RÚV viðurkennir mistök - nýjar siðareglur

Yfirstjórn RÚV viðurkennir að stofnunin brást í fréttaumfjöllun sinni um málefni forsætisráðherrahjónanna og ætlar að taka upp nýjar siðareglur. Þetta kemur fram í frétt á vísi.is

Menntamálaráðherra og yfirstjórn RÚV gerðu með sér samning þar sem segir m.a.

Í þágu gæða og fagmennsku er einnig gert ráð fyrir að starfsfólk Ríkisútvarpsins starfi eftir siðareglum og að fréttareglur fréttastofu verði uppfærðar. Jafnframt er kveðið sérstaklega á um hlutleysisskyldu fréttastofu og að ólík sjónarmið komi fram.

Yfirmenn RÚV skrifuðu undir samninginn sem jafngildir viðurkenningu, þótt óbeint sé, að fréttastofa RÚV fór út fyrir siðleg mörk, eins og bent hefur verið á.

RÚV þegir þunnu hljóði um samninginn en lætur samkeppnisaðila um að segja fréttina. Fer vel á því.


mbl.is Fyrsti hausinn fokinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sigmundur Davíð fórnar sér, bjargar ríkisstjórninni

Sigurður Ingi Jóhannesson sómir sér vel sem forsætisráðherra. Hann er traustur og veraldarvanur og það sem mestu skiptir: hann heldur ríkisstjórninni saman.

Sigmundur Davíð sýnir enn og aftur að hann tekur almannahagsmuni fram yfir persónulegan hag.

Stjórnarkreppu er afstýrt, við getum tekið á móti vorinu.


mbl.is Sigurður Ingi taki við af Sigmundi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Forsetinn og Sigmundur Davíð eru á einu máli

Þingræðisreglan felur í sér að ríkisstjórnin styðst við meirihluta á alþingi. Með því að forsætisráðherra segir forseta að efasemdir eru uppi um að meirihluti sé fyrir hendi á alþingi er eðlilegt að hann reifi þingrof - sem þýðir kosningar.

Ólafur Ragnar vill ekki rasa um ráð fram og biður Sigmund Davíð að hinkra og vita hvort sjálfstæðismenn vilji virkilega slíta ríkisstjórnarsamstarfinu.

Sjálfstæðismenn verða að átta sig á hörðum pólitískum staðreyndum og draga af þeim réttar ályktanir.

 


mbl.is Veitti ekki heimild til þingrofs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Pólitískar staðreyndir, persónur og uppákomur

Persóna forsætisráðherra var gerð að aðalmálinu í dramatískum þætti Kastljóss þar sem Sigmundi Davíð var gerð fyrirsát af siðlausum blaðamönnum. Dramatíkin þegar forsætisráðherra stóð upp og gekk úr fyrirsátinni bætti engu við efnisatriði málsins en var eingöngu ætluð til að láta hann koma illa fyrir í sjónvarpi.

Yfirvegaðir blaðamenn, t.d. á Guardian, benda á að engin gögn sýni fram á lögbrot eða óheiðarleika af hálfu forsætisráðherrahjónanna.

Pólitískar staðreyndir á Íslandi eru þær að enginn valkostur er við ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. Bæði í pólitík og í fylgi skera Píratar sig frá öðrum flokkum. Þeir eru stærstir í skoðanakönnunum út á það að hafa minnsta pólitík - og vera yngsta og óreyndasta stjórnmálaaflið.

Vorið 2017 eru næstu þingkosningar á dagskrá. Til að breyta þeirri dagsetningu og flýta kosningum þarf sterk pólitísk rök. ,,Umræðan" um persónu forsætisráðherra, sem RÚV hratt úr vör, er ekki þungvæg pólitísk rök.

Mótmælafundurinn á Austurvelli í gær er uppákoma í beinu framhaldi af dramatískum Kastljósþætti. Fundurinn var áhrifamikill þá stund sem hann stóð yfir en breytir engu um harðar pólitískar staðreyndir.

Stjórnmálamenn, og ríkisstjórnarmeirihlutinn sérstaklega, verða að sýna virðingu lýðræðislegum ákvörðunum þjóðar og þings. Þjóðin kaus sér þingmeirihluta 2013 sem myndaði sitjandi ríkisstjórn. Til að breyta snögglega þeirri pólitísku staðreynd verður pólitískt landslag að hafa gjörbreyst. Engu slíku er til að dreifa.

Hér varð pólitísk uppákoma sem engin rök standa til að setji varanlegt mark á íslensk stjórnmál. Nema, vitanlega, ríkisstjórnarmeirihlutinn ákveði að taka þátt í uppákomunni og slíti ríkisstjórnarsamstarfinu. Þá væri fokið í flest skjól. 


mbl.is Samstarfið ekki á bláþræði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Raunsæ pólitík í múgæsingu

Allt stjórnmálakerfið er í vantrausti hjá þjóðinni. Það er eina skýringin á fylgi Pírata í skoðanakönnnunum. Píratar eru yngsta stjórnmálaaflið og óskrifað blað. Ef stjórnarmeirihluti Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks brestur núna og efnt verður til kosninga mun vantraust þjóðarinnar ekki minnka heldur aukast.

Áhlaupið á forsætisráðherra er ekki sökum þess að pólitískar jarðhræringar séu á ferðinni heldur vegna þess að forsætisráðherra er eðli málsins samkvæmt oddviti stjórnmálakerfisins sem er í ónáði meðal þjóðarinnar. Fjölmiðlavaldið, með RÚV fremst í flokki, gerði atlögu að forsætisráðherra þar sem fjöður var gerð að hænsnabúi.

Ef stjórnarmeirihlutinn lætur áhlaupið takast og fellir forsætisráðherra þá er ríkisstjórnin fallin. Sundurþykkja milli Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks myndi auka á óreiðuna í íslenskum stjórnmálum.

Pólitískir valkostir við sitjandi ríkisstjórn eru engir raunhæfir. Yngsta og óskrifaða stjórnmálaaflið, Píratar, verða ekki stofuhæfir í stjórnarráðinu við það að kunna fátt og vera blautir á bakvið eyrum. Vinstriflokkarnir eru rjúkandi rúst frá síðustu kosningum; nýjar kosningar reisa ekki höll úr þeim rústum.

Ríkisstjórnin á að þétta raðirnar, sýna einhug og senda frá sér skýr skilaboð um að efnisatriði umræðunnar, Wintris-reikningur eiginkonu forsætisráðherra, gefur ekki tilefni til að ríkisstjórn Íslands fari frá völdum.


mbl.is Mjög hafi fjarað undan Sigmundi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 5. apríl 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband