Góða fólkið: lýðræði er fyrir Steingrím J. ekki Ólaf Ragnar

Góða fólkið, vinstrimenn með pírataívafi, er ósátt við að Ólafur Ragnar Grímsson bjóði sig fram til forseta. Þau rök eru notuð að það sé ólýðræðislegt af Ólafi Ragnari að sækjast eftir endurkjöri.

Steingrímur J. Sigfússon þingmaður Vinstri grænna er níu sinnum búinn að bjóða sig fram til alþingis og setið á þingi frá 1983 - í 33 ár.

Góða fólkið telur lýðræði aðeins gilda fyrir suma.


Birgitta/Píratar valdeflast í óreiðu

Birgitta Jónsdóttir leiðtogi Pírata er með böggum hildar eftir ákvörðun Ólafs Ragnars Grímssonar að bjóða sig fram til forseta. Píratar fiska best í gruggu vatni óreiðustjórnmála.

Ákvörðun Ólafs Ragnars leiðir til aukinnar stjórnfestu og í leiðinni takmarkast svigrúm Pírata og annarra sem gera út á stjórnmál upplausnar.

Auknar líkur eru á að þingkosningarnar í haust verði málefnalegri og yfirvegaðri en annars hefði orðið. Óreyndur forseti á Bessastöðum gæti hæglega orðið leiksoppur upplausnarliðsins.


mbl.is Forsetinn skapaði óvissuna sjálfur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ólafur Ragnar auðveldar framgang lýðræðisins

Ákvörðun Ólafs Ragnars Grímssonar að bjóða fram þjónustu sína í enn annað kjörtímabil auðveldar framgang lýðræðisins. Við getum núna einhent okkur í undirbúning næstu þingkosninga.

Með Ólaf Ragnar sem stjórnskipulega kjölfestu verður óreiðan minni í stjórnmálum.

Takk, Ólafur Ragnar.


mbl.is Ólafur aftur í forsetaframboð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bernskan vill kjósa strax um ekkert, þeir eldri bíða umræðunnar

Yngri kjósendur vilja kjósa strax, segir könnun Gallup, þeir eldri bíða til loka kjörtímabilsins.

Ef við kysum innan tveggja mánaða yrði engin umræða. Flokkarnir myndu hrófla saman framboðum og lítt ígrunduð stefnumál yrðu blásin upp. Kosningarnar yrðu meira happadrætti en lýðræðislegt ferli. Í eðlilegum aðdraganda kosninga verða til málefni, sem eru vegin og metin, og fá óformlega afgreiðslu í umræðunni áður en kjósendur kveða upp úr.

Æðibunugangur æskunnar er í þessu tilviki nokkru síðri en yfirvegun þeirra eldri.

 


mbl.is Rúmur þriðjungur vill kosningar strax
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ESB ákallar kirkjuna um hjálp

Forseti Evrópuþingsins, Martin Schultz, óttast að ESB sé að rifna í sundur sakir óeiningar. Hann ákallar kaþólsku kirkjuna um aðstoð við að græða sárin sem sundurþykkjan opnar vegna ónýts gjaldmiðils, ágreinings um flóttamannastefnu og deilna um valdmörk ESB og þjóðríkja.

Kaþólska kirkjan var sameiningarafl Evrópu á miðöldum. Hún lagði til trúarsannfæringu og sameiginlegt tungumál, latínu. Undir vernd kirkjunnar óx fram valdastétt í Vestur-Evrópu sem átti meira sameiginlegt innbyrðis en með þegnum sínum, sem töluðu þjóðtungum og fundu lítt fyrir ábata yfirstéttarinnar af sameiginlegum gildum.

Bandalag kirkju og lénsvalds hratt sókn múslíma inn í Evrópu á ármiðöld og lagði grunninn að útþenslu Evrópuríkja til miðausturlanda á hámiðöldum. Í sækja múslímar inn í Evrópu sem farandfólk og reynir að koma sér fyrir í stórborgum álfunnar án þess að aðlagast vestrænum gildum.

Þótt kaþólska kikjan sé víða máttug ræður veraldarhyggja ferðinni, einkum í Vestur-Evrópu. Þar er spurt hvað virkar og hvað ekki. Eitt af því sem ekki virkar er gjaldmiðill ESB, evran. Jafnvel sauðtryggir ESB-sinnar segja daga evrunnar í núverandi mynd talda.

RobertSkidelsky vonast til að landar sínir á Bretlandi samþykki áframhaldandi ESB-aðild. Rök hans eru þau að þegar evran líður undir lok sé nauðsynlegt að Bretland byggi brú milli Norður- og Suður-Evrópu. Sjónarmiðið er heldur langsótt og lýsir örvæntingu ESB-sinna.


mbl.is Fleiri Bretar vilja úr ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 18. apríl 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband