóða sig fram að nýju standa rök til þess að pólitískt mat fari fram á neitun þingrofsheimildarinnar. Þjóðin myndi skera úr matinu í beinum kosningum - forsetakosningum.

Davíð byði sig fram sem talsmaður þingræðis. Ólafur Ragnar yrði að verja forsetaræði, sem hann sjálfur hefur þróað síðustu tvo áratugi.

Ef Davíð sigraði Ólaf Ragnar hafnaði þjóðin forsetaræðinu og þingræðið fengi framgang með því að alþingi sæti til loka kjörtímabilsins.


mbl.is „Þekki fólk sem ætlar að gifta sig“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband